09.04.1981
Neðri deild: 75. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3592 í B-deild Alþingistíðinda. (3652)

298. mál, úrskurðaraðili í deilu um starfsaldurslista flugmanna

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Fyrir u. þ. b. tveimur árum var á ferðinni meðal stjórnmálamanna mjög svipað frv. og hér um ræðir til þess að takast á við mjög hliðstæða deilu hjá sömu starfsstétt. Þá rekur mig minni til þess, að við Alþfl.-menn og framsóknarmenn, sem þá áttum aðild að ríkisstjórn, höfðum um nokkurt skeið verið reiðubúnir til þess að standa að sams konar lausn á þeirri deilu eins og hér á að eiga sér stað, en þriðji aðili stjórnarsamstarfsins, sem var Alþb., þvældist ávallt fyrir. Undir lokin var okkur gefið í skyn að vera kynni að fallist yrði á slíka lausn ef einhver annar en samgrh., sem þá var úr flokki Alþb., fengist til þess að bera málið fram. Lýsti félmrh. Alþfl., Magnús H. Magnússon, sig þá reiðubúinn til þess.

Hins vegar kom aldrei til að á þetta reyndi því að þegar samþykki þriðja aðilans var loks fengið var það orðið of seint. Þær tafir drógu m. a. þann dilk á eftir sér, að svonefndu þaki var lyft af launum allra hálaunamanna í landinu, og gerði það þáv. ríkisstj. erfiðara fyrir er ástæða hefði verið til. Ég vil aðeins minna á þetta nú því að á þeim tveimur árum, sem síðan eru liðin, virðist vera orðið greiðara um götur hjá Alþb. að ganga frá málum eins og hér um ræðir.

Fyrir okkur Alþfl.-mönnum er það ekki nýtt mál, sem hér er um deilt, frekar en fyrir öðrum þm. Við höfum fylgst lengi með því máli sem hér er lögð til ákveðin leið um lausn á. Í morgun kom hæstv. samgrh. að máli við okkur og kynnti okkur stöðuna frá sjónarhóli ríkisstj. og bar fram tvær óskir: Í fyrsta lagi að þingflokkur Alþfl. féllist á að greiða götu málsins þannig að frv. gæti fengið afgreiðslu frá báðum deildum þingsins nú í dag. Þingflokkur Alþfl. hefur samþykkt að verða við þeirri ósk og munum við þm. Alþfl. greiða götu þessa máls í báðum deildum svo að málið hljóti afgreiðslu í dag.

Í öðru lagi leitaði hæstv. samgrh. eftir afstöðu þingmanna Alþfl. til þessa sérstaka máls. Þingflokkur Alþfl., minnugur fyrri afstöðu sinnar í hliðstæðu máli, hefur samþykkt að standa að afgreiðslu málsins og mun greiða atkvæði með frv. bæði í Nd. og í Ed. Hvað frv. skuli heita er ekki meginatriði málsins. Meginatriðið er að sjálfsögðu efnisinnihald frv. En það er út af fyrir sig ekki nýtt að ákveðinn stjórnmálaflokkur þurfi að umskíra mál sem honum eru viðkvæm. Man ég í svipinn eftir mörgum umskírnum á gengisbreytingu, sem nú síðast mun víst heita breyting á viðmiðun gengisaðlögunar, og er þá ekkert skrýtið þó að nú sé gerðardómur kallaður úrskurðaraðili.