08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3558 í B-deild Alþingistíðinda. (3611)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í gær var gert hlé á þingfundum. Það voru settar eins konar löngu frímínútur og þingheimur sendur niður á Hótel Sögu til að hlýða á boðskap erkibiskups í peningamálum Íslendinga, Jóhannesar Nordals. Þetta mun vera árlegt „ritual“. Það, sem var þar skemmtilegast, var að heyra gömlu viðreisnarklíkuna rifja upp gamla góða daga og bera saman árangurinn af hagstjórn viðreisnar í tíu ár, samstjórn Alþfl. og Sjálfstfl., í samanburði við þau ósköp sem yfir hafa dunið á þessum áratug framsóknaróðaverðbólgunnar. En skemmtilegasta uppákoman á þessari samkomu var að heyra bankastjóra Landsbankans, Jónas Haralz, lýsa sjálfum sér þar sem fulltrúa smælingjanna. En þar með er ég kominn að ræðu hv. 3. þm. Reykv., Alberts Guðmundssonar. Hann kom hér í pontu áðan og sagði að það væri eins og fólkið ætti yfirleitt enga fulltrúa nema þá helst í Sjálfstfl., þeir væru fulltrúar smælingjanna. Er þó hér um að ræða frv. til l. um áframhald skattlagningu á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem m. a. hv. þm. Albert Guðmundsson er að mótmæla ásamt fleiri mönnum sem sæti eiga í borgarstjórn Reykjavíkur. Þetta frv. væri ekki hér á dagskrá og yrði hér aldrei samþykkt ef ekki væri fyrir þá staðreynd, að það er fram borið af ríkisstj. þar sem eiga aðild a. m. k. þrír sjálfstæðismenn. Ég verð þess vegna að skilja þessa yfirlýsingu hv. þm. á þá lund, að „guðfaðir ríkisstjórnarinnar“ sé nú að afneita þessum þremur hæstv. ráðh. og telji þá ekki lengur í hópi sjálfstæðismanna.

Ég vil taka það fram að ég er eindregið andvígur þessu frv. og mun greiða atkvæði á móti því. Að vísu tel ég réttlætanlegt við vissar kringumstæður að beita slíkum ráðum, þá um takmarkaðan tíma, ef það vakir beinlínis fyrir mönnum að draga úr óeðlilegri steinsteypufjárfestingu. Ef sú fjárfesting hefur verið óhófleg um skeið getur verið réttlætanlegt að grípa til þeirra ráða um skamman tíma. Nú hefur þessi skattur verið í gildi á þriðja ár. Hann hefur þegar haft umtalsverð áhrif, en er nú orðinn of íþyngjandi, eins og fram hefur komið, enda er svo á málum haldið yfirleitt að afkoma atvinnuvega, hvort heldur er í framleiðslu eða verslun, er með þeim hætti að það er ekki einungis hagsmunamál viðkomandi atvinnurekstrar, heldur þjóðarinnar allrar, þar með talið launþega sem auðvitað verða endanlega að bera kostnaðinn af þessu, að þessi sérstaka skattlagning verði afnumin.

Að því er varðar framsóknarmenn vil ég rétt einu sinni rifja það upp fyrir þeim, að nú að undanförnu hafa forsvarsmenn kaupfélaganna og Samb. ísl. samvinnufélaga ítrekað skorað á ríkisstj. að gæta betur hagsmuna atvinnulífsins í landinu. Það er ástæða til að rifja t. d. upp samþykkt sem gerð var á svæðisfundi samvinnuhreyfingarinnar á Suðurlandi er haldinn var að Hvoli 21. mars. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fundurinn bendir á að atvinnufyrirtækin geta ekki staðið undir þeim fjármagnskostnaði sem verðbólguvextirnir hafa í för með sér, enda eru fjölmörg verslunar- og iðnfyrirtæki í landinu algjörlega komin í þrot með rekstrarfé og rekstrargrundvöllur brostinn og þar með er atvinnuöryggi fjölda fólks stefnt í hættu. Fundurinn skorar á ríkisstj., Alþingi og aðra, sem hlut eiga að máli, að taka höndum saman til þess að búa þessum atvinnu- og þjónustufyrirtækjum viðunandi rekstrargrundvöll.“

Þetta varðar m. a. það mál sem hér er á dagskrá. Varðandi þá fullyrðingu, að Sjálfstfl. sé sérstakur fulltrúi þeirrar stefnu að draga úr miðstjórnarvaldi og útþenslu hins opinbera geira með sívaxandi skattlagningu, vil ég einfaldlega með vísun til staðreynda mótmæla því, vegna þess að það liggur ljóst fyrir að Alþfl. hefur ítrekað hér, bæði við afgreiðslu fjárlaga og æ síðan, verið merkisberi þeirrar stefnu að draga stórlega úr álagningu skatta og ríkisumsvifum. Því fer fjarri, þó að Sjálfstfl. taki stundum undir slík sjónarmið, að þess hafi sést nægilega vel merki t. d. þegar Sjálfstfl. hefur verið við völd í landinu.