28.04.1981
Efri deild: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3773 í B-deild Alþingistíðinda. (3873)

54. mál, vitamál

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Samgn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. til l. um vitamál á allmörgum fundum og fengið umsagnir og álit ýmissa aðila. Hefur niðurstaðan orðið sú, að nefndin leggur hér fram nokkrar brtt. á þskj. 666, en nál. er á þskj. 664, og leggur nefndin einróma til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem er að finna á þskj. 666. Mun ég nú í stuttu máli gera grein fyrir þeim.

Þar er fyrst til að taka að í frv. til l. um vitamál er jafnan talað um vitamálastjórn ríkisins eða vitamálastjórn. Nú er það svo, að þessi stofnun er hluti þeirrar stofnunar sem daglega er nefnd Vita- og hafnamálastofnun, og raunar er ekkert til sem heitir vitamálastjórn, engin slík stjórn er til skilgreind í lögum. Þess vegna varð það niðurstaða nefndarinnar að leggja til að nafni þessarar stofnunar verði breytt og hún verði nefnd Vitastofnun Íslands. Það er m. a. til samræmis við heiti hinnar stofnunarinnar, Hafnamálastofnunar. Þar að auki mun þetta nafn einnig hafa verið notað hér fyrir býsna löngu. Nefndin leggur sem sagt til að í þessum lagabálki verði sú breyting að þar sem talað er um vitamálastjórn komi Vitastofnun Íslands.

Þá er við 2. gr. frv. sú brtt. frá nefndinni að við bætist þar ný málsgrein sem hljóðar svo, með leyfi forseta: „Við Vitastofnun skal starfa skipstjórnarmenntaður eftirlitsmaður, ráðinn að fenginni umsögn Vitanefndar. Hann skal annast eftirlit vitakerfisins.“

Um þetta er ástæða til að fara nokkrum orðum. Þegar nefndin var að fjalla um þetta mál bárust henni tillögur frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands sem voru raunar drög að nýju frv. um þetta efni. Þar var gert ráð fyrir allróttækum breytingum frá þeirri skipan sem verið hefur, m. a. þeirri breytingu að vitamál skyldu hér eftir heyra undir Landhelgisgæsluna. Nefndin kannaði það, hvort fært væri að fara þá leið, því að ýmsum nm. þótti ekki óeðlilegt að vitamál heyrðu undir Landhelgisgæsluna vegna þess að Landhelgisgæslan annast viðhald og þjónustu í umboði vitamálastjórnar við a. m. k. 20–30 vita sem ekki er hægt að komast í nema af sjó. Þetta mál var sent fjárlaga- og hagsýslustofnun til umsagnar. Niðurstaða þeirrar stofnunar var sú, að ekki væri eðlilegt né æskilegt að færa vitamálin til Landhelgisgæslu, m. a. vegna þess að Landhelgisgæslan heyrir undir dómsmrn. en vitamálin undir samgrn. M. a. af þessum ástæðum var ekki talið rétt að gera þessa breytingu. Hins vegar kom fram í starfi nefndarinnar og viðtölum, m. a. við fulltrúa Farmanna- og fiskimannasambandsins og ýmsa fleiri aðila, töluverð gagnrýni á starfsemi vitamálastjórnar og að ekki væri nægilega vel fylgst með því og ekki nægileg gangskör gerð að því, að allir vitar og siglingarmerki væru í lagi, enda heyra menn það daglega í tilkynningum til sjófarenda í Ríkisútvarpi rétt fyrir kl. 19 á kvöldin að þeir eru ærið oft nokkuð margir vitarnir sem ekki logar á.

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands lagði mikla áherslu á að fenginn yrði skipstjórnarmenntaður maður til að hafa með höndum eftirlit með vitakerfinu og hinum daglega rekstri þess. Það varð niðurstaða nefndarinnar að gera brtt. í þá átt, eins og hér er gert við 2. gr., að það verði bundið í lögum að skipstjórnarmenntaður eftirlitsmaður starfi við Vitastofnun Íslands. En það hefur ekki verið að undanförnu að þar hafi starfað skipstjórnarmenntaður maður. Raunar var það svo með Vitastofnunina, sem er hluti af Hafnamálastofnun nú, að í upphafi voru vitamálin aðalverkefni, en hafnamálin eins konar hliðar- eða aukaverkefni. Nú hefur þetta gersamlega snúist við. Hafnarmálin, hafnarbætur og hafnargerð, eru aðalviðfangsefni þessarar stofnunar, en vitamálin hins vegar minna verkefni og hafa að sumra mati orðið hálfgerð hornreka í starfi hennar. Með þessu er sem sagt komið til móts við óskir sjómanna um að þarna starfi skipstjórnarmenntaður maður. Nefndin taldi tvímælalaust að það mundi vera til bóta.

