10.04.1981
Neðri deild: 78. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3623 í B-deild Alþingistíðinda. (3714)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1981. Frv. þetta hefur verið samþykkt í hv. Ed. með nokkrum brtt. sem bornar voru fram á þskj. 599.

Eins og kunnugt er birtist lánsfjáráætlun Alþingi í tvenns konar mynd. Annars vegar er um að ræða skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun þar sem gerð er grein fyrir þjóðhagshorfum, öllum lánahreyfingum í þjóðfélaginu í grófum dráttum, innlánum og útlánum bankakerfisins, útlánum fjárfestingarsjóða, fjárfestingu almennt og fjármögnun til hennar. Og þar er, eins og ég gat um, fjallað almennt um þjóðhagshorfur á grundvelli þjóðhagsáætlunar. Þessi skýrsla er ekki lögð fyrir Alþingi til samþykktar, heldur einungis til umræðu.

Í öðru lagi birtist lánsfjáráætlun í formi frv. þess sem hér er til umr., en það veitir ríkisstj. heimildir til lántöku vegna opinberra framkvæmda, vegna framkvæmda ríkisins og ríkisstofnana og vegna framkvæmda sveitarfélaga sem ríkið aflar fjár til. Segja má að lánsfjáráætlun hafi að þessu leytinu til, hvað varðar lántökur ríkisstj. og lántökuheimildir, verið tilbúin í sept. s. l. En skýrsla um hina þætti málsins lá þá ekki fyrir og varð því dráttur á að lánsfjáráætlun væri lögð fram. Þó fór það svo, þegar ljóst var að þessi skýrsla yrði ekki tilbúin fyrir jól, að lagt var fram bráðabirgðayfirlit í desembermánuði um þá þætti málsins sem höfðu raunar legið nokkuð ljósir fyrir alveg frá því í sept., þ. e. um lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana og um lántökur til hitaveituframkvæmda, þannig að menn gætu haft þessi áform til hliðsjónar við afgreiðslu fjárlaga. Raunar eru flestar lántökur í lánsfjáráætlun, sem varða ríki og ríkisstofnanir, einnig inni í fjárlögunum sjálfum og er því fyrst og fremst um það að ræða að draga fram á einn stað þær lántökur, sem getið er um í fjárlögum, og gera grein fyrir því, hvernig ætlunin er að afla fjár til þessara framkvæmda.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson tók svo til orða við umr. um lánsfjárlög hér ekki alls fyrir löngu, að verið væri að taka upp þann ósið að afgreiða lánsfjáráætlun og fjárlög í tvennu lagi, og virtist telja að nú væri verið að taka upp einhverja nýja siði. Það er rétt að minna menn á það hér, að lánsfjáráætlun og fjárlög hafa alltaf verið afgreidd hvort í sínu lagi, og það hefur satt að segja ekki gerst nema þrisvar eða fjórum sinnum, að lánsfjáráætlun hafi verið afgreidd áður en fjárlög hafa verið samþykkt. Hins vegar er bagalegt að draga það lengi að afgreiða lánsfjáráætlun, fyrst og fremst vegna þess að stofnanir þurfa að hafa það alveg á hreinu hver er endanleg afgreiðsla mála. Og ég er alls ekki að segja að það sé til fyrirmyndar að þessi dráttur verður, þvert á móti ber að leggja á það áherslu, að þessum málum sé komið á hreint á haustmánuðum, fyrir jól. En ég tel að hvað varðar framkvæmdir ríkisins séu þessi mál nokkurn veginn komin á hreint við afgreiðslu fjárlaga, enda má segja að jafnvel þó að þinginu hafi nú gefist kostur á að skoða þessi mál og ríkisstj. hafi haft ráðrúm til að bæta við o. s. frv., þá voru það ákaflega fáar breytingar, sem urðu á frv. í Ed. nú fyrir skemmstu, og þá fyrst og fremst vegna nýrra beiðna frá hitaveitunum um hærri lántökur sér til handa. Þetta sýnir að í raun og veru lágu þessi mál nokkurn veginn alveg ljós fyrir þegar fjárlög voru afgreidd og afskaplega óeðlilegt að vera að gera mikið mál úr því þó að afgreiðslan hafi dregist þar sem það breytir litlu, nema að auðvitað getur það valdið óþægindum þeim stofnunum sem í hlut eiga.

