29.04.1981
Neðri deild: 84. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3831 í B-deild Alþingistíðinda. (3907)

190. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er um að ræða, hefur verið alllengi á dagskrá hv. deildar, var lagt fram fyrir jól um leið og fjárlögin voru afgreidd eða um svipað leyti, og fjallar um svonefnt sjúkratryggingagjald. Samkvæmt lögum, sem í gildi hafa verið, voru greidd 1.5% af fyrstu 6.5 millj. gkr. á ári og 2% af tekjum yfir 6 millj. 525 þús.

Við meðferð frv. til l. um tekju- og eignarskatt, 290. mál, gerði hæstv. fjmrh. grein fyrir þeim skattabreytingum, sem þar er um að ræða, og einnig þeim breytingum, sem gert er ráð fyrir á sjúkratryggingagjaldinu. Þar kom fram að miðað er við að sjúkratryggingagjald greiðist framvegis af tekjum sem eru yfir 6 millj. 750 þús. gkr. á ári og verði þar 2%, en sjúkratryggingagjald verði fellt niður af tekjum þar fyrir neðan. Þetta þýðir verulega lækkun á sjúkratryggingagjaldi frá því sem verið hefði. Að óbreyttum lögum hefði það gefið um 123.5 millj. nýkr. á ári, en samkvæmt niðurstöðunni, sem ég nefndi hér áðan, er gert ráð fyrir að sjúkratryggingagjald gefi á þessu ári 31.7 millj. nýkr. Lækkunin er í kringum 85 millj. nýkr. vegna þess samkomulags sem gert var og ríkisstj. stóð að og ræddi við verkalýðshreyfinguna á sínum tíma og var áður gerð grein fyrir.

Ég mun fara þess á leit við hv. n. að hún taki þetta frv. eins og það hér liggur fyrir, en hérna liggur fyrir í raun og veru tillaga um óbreytta framlengingu á gjaldinu. Ég mun óska þess við n., sem fær málið til meðferðar, að hún taki breytinguna til sérstakrar meðferðar, og koma á framfæri við hana breytingartillögum.

Ég er þeirrar skoðunar, og flestir eru sammála mér um það, að sjúkratryggingagjald sé í raun og veru skattur og hluti af skattadæminu í landinu. Með tilliti til þess, herra forseti, leyfi ég mér að leggja til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.