06.04.1981
Efri deild: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3433 í B-deild Alþingistíðinda. (3496)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar deildar hefur fjallað ítarlega um það frv. til lánsfjárlaga, sem hér liggur fyrir, og haft samvinnu við fjh.- og viðskn. Nd. um málið. Í n. hafa verið haldnir fjölmargir fundir þar sem rætt hefur verið um einstaka þætti frv. og aflað hefur verið gagna og upplýsinga frá fjölmörgum aðilum, sem taldir eru upp í nál. meiri hl. á þskj. 600.

Ég er þeirrar skoðunar, að Alþingi þurfi að gefa sér góðan tíma til að fjalla um frv. til lánsfjárlaga hverju sinni. Reyndar finnst mér koma til greina að starfshættir fjárhags- og viðskiptanefnda þingsins í meðferð frv. af þessu tagi taki meira mið af starfsháttum fjvn. en gert hefur verið til þessa. Með þessum orðum á ég einkum við að nauðsynlegt er að þingið kalli til sín til ítarlegri viðræðna en gert hefur verið til þessa þá aðila, bæði opinberar stofnanir og sjóði, hagsmunasamtök og aðra aðila sem þetta mál snertir, og ræði við þá mun ítarlegar er gert hefur verið á undanförnum árum um þær fjárveitingar og þá fjárfestingarstefnu sem í þessu frv. felst.

Fjh.- og viðskn. beggja deilda þingsins óskuðu eftir því, að þeim yrðu send gögn sem fælu í sér lýsingu á fjármögnun og útlánaáætlunum þeirra sjóða og opinberra aðila sem hér eru til meðferðar, bæði stofnana, fyrirtækja og annarra aðila. Vissulega fékk n. ýmsar veigamiklar upplýsingar með þessum hætti. Samt sem áður vil ég lýsa þeirri skoðun minni hér, að æskilegra væri í framtíðinni að fjh.- og viðskiptanefndir þingsins tækju fyrr til meðferðar frv. til lánsfjárlaga og ættu, eins og ég sagði áðan, ítarlegar viðræður við alla þá aðila, sem þetta mál snertir, um fjárfestingar þeirra og útlánastefnu og fjármögnunaráætlanir eftir því sem við á. Ég vona að þeir aðilar eða einstaklingar, sem koma til með að sitja í fjárhags- og viðskiptanefndum á næsta þingi, hafi tækifæri til að taka upp vinnubrögð af því tagi og haldi áfram á þeirri braut sem hér hefur að nokkru leyti verið mörkuð.

Ég vil í þessu sambandi þakka sérstaklega stjórnarandstæðingum í báðum þessum nefndum fyrir mjög góða samvinnu við meðferð málsins. Ég er viss um að sú skoðun, sem ég hef hér lýst um ítarlegri athugun þingsins á þeim framkvæmdum og fjárhagsaðgerðum sem frv. til lánsfjárlaga felur í sér, nánari athugun þingsins á þessum málum, er sameiginlegt áhugamál alveg óháð því hvort þm. tilheyra stjórn eða stjórnarandstöðu.

Persónulega tel ég að við höfum gengið of langt á þeirri braut að þessum veigamiklu málum sé nánast eingöngu ráðið til lykta í samningaviðræðum ráðuneyta og viðkomandi sjóða og framkvæmdaaðila, það sé orðið of algengt að menn líti svo á að verkefni þingsins sé nánast að skrifa upp á þá niðurstöðu sem fengist hefur í samningaviðræðum þessara aðila, framkvæmdavaldsins og stofnana, sem því tilheyra, eða annarra aðila sem koma inn í undirbúning þessa frv. Ég held að þetta sé alveg óháð því hvaða ríkisstj. á í hlut. Þetta er hægfara þróun sem hefur vérið að gerast hér smátt og smátt. Nauðsynlegt er að þingið láti meira til sín taka í meðferð málsins en hingað til. Ég vona að þeir einstaklingar, sem munu sitja í fjárhags- og viðskiptanefndum næsta þings, geti átt góða samvinnu við þá sem fara með undirbúning frv. til lánsfjárlaga, svo að jafnvel nefndirnar geti komið inn í málið á undirbúningsstigi og gefið sér betri tíma til að skoða einstaka þætti þess með gagnrýnari hætti en gert hefur verið nú — þótt ég sé á engan hátt að draga úr þeim vinnubrögðum sem nefndin hefur viðhaft. Þetta er ákveðið stjórnkerfisvandamál sem við eigum hér við að glíma og nauðsynlegt er að leysa ef hlutur þingsins í raunverulegri ákvarðanatöku í þessum efnum á að verða meiri en nafnið tómt.