Önnur brtt. er einfaldlega um þá nafnabreytingu sem ég hef áður getið. Við 5. gr. er sú brtt. að gert er ráð fyrir að Vitanefnd skipi fimm menn. Fjórir skulu skipaðir samkv. tilnefningu eftirtalinna samtaka, sem eru Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landsamband ísl. útvegsmanna, Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda og Samtök íslenskra farmflytjenda. Þetta er óbreytt frá því sem var í frv. Hins vegar leggur nefndin til þá breytingu að ráðh. skipi fimmta mann í Vitanefnd án tilnefningar og einnig að ráðh. skipi formann Vitanefndar, en frv. gerði upphaflega ráð fyrir að vitamálastjóri væri af sjálfu sér formaður Vitanefndar. Þá leggur nefndin til að í 5. gr. verði jafnframt ákvæði um að vitamálastjóri og eftirlitsmaður með vitakerfi skuli sitja fundi Vitanefndar. Í frv., eins og það upphaflega var lagt fram, var heimildarákvæði um að Flugmálastjórn, Siglingamálastofnun ríkisins og Rannsóknarnefnd sjóslysa skuli gefinn kostur á að eiga fulltrúa í Vitanefnd þegar rætt er um mál er snerta starfsemi viðkomandi aðila. Það varð að samkomulagi innan nefndarinnar að bæta þarna við einum aðila, þ. e. að Slysavarnafélag Íslands ætti einnig kost á að senda fulltrúa á fund Vitanefndar.

Við 6. gr. gerir samgn. einnig brtt. Það er um störf vitanefndar. Þar er gert ráð fyrir að formaður Vitanefndar kveðji nefndina saman til fundar svo oft sem þurfa þykir, þó eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Í frv. var gert ráð fyrir að nefndin héldi fundi eigi sjaldnar en tvisvar á ári, en nm. þótti ástæða til þess að nefndin kæmi saman a. m. k. fjórum sinnum á ári. Þær breytingar aðrar, sem við 6. gr. eru, leiðir af því sem ég hef áður minnst á.

5. brtt. er við 8. gr. og er nánast málfræðilegs eðlis. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að byggja hús eða mannvirki er skyggi á leiðarmerki frá sjónum yfir þann boga sjóndeildarhringsins sem því er ætlað að þjóna sjófarendum og hæfilega langt til beggja handa, og getur vitamálastjórn látið rífa húsið eða mannvirkið“ o. s. frv. Lagt er til að þarna komi punktur og ný setning: Getur vitamálastjórn látið rífa húsið. Þetta er minni háttar breyting.

Við 13. gr. er brtt. er varðar upplýsingaskyldu. Nefndin leggur til að 2. og 3. málsgr. 13. gr. orðist sem hér segir:

„Upplýsingar, er varða öryggi sjófarenda og ekki verða auglýstar með nægum fyrirvara í Tilkynningum til sjófarenda, skulu tilkynntar um strandstöðvar Landssímans og í útvarpi þegar þörf krefur.

Sérhverjum, sem annast rekstur leiðarmerkis, er skylt að koma tilkynningum um breytingar og bilanir til Vitastofnunar Íslands svo fljótt sem verða má, en stofnunin sér síðan um birtingu þeirra. Á sama hátt ber öllum, sem verða varir við bilanir í vitakerfi landsins, að senda tilkynningar þar um til Vitastofnunar Íslands svo fljótt sem verða má. Enn fremur skal Vitastofnun Íslands tilkynnt um alla farartálma, er verða á almennri siglingaleið og ekki er getið í sjókortum eða tilkynningum til sjófarenda.“

Sú breyting, sem hér er gert ráð fyrir, er sú, að upplýsingar, sem ekki verða auglýstar með nægum fyrirvara í Tilkynningum til sjófarenda, skuli tilkynntar um strandstöðvar Landssímans og í útvarpi þegar þörf krefur. En í frv. stóð: „skulu birtar í útvarpi eða um strandstöðvar Landssímans, þar til hinum prentuðu tilkynningum hefur verið dreift“. Hér eru þessi ákvæði sem sagt gerð skýrari og ákveðnari. Þessi breyting er lögð til að tilmælum Sjómælinga Íslands. Er hún til samræmis við alþjóðlegar reglur sem gilda um tilkynningarskyldu í þessum efnum.

Við 16. gr. er sú breyting ein, að henni er skipt upp í tvær málsgr.

Herra forseti. Þetta eru þær brtt. sem samgn. leggur til. Það er í fyrsta lagi, eins og ég hef getið um, nafnbreyting, að í stað vitamálastjórnar komi heitið Vitastofnun Íslands. Í öðru lagi eru nokkrar breytingar á Vitanefnd. Í hana bætist einn maður sem ráðh. skipar án tilnefningar, og ákvæði eru um að ráðh. skipi einnig formann hennar. Gert er ráð fyrir að nefndin komi nokkru oftar saman en frv. gerir ráð fyrir. Og í þriðja lagi er sú meginbreyting í till. samgn., að við Vitastofnun Íslands skuli starfa skipstjórnarmenntaður maður er hafi með höndum eftirlit vitakerfisins.

Það er orðið brýnt að setja þessi lög. Þetta frv. mun hafa verið lagt fram hér í fyrra, en náði eigi fram að ganga. Ég held að öllum, sem til þekkja, sé ljóst að viðhald og starfræksla vitakerfisins hefur kannske ekki verið með þeim hætti sem æskilegast væri. Það hefur ekki verið lagt nægilegt fjármagn til viðhalds vitanna sem margir eru komnir verulega til ára sinna. Því er brýnt að vitagjald verði hækkað til að hér fáist aukið fjármagn svo og að gera þær ráðstafanir aðrar sem frekast má með löggjöf til þess að tryggja að vitakerfið komi sjófarendum að því gagni, sem til er ætlast, og að rekstur þess sé traustur og áreiðanlegur og ekki líði langir tímar þannig að ekki logi á vitum eða þeir komi sjófarendum ekki að neinu gagni. Þær breytingar, sem nefndin leggur til, miða að því að reyna að tryggja þetta.

Herra forseti. Samgn. mælir einróma með því, að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef nú gert grein fyrir.