07.04.1981
Efri deild: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3473 í B-deild Alþingistíðinda. (3531)

291. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er flutt á þskj. 598, fjallar um tvennt: Í fyrsta lagi það, að heimilt verði að lækka þann aldur, sem takmarkar rétt sjómanna til ellilífeyris, með þeim hætti, að hver sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur skal eiga rétt til töku ellilífeyris frá og með 60 ára aldri, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum almannatryggingalaganna. Starfsár sjómanna í þessu sambandi miðast við að sjómaður hafi verið lögskráður á íslenskt skip eigi færri en 180 daga að meðaltali í 25 ár.

Hér er um að ræða breytingu sem hefur verið á döfinni alllengi í viðræðum við sjómannasamtökin. Enginn dregur í efa að full rök séu fyrir því, að sjómenn búi við önnur mörk að því er varðar lífeyrisaldur og rétt til lífeyris en almennt gengur og gerist í þjóðfélaginu. Í flestum nágrannalanda okkar er sérstaða sjómanna viðurkennd að þessu leyti og með þeim hætti sem hér er lagt til.

Í Nd. hefur verið lagt fram frv, til l. um breyt. á lögum um lífeyrissjóð sjómanna, þar sem gert er ráð fyrir hliðstæðri breytingu á þeim lögum og hér er gerð till. um að verði á lögum um almannatryggingar. Að sjálfsögðu á sú breyting aðeins við þá sem eru aðilar að lífeyrissjóði sjómanna, en auðvitað er fjöldinn allur af sjómönnum fyrir utan þann lífeyrissjóð og í öðrum almennum lífeyrissjóðum. Þeirri hugmynd hefur verið hreyft af sjómannasamtökunum, að reynt verði að láta þennan lífeyrisrétt gilda um sjómenn hvar svo sem þeir eru í lífeyrissjóði, en mjög verulegir annmarkar eru á að koma því fyrir, að því er fram hefur komið í viðræðum sem við höfum átt við forsvarsmenn lífeyrissjóðanna, m. a. Sambands almennra lífeyrissjóða. Ástæðan til þess er auðvitað fyrst og fremst sú, að það er vandi að ákveða að sjómenn skuli njóta þarna betri réttar en aðrir aðilar að sjóðunum án þess að þeir í raun og veru greiði neitt meira til sjóðsins en aðrir aðilar að sjóðnum gera. Hér er sem sagt um að ræða afar flókið mál og hefur ekki tekist að finna leið sem er tæknilega fær í þessum efnum. Hins vegar höfum við verið með í gangi vissa vinnu í þessa átt, til að kanna þessi mál, en niðurstaða er ekki fengin.

Þessa vildi ég nú geta í þessari framsöguræðu hér, enda þótt hér sé á dagskrá aðeins frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar sem snertir rétt sjómanna til lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins, ellilífeyris. Frv. um lífeyrissjóð sjómanna er annars staðar í þinginu, en þar er gert ráð fyrir samræmingu þarna á milli.

Önnur efnisbreyting þessa frv. á þskj. 598 er sú, að Tryggingastofnuninni verði heimilt að veita örorkustyrk þeim sem skortir a. m. k. helming starfsorku sinnar og uppfyllir skilyrði laganna að öðru leyti að því er örorkustig varðar. I frv. er þetta orðað svo:

„Örorkustyrkþegi, sem náð hefur 62 ára aldri, skal njóta örorkustyrks sem jafnan svarar til fulls örorkulífeyris.“

Það tók alllangan tíma hjá okkur að koma okkur niður á orðalag í þessum efnum sem við sættum okkur sæmilega við og samrýmdist að öðru leyti lögum um almannatryggingar, en hugmyndin með þessu er auðvitað fyrst og fremst sú, að sá, sem orðinn er 62 ára að aldri og hefur glatað hálfri starfsorku sinni, fái lífeyri sem svarar til fulls örorkulífeyris. Þetta er í raun og veru það grundvallaratriði sem þarna er byggt á, en útfærslan er sú, að þarna er um að ræða sérstaka hækkun á örorkustyrk upp að örorkulífeyri sem gengur til þessa fólks. Örorkustyrkþegar eru þeir sem skortir a. m. k. helming starfsorku, en örorkulífeyrisþegar þeir sem skortir a. m. k. 3/4 starfsorku.

Þetta mál hefur verið rætt við ýmsa aðila og er hluti af þeirri yfirlýsingu sem ríkisstj. gaf við lausn kjarasamninganna hinn 27. okt. s. l. Ég vænti þess, að hv. Alþingi taki þessum till. vel og afgreiði þessar tvær einföldu till. á því þingi sem nú situr.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.