Þessi orð, herra forseti, vildi ég mæla af þessu tilefni til að þau lægju hér ljós fyrir, og mætti e. t. v. vitna til þeirra síðar sem viðspyrnu í því að þingið skipi sér hér til meiri þátttöku. Ég met það a. m. k. svo, eins og ég sagði áðan, að í þessu efni mæli ég ekki aðeins fyrir mína hönd, heldur einnig félaga minna í báðum nefndum þingsins.

Eins og fram kemur í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. flytur meiri hl. nokkrar brtt. við frv. Þær fela í sér ýmsar leiðréttingar og hækkanir sem gerðar eru af ýmsum ástæðum. Vil ég þar greina m. a. að lánsfé til vegaframkvæmda er hækkað til samræmis við fyrri áætlanir, að Kísiliðjunni við Mývatn er veitt fyrirgreiðsla vegna rekstrarerfiðleika, að hitaveitur í nokkrum byggðarlögum og héruðum á landinu fá viðbótarfyrirheit um lánveitingar vegna sérstakra erfiðleika sem þær hafa lent í, bæði á sviði rekstrar og framkvæmda, að teknar eru inn í frv. hafnarframkvæmdir vegna skipaiðnaðar hjá ýmsum bæjarfélögum á landinu og fjárveiting til eflingar skipastólsins er hækkuð úr 15 þús. í 18 500 þús. kr. Þar með eru flest þau atriði, sem við leggjum hér til, upp talin. Til viðbótar má þó nefna að inn er tekin lánveiting vegna niðurstöðu dómsúrskurðar um kaup á margfrægum hver í Borgarfirði, sem er nauðsynlegur þáttur í eflingu Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, Deildartunguhver. Enn fremur er veitt fyrirgreiðsla til að setja upp í tilraunaskyni sérstakan útbúnað við fiskimjölsverksmiðjur þar sem útblástur þeirra er nýttur til orkusköpunar á nýjan leik.

Þessu til viðbótar er rétt að geta þess, að við leggjum einnig til að brtt. á þskj. 562 frá Guðmundi Karlssyni, þar sem framkvæmd ákvæðanna í 25. gr. er bundin við árið 1981, verði samþykkt.

Það hefur komið fram, herra forseti, í framsöguræðu hæstv. fjmrh. fyrir þessu frv. og jafnframt í mjög greinagóðri ræðu sem hæstv. forsrh. flutti í Sþ. í dag, að þetta frv. felur í sér mjög veigamikinn þátt í þeirri fjárfestingar- og atvinnustefnu sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir og mun beita sér fyrir. Í þessu frv. eru lögð veigamikil drög að einhverjum umfangsmestu framkvæmdum á sviði orkumála sem við höfum staðið í um langt skeið — varanlegum framkvæmdum sérstaklega á sviði hitaveitna sem gerbreyta ýmsum grundvallarþáttum í orkubúskap okkar og eru veigamikið spor í þá átt að draga úr nauðsyn þjóðarinnar á innfluttu eldsneyti. Jafnframt er í þessu frv. að finna grundvöll að þeirri atvinnustefnu á sviði sjávarútvegs og iðnaðar og einnig landbúnaðar sem ríkisstj. vill hafa í heiðri á því ári sem nú er að líða.

Þegar þær tillögur, sem hér koma til 2. umr., eru tengdar því fjárlagafrv., sem afgreitt var fyrir jól, er ljóst að núv. hæstv. ríkisstj. hefur í senn með þessum tveimur veigamiklu frv. lagt grundvöllinn að öruggri atvinnu í landinu og uppbyggingu lífskjara þjóðarinnar á þann veg að bæði á sviði atvinnumála og orkumála skapist aðstaða til þess, að á sama tíma og aðrar þjóðir búa við vaxandi atvinnuleysi og rýrnandi lífskjör, geti Íslendingar, ein af fáum þjóðum á Vesturlöndum, stefnt áfram til batnandi lífskjara. Þess vegna er eðlilegt að inn í umr. um þetta frv. blandist umræður um efnahags- og atvinnumálastefnuna almennt.

Við, sem að þessu frv. stöndum og leggjum til að það verði samþykkt, gerum það m. a. með þeirri meginröksemd, að það er einn af undirstöðuþáttum þeirrar atvinnu-, efnahags- og framfarastefnu sem núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir.