06.11.1980
Sameinað þing: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

1. mál, fjárlög 1981

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að vera margorður um fjárlagafrv., það hafa aðrir gert, en það er eitt atriði sem stingur mig sérstaklega í þessu frv. og lýtur mjög að þeim málaflokki sem ég hef mikinn áhuga á og hef reyndar staðið í samningagerð um hjá verkalýðssamtökunum, að ég held í þrjú, fjögur skipti. Hér á ég við Vinnueftirlit ríkisins og þau lög sem við samþykktum nú í vetur um heilbrigði, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum.

Með setningu þeirra laga var ætlunin að gera gjörbyltingu í þessum málum og auka starfsemi Öryggiseftirlitsins, sem nú heitir, en mun heita í framtíðinni Vinnueftirlit ríkisins og gegna mun umfangsmeira verkefni. Það var meiningin hjá verkalýðshreyfingunni, og við töldum að lögin væru í þá átt að tryggja verulegar úrbætur í mátum er varða öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum.

En þegar við sjáum nú ákvæði frv. um tekjustofna Vinnueftirlitsins, þá kemur í ljós að tekjustofn Vinnueftirlitsins hefur verið skorinn mjög verulega niður, næstum því um helming, sem þýðir það, að sú stofnun, sem meiningin var að setja á fót með allmikilli reisn, koðnar fyrirsjáanlega niður og þeir samningar, sem fyrrv. og núv. ríkisstj. hafa gert við verkalýðssamtökin um þessi mál, standa eftir sem hégómi einn. Mér dettur jafnvel í hug að um, alvarleg mistök í prentun sé að ræða, því að svo illviljaður er ég ekki að ég trúi því á fjmrh. að hann vilji ganga svo á bak orða sinna sem hér er gert varðandi framlag til Vinnueftirlits ríkisins. Það er greinilegt, að ef hann lætur við þetta sitja, ef þessi upphæð verður ekki hækkuð verulega, verður sú löggjöf, sem sett var nú í vetur, marklaust plagg.

Mér skilst að sú fjárveiting, sem áður var til Öryggiseftirlitsins, hafi verið framreiknuð og síðan bætt við 25. millj., sem er allsendis ófullnægjandi og aldeilis ekki að skapi þeirra samtaka sem um þetta sömdu.

Ég vil geta þess, að það er gert ráð fyrir því í lögunum, að ríkissjóður innheimti gjald af vinnuveitendum til þess að sinna þessum málum, og því er ríkissjóður aðeins innheimtuaðili samkv. þeirri gjaldskrá sem Vinnueftirlitið mundi setja upp. Það eina, sem þarna skeður, er þá það, að sá skattur, sem atvinnuvegirnir eiga að greiða til þessara mála, er lækkaður, en þetta er ekki tekið beint úr ríkissjóði, ríkissjóður er þarna innheimtuaðili.

Ég vil geta þess, að nú rétt áðan voru þessi mál rædd á miðstjórnarfundi hjá Alþýðusambandi Íslands og var þessi fjárveiting gagnrýnd mjög harkalega og talin vera svik við þau fyrirheit sem verkalýðssamtökin töldu sig hafa um þessi mál.