28.04.1981
Efri deild: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3789 í B-deild Alþingistíðinda. (3882)

301. mál, umferðarlög

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta frv, til l. um breyt. á umferðarlögum er komið fram. Ég vil vera með í því að draga úr slysum. En því er ekki að neita, að það eru tvær hliðar á þessu máli. Hin hliðin er varðandi þá sem sleppa lifandi vegna þess að öryggisbelti eru ekki notuð. Og ég get ekki að því gert, að mér eru ofarlega í huga nærtæk atvik sem eru þá undantekningartilfelli. Það eru líklega tvær vikur síðan kunningi minn einn lenti í umferðarslysi. Það var ekið inn í hliðina á bifreið hans. Hann var ekki í öryggisbelti og það varð honum til lífs, eða svo er fullyrt, hann slapp svo til óskaddaður. Það eru um átta ár síðan annar kunningi minn lenti í mjög alvarlegu umferðarslysi. Vörubifreið ók inn í hlið bifreiðar hans. Hann slasaðist mjög illa og bíður þess aldrei bætur, en stundar þó sína vinnu þrátt fyrir talsverða fötlun. Fullyrt er að hefði hann verið í öryggisbelti hefði hann ekki sloppið lifandi. Í báðum þessum tilvikum er fullyrt að það hafi bjargað lifi manna að þeir voru ekki í öryggisbeltum, vegna þess að þeir köstuðust í sætið til hliðar þegar höggið kom og slysið varð.

Ég er ekki með þessu að segja að ég sé andvíg þessari breytingu. Ég vil skoða þetta mál vel, en ég vildi láta þetta koma líka fram til umhugsunar. Við megum ekki heldur gleyma þeim mannslífum sem hefur verið bjargað, og þess vegna finnst mér okkur vera þarna mikill vandi á höndum að taka afstöðu.

Ég sakna þess hins vegar að ekki er tekið á málefnum fatlaðra í þessu frv. til þess að auðvelda þeim að ferðast í umferðinni, tryggja öryggi þeirra og þá fyrst og fremst blindra. Eins og fram kom hjá hæstv. dómsmrh. hefur verið á döfinni og er mikill áhugi hjá blindum á að fá löggildingu á hvíta stafnum. Hugsanlegt er að hægt væri að taka þetta mál til skoðunar í allshn. þegar farið verður að fjalla um frv. Mér fyndist það ekki nein goðgá þó að það væri tekið þar til umfjöllunar, jafnvel þó að einhver nefnd sé að skoða umferðarmálin í heild.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vildi aðeins láta í mér heyra af því að mér fannst gjarnan að það mætti eitthvað koma fram um undantekningartilfellin.