En staðreyndin er sú, að stjórnarandstaðan er að reyna eins og hún mögulega getur að gera miklu meira mál úr þessu en það raunverulega er. Hún er að reyna að læða því inn hjá almenningi, eins og Alþýðublaðið tekur stundum til orða, að lánsfjáráætlunin sé einhvers konar neðanjarðarfjárlög ríkisstj. sem hún noti til þess að smeygja að einhverjum útgjöldum sem hún vilji láta lítið bera á, og svo skilst manni að aðferðin sé sú nánast að fela útgjöldin með því að koma þeim inn í lánsfjáráætlun.

Þannig vitnaði hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson í einhverja ályktun Verslunarráðs Íslands þar sem tekið var svo gáfulega til orða, að stór hluti ríkisútgjalda kæmi ekki fram í A-hluta fjárlaga og útgjöld ríkisins væru afgreidd með lántökum, þ. e. fjárlögin sýndu ekki rétta mynd eða ríkisreikningurinn sýndi ekki rétta mynd af útgjöldum ríkisins. Ég er hræddur um að menn, sem setja svona visku á blað, viti ekki mikið hvernig færsla útgjalda hjá ríkinu fer fram. Auðvitað segir það sig sjálft, að það breytir engu hvort útgjöld eru fjármögnuð með lánum eða með beinum framlögum úr ríkissjóði, hvort heldur það er á lánsfjáráætlun eða í fjárlögum, — það breytir ekki neinu um það, hvernig útgjöldin eru færð til gjalda. Þau eru auðvitað færð til gjalda í A-hluta fjárlaganna eða ríkisreiknings og það er auðvitað engin leið að fela þau útgjöld með einum eða neinum hætti. Svona athugasemdir verða því nánast óskiljanlegt þrugl nema eigi að skoða þær í ljósi þess að menn séu að fylla í eyðurnar, reyna að tína eitthvað til sem orðið geti ríkisstj. til áfellis, en hafa kannske ekki upp á mikið að bjóða og þá verður allt hey í harðindum.

Hv. þm. nefndi það, að þess væru ýmis dæmi, að tekin væru lán vegna rekstrarútgjalda, og var það auðvitað hámark óreiðunnar að slíkt skyldi gert. Þetta er rétt í tveimur tilvikum og þau tilvik þekkja allir hv. þm. Þetta hefur verið gert um nokkurra ára skeið og er óhjákvæmilegt vegna þess hvernig þar er allt í pottinn búið. Þarna er annars vegar um að ræða byggðalínurnar sem enginn aðili í kerfinu stendur fjárhagslega undir annar en ríkissjóður. Það eru lagðar byggðalínur þvers og kruss um landið og þær eru fjármagnaðar með framlögum úr ríkissjóði og lántökum af hálfu ríkissjóðs, en raforkukerfið sjálft stendur ekki undir afborgunum af þessum lánum og ekki heldur undir vaxtaútgjöldum. Þetta er auðvitað mjög slæmt og ég tel óhjákvæmilegt að þessu verði breytt þannig að orkusala í landinu standi undir þeim útgjöldum sem leiðir af byggðalínunum og ekki sé verið að taka lán í því skyni að greiða þessi útgjöld, vegna þess að það er að sjálfsögðu enginn búskapur. En fyrst verða menn bara að finna það út, hvaða aðili á að taka þennan kostnað á sig og innheimta tekjur fyrir honum.

Það hefur verið stefna okkar Alþb.-manna, að ný Landsvirkjun yrði sett á fót sem sameinaði alla stærstu virkjunaraðila landsins og hefði með höndum orkusölu á heildsöluverði hringinn í kringum landið. Og við höfum lagt til að þessi Landsvirkjun tæki byggðalínurnar og innheimti þá þær tekjur, sem þarf til þess að standa undir kostnaði við þær, með eðlilegum hætti. En þetta hefur ekki orðið og á það sér langa sögu eins og menn þekkja. Það tókst ekki að koma á fót þeirri Landsvirkjun sem upphaflegir samningar voru gerðir um. Og seinasta útgáfa Landsvirkjunar, sem ríki, Reykjavíkurborg og Akureyrarborg hafa komið sér saman um að stofna, mun ekki hafa tekið á sig að reka byggðalínurnar. Vel má vera að það verði þá að stofna sérstakt fyrirtæki til þess að reka byggðalínurnar. En þessi vandi er óleystur og þá þarf engan að undra þó að vandinn sé líka óleystur í fjárlögum og lánsfjáráætlun.

Sama gildir um Kröfluvirkjun. Þar er um að ræða virkjun sem af ýmsum ástæðum stendur ekki undir sér. Hún hefur ekki verið byggð upp með þeim hætti sem áætlað var. Það hafa ekki verið boraðar holur til gufuöflunar í þeim mæli sem gert var ráð fyrir og þær hafa ekki skilað þeirri orku sem menn áttu von á, þannig að

virkjunin er ekki rekin með eðlilegum hætti. Meðan svo er þýðir ekki að ætla sér að láta hana standa undir þessum fjármagnskostnaði. Þess vegna verður að greiða hann með lántökum, raunverulega að fresta þessum vanda þar til virkjunin er í stakk búin til þess að taka hann á sig. Ég er sannfærður um það, að ef tilteknir menn — og tiltekinn flokkur sér á parti — hefðu ekki áorkað að koma í veg fyrir frekari framkvæmdir við Kröflu á sínum tíma og ekki hefði orðið alger stöðvun í borunum á árunum 1977, 1978 og 1979, þá væri þessi virkjun fyrir löngu fær um að standa undir þessum kostnaði. En því miður urðu þau öfl ofan á sem vildu stöðva þessa virkjun og valda sem mestum vanda þar og hindruðu boranir með eðlilegum hætti við hana á árunum 1977, 1978 og 1979. Og við súpum seyðið af því í dag. Vissulega má segja að við Kröflu hafi verið gerð ýmis mistök. En ég held nú að stærstu mistökin séu þau, að ekki skyldi haldið áfram að bora eftir að menn fengu í hendur nýja tækni og nýja vitneskju um vandamálin á svæðinu. — En þetta var útúrdúr og einungis til þess gerður að vekja athygli á því, að hér er um tvö afmörkuð, sérstök vandamál að ræða: byggðalínurnar annars vegar og Kröfluvirkjun hins vegar, sem ekki er hægt að afgreiða með öðrum hætti. Það er bráðabirgðafyrirkomulag sem á þessu er í dag, — fyrirkomulag sem er ekki til neinnar fyrirmyndar, en verður að vera svo meðan ekki er fundin lausn á vandanum.

Inn í umr. um lánsfjáráætlun blönduðust vangaveltur hjá stjórnarandstæðingum nú fyrir skemmstu um afkomu ríkissjóðs á seinasta ári og um skuldastöðuna við Seðlabankann. Ég vil taka það fram hér, að ég hef hugsað mér að ræða þau mál á síðara stigi, þegar fyrir liggur bráðabirgðayfirlit um afkomu ríkissjóðs á árinu 1980, en ég geri ráð fyrir að unnt verði að dreifa því til þm. áður en þingið fer í páskaleyfi. Það gæti hugsanlega orðið tækifæri til þess að ræða þá hlið málsins á grundvelli þessarar bráðabirgðaáætlunar við 2. umr. um lánsfjáráætlun, en síðan má gera ráð fyrir að ríkisreikningurinn verði lagður fram áður en þing fer heim í vor.

Það er rétt, sem komið hefur fram hjá stjórnarandstæðingum og hefur svo sem ekki verið neitt launungarmál, að miðað við greiðslustöðuna eins og hún var um s. l. áramót hafa gjöldin numið 2.5 milljörðum meira en tekjurnar. Það er sem sagt halli á rekstri ríkissjóðs sem nemur þessum 2.5 milljörðum á hreinum greiðslugrunni. En ég vek á því athygli, að upplýsingar af þessu tagi eru bráðabirgðaupplýsingar og ríkisreikningurinn einn segir til um að hvort rekstrarhalli hafi verið hjá ríkissjóði eða ekki. Ég get upplýst það hér, að rekstrarreikningur ríkissjóðs fyrir árið 1980 mun ekki koma út með halla. Þar koma inn atriði sem breyta þessari mynd sem menn hafa hvað mest haft í hámælum, þ. e. þegar ríkissjóður er gerður upp á hreinum greiðslugrunni 31. des. 1980 er ekki reiknað með í þeim tölum hver hafi verið innkominn söluskattur í des. 1980. Í þeirri tölu er hins vegar söluskattur í des. 1979. Ég get upplýst það, að innkominn söluskattur í des. 1980 er um 10 milljörðum hærri en sú tala sem er í þessum bráðabirgðagreiðslutölum og miðast við des. 1979, þannig að flest bendir til þess að staða ríkissjóðs og velta á árinu 1980 hafi verið langtum betri en þessar hreinu greiðslutölur í árslok benda til. Vissulega þarf að taka fleira til greina en söluskattinn. Það þarf líka að taka hugsanleg gjöld vegna A-hlutans sem kynnu að vera meiri í árslok 1980 en þau voru í árslok 1979. En ég vona að menn geri sér grein fyrir því, að þessar tölur, sem menn hafa verið að nefna, upp á 2.5 milljarða kr. segja ekki söguna nema að hálfu leyti. Þá er eftir að taka tillit til fjöldamargra atriða sem er tekið tillit til við gerð ríkisreikningsins, þ. á m. þessa atriðis sem ég hef nú nefnt og vegur að sjálfsögðu langsamlega þyngst, að tekjur af söluskatti í des. 1980 voru ekki komnar inn í þessa tölu og eru 10 milljörðum hærri en sú upphæð sem miðað er við í þessum bráðabirgðatölum. Endanlega munu þessar tölur hins vegar ekki liggja fyrir fyrr en tekjur og gjöld á ríkisreikningi hafa verið lögð saman og það getur því miður ekki orðið fyrr en að rúmlega einum mánuði liðnum.

Um skuldastöðu í Seðlabankanum er það að segja, að það er auðvitað hin argasta blekking þegar menn halda því fram að ríkissjóður safni skuldum í Seðlabankanum og hafi safnað skuldum á seinasta ári. Það er auðvitað ekkert annað en blekking. Um stöðuna gagnvart Seðlabankanum er það að segja, að við höfðum gert ráð fyrir að greiða Seðlabankanum 8 milljarða. En vegna þeirrar útkomu, sem ég var að gera grein fyrir áðan, vegna þess að gjöldin reyndust 2.5 milljörðum meiri en tekjurnar, verður greiðslan til Seðlabankans í raun minni en þetta eða 5.5 milljarðar. Og þetta er auðvitað skuldalækkun, þetta er skuldalækkunin á föstu verðlagi. En til þess að reyna að telja almenningi trú um, að þarna sé um skuldaaukningu að ræða, geta menn auðvitað komið með verðbótaþátt skuldarinnar og bætt honum við og þá er skuldastaðan heldur hærri en hún var fyrir einu ári. En þá verða menn auðvitað að taka til greina að þar er í fyrsta lagi um verðminni krónur að ræða. Í raun er skuldin, á föstu verðlagi reiknuð, miklu lægri en hún áður var. Hún er í krónum talið heldur hærri, en hún er á föstu verðlagi hlutfallslega miklu lægri en áður var. Og auðvitað er það afskaplega langt gengið hjá t. d. talsmönnum Sjálfstfl. að ætla að fara að átelja núv. ríkisstj. fyrir að skuldastaðan við Seðlabankann sé ekki betri en þessum tölum nemur vegna þess að verðbótaþátturinn er talinn með, því að þar er bara einfaldlega um það að ræða að við erum að gjalda fyrir erfðasyndina sem Matthías Á. Mathiesen, fyrrv. fjmrh., skildi eftir í ríkissjóði. Það er þessi skuld við Seðlabankann sem er færð upp á nýju verðlagi um hver áramót og verður að takast með inn í dæmið formlega, en kemur auðvitað ekkert við rekstri ríkissjóðs á liðnu ári.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að öðru leyti ítarlegum orðum um efni lánsfjárlaganna þar sem ítarleg grein er gerð fyrir þeim í athugasemdum með frv. og lánsfjáráætlunin kemur fram í mjög ítarlegri skýrslu sem lögð hefur verið fram. Ég bendi sérstaklega á töfluna á bls. 8 og 9, þar sem gerð er ítarleg grein fyrir lántökum í þágu ríkissjóðs og ríkisstofnana, en síðan er á bls. 22 gerð grein fyrir því, hver heildarlántaka verður þegar allt hefur verið talið saman og þá bæði lántökur ríkisins, lántökur sveitarfélaga, lántökur félaga í sameign ríkisins og sveitarfélaga og lántökur einkaaðila.

Í sambandi við þessar erlendu lántökur, sem er afskaplega mikið í tísku að gera mikið veður út af, er rétt að benda á það, að þegar lánsfjáráætlun var sett saman í febrúarmánuði á s. l. ári var gert ráð fyrir að greiðslubyrðin af þessum erlendu lánum, bæði þeim, sem tekin hefðu verið 1980, og þeim, sem tekin hefðu verið á fyrri árum, mundi verða tæplega 15% á árinu 1980. Þegar svo málið kom til meðferðar hér í þinginu eftir páska var upplýst af sérfræðingum að þessi tala væri nú úrelt, greiðslubyrðin væri hvorki meira né minna en 16.7% og hefði hækkað um heil 2% á tveimur mánuðum. Þessar upplýsingar urðu mikill matur í munni hv. stjórnarandstæðinga og þeir höfðu einkar mikla ánægju af að býsnast yfir því, hvað greiðslubyrðin hefði vaxið gríðarlega við gerð þessarar lánsfjáráætlunar. Svo liðu nokkrir mánuðir og þá komu enn nýjar tölur frá sérfræðingunum og nú var ekki reiknað með að greiðslubyrðin yrði 16.7, heldur hafði hún fallið niður í 14%. Þannig birtust okkur stjórnmálamönnum þrjár tölur, ein lág, síðan önnur miklu, miklu hærri, svo sú þriðja sem hafði lækkað verulega. Og þannig hefur þetta gengið, ekki bara á s. l. ári, heldur undanfarin 10 ár.

Ég minnist þess vel á vinstristjórnarárunum þegar miklar framkvæmdir voru í gangi í landinu og stjórnarandstaðan var að verulegu leyti sú sama og nú er, með nokkrum breytingum, að sérstaklega fulltrúar Alþfl. hér á þingi gerðu mikið veður út af því, að borist hefðu spádómar frá Seðlabankanum um að nú færi greiðslubyrðin upp í 19% af útflutningstekjum. Og svo skömmu seinna var spáin komin upp í 20%. Ég minnist þess að hafa átt um það orðræður við þá hér í þinginu hversu fjarstæðukennt það væri að reikna með þessu, enda hefðu þessar spár ævinlega verið meira eða minna út í bláinn. Og það reyndist rétt. Ef farið er yfir greiðslubyrði af erlendum lánum á s. l. áratug sjáum við að þessi greiðslubyrði fór aldrei yfir 15%, þrátt fyrir allar hrakspárnar sem menn fengu yfir sig á fyrri hluta áratugarins, og staðreyndin er sú, að þessi prósentutala, greiðslubyrði af erlendum lánum, hefur farið jafnt og þétt lækkandi. Hún er 1975 14.2%, 1976 13.8%, 1977 13.7%, 1978 13.1%, 1978 12.8%, hún lækkar með hverju einasta ári. En það vantaði ekki að öll þessi ár — og raunar miklu fleiri — var alltaf þessi sami söngur uppi, að það væri allt að fara hér á hausinn vegna þess að svo mikið væri tekið af erlendum lánum.

Staðreyndin er auðvitað sú, að þessi tala hefur ekki tekið mið af því í útreikningum sérfræðinga, að það er alþjóðleg verðbólga í veröldinni og hún verður auðvitað til þess að lækka þessar tölur verulega. Í öðru lagi fer þessi tala auðvitað eftir því hver er vaxtabyrði af þessum lánum. Vextir hafa verið verulega að sveiflast og þess vegna hefur í raun verið ákaflega lítið að marka þessa tölu þegar betur er að gáð.

Í sambandi við þessar erlendu lántökur, sem vissulega eru mjög miklar og við höfum reynt að takmarka eins og nokkur kostur er, er eftirtektarvert að hér í þinginu kemur ekki fram ein einasta till. um að fella niður ákveðnar framkvæmdir sem tekin eru erlend lán til. (Gripið fram í: Þú hefur heimildina.) Ég hef heimildina, já, og það má vel vera að hún verði notuð. En það er eftirtektarvert, að þeir menn hér í þinginu, sem mest býsnast yfir því að verið sé að taka erlend lán í óhófi vegna framkvæmda, leggja sjálfir ekki fram eina einustu hugmynd um hvað eigi að skera niður og hvers við getum verið án. Mig langar til að spyrja þessa menn sem svo mikið býsnast yfir þessu: Vilja þeir skera niður þær hitaveituframkvæmdir sem verulegur hluti af þessu fjármagni fer til? Vilja þeir skera niður hitaveituframkvæmdir í Borgarfirði eða á Akureyri eða annars staðar þar sem stefnt er að því að spara þjóðinni verulegan gjaldeyri með þessum framkvæmdum? Vilja menn skera niður raforkuframkvæmdirnar við Hrauneyjafossvirkjun sem eru hátt í helminginn af öllum þessum erlendu lántökum ríkissjóðs?

Vissulega mættu margir verða til þess að svara þessum spurningum. En ég beini þeim sérstaklega til hv. stjórnarandstæðinga og þá sér í lagi til ritstjóra Alþýðublaðsins, Jóns Baldvins Hannibalssonar — sem því miður er nú ekki hér í salnum — vegna ræðu hans hér um daginn þar sem hann reyndi að draga upp einhverja ógnarmynd af stöðu mála og telja þjóðinni trú um að hún sé að leggja á sig einhverja ógnarlega hlekki vegna þessarar lántöku, sem auðvitað er bráðnauðsynleg til þess að við getum sparað erlendan gjaldeyri í stórum stíl á næstu árum. Raforkuvirkjanirnar, raforkuverin og hitaveiturnar og annað það, sem gert er ráð fyrir að lán séu tekin til og eru meginhluti lánsfjáráætlunar, allt eru þetta framkvæmdir sem skila þjóðinni miklum arði og spara gjaldeyri í stórum stíl.

Herra forseti: Ég held að það sé ekki ástæða til að fjölyrða frekar um þetta frv. Vissulega mætti margt fleira tína til, en ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.