29.04.1981
Neðri deild: 84. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3831 í B-deild Alþingistíðinda. (3908)

190. mál, almannatryggingar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil minna á að hæstv. ríkisstj. hefur gefið fyrirheit um að skattar verði lækkaðir svo að nemi 1.5% í kaupmætti. Þetta hefur verið skilið svo, að gengið skuli út frá því að skattbyrði verði ekki þyngri en á s. l. ári og síðan verði skattbyrðin lækkuð um 1.5% í kaupmætti eftir það. Þetta fyrirheit, sem hæstv. félmrh. gaf áðan um að lækka sjúkratryggingagjald um 1.5% upp að tæpum 7 millj. gkr., er að sjálfsögðu til bóta, en ég get ekki skilið annað en rétt sé að stíga skrefið til fulls og leggja sjúkratryggingagjaldið alveg niður. Ég held að skattaþyngingin á þeim mönnum, sem eru með 10 millj. gkr. í tekjur á s. l. ári eða þaðan af meiri, sé svo mikil að ástæðulaust sé að láta þá greiða eina sjúkratryggingagjald ofan á allt annað. Ég vil minna hæstv. félmrh. á að það er fólk úr öllum stéttum, verkamenn, sjómenn, iðnaðarmenn og alls konar fólk, sem hefur meiri tekjur en þetta. Eins og hæstv. félmrh. minntist hér á er það óverulegt sem sjúkratryggingagjaldið gefur eftir að búið er að skera þarna neðan af því. Ég vil því beina því til þeirrar n., sem fær málið til meðhöndlunar, að hún skeri þetta sjúkratryggingagjald alveg niður. Mér finnst satt að segja ekki taka því að hafa það ef það á eingöngu að falla á örfáa, — ja, við skulum ekki segja örfáa, það er nú ekki rétt hjá mér, en á þann hluta þjóðfélagsþegnanna sem vinnur fullan vinnudag og allir aðrir eigi að sleppa við það. Ég held að það sé rétt að hreinsa til og leggja sjúkratryggingagjaldið alveg niður.