13.04.1981
Neðri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3699 í B-deild Alþingistíðinda. (3793)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta það sem fram kom hjá hæstv. félmrh. Hann talar um að Framkvæmdasjóður öryrkja hafi haft á síðasta ári um 1200–1300 millj. gkr. Þetta er rangt hjá hæstv. félmrh. því að sjóðurinn hafði ekki til umráða nema 1060 millj. gkr. Aftur á móti kom fram á s. l. vori frv. um breyt. á lögum um aðstoð við þroskahefta þess efnis, að vistheimill sjálfseignarstofnana skyldu einnig fá fjármagn úr sjóðnum, en þessi vistheimili höfðu áður fengið fjármagn úr Styrktarsjóði vangefinna. Sá sjóður hafði þá til umráða 260 millj. gkr. og átti sá sjóður með þessu frv. að leggjast niður. Ég flutti brtt. um það, þegar þetta frv. kom fram á Alþingi, að þá yrði aukið fjármagn til Framkvæmdasjóðs öryrkja sem þá hafði, eins og ég sagði, 1060 millj., þannig að það bættust við sjóðinn 260 millj. kr. Þessi till. náði ekki fram að ganga hér á Alþingi, en var þó samþykkt till. þess efnis, að á síðustu fjárlögum skyldi aukið fjármagn til sjóðsins vegna þess að viðbótarverkefni bættust á hann. Það er því misminni hjá hæstv. ráðh. að á síðasta ári hafi sjóðurinn haft þetta mikið til umráða. Hann hafði einungis 1060 millj.