30.04.1981
Efri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3885 í B-deild Alþingistíðinda. (3940)

306. mál, verðlagsaðhald

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég minnast þess, að í dag vill svo einkennilega til að nákvæmlega ár er liðið frá því að við hæstv. forsrh. áttum tal saman í þessari hv. deild um verðbólguna. Þá sagði hæstv. forsrh., með leyfi forseta m. a.:

„Ég hef svarað tveim meginfyrirspurnum hv. þm. og gert þeim skil. Ég vil aðeins draga það saman á þá lund, að miðað við áætlun Þjóðhagsstofnunar, byggða á því að haldið verði áfram verðhækkunum svipað og verið hefði, gæti verðbólgan orðið 45% frá byrjun til loka þessa árs, en ekki 55, eins og hv. þm. hefur talað um og Vísir gefið í skyn í gær með stórfyrirsögn. Ef hins vegar tekst í meginatriðum að fylgja stefnu ríkisstj., sem hún er staðráðin í að gera, eru líkur til að verðbólgan á þessu ári verði um 40% í stað 61% í fyrra.“

(StJ: Þetta er afmæli sannleikans.) Ég heyri að hv. þm. Stefán Jónsson segir að þetta sé afmæli sannleikans, eins árs afmæli hans. Ég ætlaði ekki að gera svo mikinn merkisdag úr þessu, en ætlaði að vekja athygli hæstv. ráðh. á þessum umr., sem urðu fyrir ári, og einnig því, að ég óskaði hæstv. ráðh. þá til hamingju með að lesa þessar umr. eftir nokkra mánuði og sjá þá hvor hefði haft rétt fyrir sér. „Það er kannske rétt að enda á því að segja,“ sagði ég, með leyfi hæstv. forseta, „að reynslan er ólygnust. Og ég er algerlega óhræddur að láta reynsluna dæma hvor okkar hæstv. ráðh. hefur farið hér með rétt mál.“

Þó að hæstv. ráðh. í flýti sínum við að mæla fyrir þessu frv. hér minntist ekki á það hefur það oft verið kveðið hér yfir okkur þm., nú er hæstv. ríkisstj. að halda því að mönnum, að nú stefni hún, ári eftir að þessi ummæli voru viðhöfð, að því að verðbólgan verði 40% á þessu ári. (StJ: Er það ekki allt í lagi?) Því miður er hætt víð að reynslan verði á sama veg eða svipaðan og í fyrra. En kjarni málsins er einfaldlega að þetta sýnir að efnahagsstefna ríkisstj. þann tíma sem hún hefur setið að völdum hefur verið árangurslaus í verðbólgumálunum. Hún er að segja að hún stefni að því nákvæmlega sama sem hún sagði fyrir réttu ári. Skerðing kaupgjalds um 7% 1. mars, skerðing tryggingabóta um 7% 1. mars hefur verið unnin fyrir gýg. Kjararýrnun frá því að ríkisstj. kom til valda hefur verið unnin fyrir gýg. Verðstöðvanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur haldið fram að væru hið mesta haldreipi, hafa verið árangurslausar. Það er þetta sem er kjarni málsins og þarf ég raunar ekki að segja miklu meira um þetta mál.

Tilefni þess, að ég óskaði eftir því að eiga orðastað við hæstv. ráðh. um þetta mál fyrir ári í þessari hv. deild, var það, að hann sagði þá í fjölmiðlum: Ef áform okkar standast gæti verðbólgan orðið um 40% frá ársbyrjun til ársloka. Við skulum segja að hún verði í mesta lagi 45% á árinu. Ég trúi því ekki að hún verði meira. Þá er hér um að ræða mikla umbót frá síðasta ári því að þá hækkaði verðbólgan frá byrjun til loka árs um 61%. Magnús Bjarnfreðsson, sem var spyrill í sjónvarpinu þegar þetta fréttaviðtal var tekið, sagði þá: „Nú var það haft eftir blaði í dag að það væri gert ráð fyrir að verðbólgan yrði 55% á árinu.“ Þá svaraði hæstv. forsrh. í þessum sterkasta fjölmiðli þjóðarinnar: „Það er ekki réttur útreikningur.“ Samt sem áður hafði hæstv. ráðh. fyrir framan sig útreikninga Þjóðhagsstofnunar um þetta efni. Ég óskaði því eftir að hann svaraði fsp. minni utan dagskrár um þetta efni þannig að fréttamiðlar gætu fengið a. m. k. sjónarmið annarra í þessum efnum en hans.

Fyrir skömmu, hinn 14. apríl s. l., svaraði hæstv. forsrh. fsp. minni hér. Þá spurði ég hann um verðbólguna. Mér hefur stundum orðið tíðrætt um verðbólguna síðustu mánuði og ár og um tímasett mörk verðbólgunnar á árinu 1981 sem lofað var í stjórnarsáttmálanum fyrir meira en 15 mánuðum að sett yrðu á þessu ári. Hæstv. ráðh. sagði þá orðrétt: „Tímasett mörk eru í undirbúningi og verða tillögur í því efni væntanlega tilbúnar fyrir næstu mánaðamót.“ Nú er 30. apríl og tímamörk fyrir 1. maí hafa ekki enn verið sett samkv. þeirri ræðu sem hæstv. ráðh. flutti áðan, hvað þá tímamörk fyrir verðhækkunum síðar á árinu. Það er því miður svo, að það er ekki einu sinni hægt að treysta 14 daga gömlum yfirlýsingum hæstv. ráðh.

Síðla í dag bárust mér fréttir um að það hefðu verið ákveðnar verðhækkanir opinberrar þjónustu. Í fjh.- og viðskn. fengum við upplýsingar um spár Hagstofunnar um væntanlega vísitöluhækkun á morgun, hinn 1. maí, og þær spár voru þannig að án hækkana á opinberri þjónustu mundi vísitalan að öllum líkindum hækka um 8.55%. Þessar hækkanir, sem ákveðnar voru í dag á opinberri þjónustu, eru sem hér segir: hjá Hitaveitu Reykjavíkur 7%, hjá Landsvirkjun 9%, hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 8%, hjá Strætisvögnum Reykjavíkur 10%, hjá Pósti og síma 8% og hjá sundstöðum Reykvíkinga 9%. — Það er athyglisvert að þessar stofnanir hafa sótt um beiðnir sem eru í mörgum tilvikum fimmfaldar á við þessar hækkanir. Samt hækka þessar verðhækkanir á opinberri þjónustu vísitöluna um 0.49% og kaupgjaldsvísitalan fer því upp í tæp 9% 1. júní í samræmi við spár Hagstofunnar og ákvörðun ríkisstj. í dag.

Það sést glögglega að þessar hækkanir vega miklum mun minna í vísitölunni en rétt verðlag á þessari þjónustu mundi gera. Þarna er verið að fresta vanda sem er stórfelldur. Ég veit satt að segja ekki hvernig t. d. gengur að reka opinber fyrirtæki sem hljóta að vera með nokkuð nákvæma útreikninga á því, hvað þjónusta þeirra hefur hækkað, eins og t. d. Póst og síma sem fær 8% hækkun þegar óskað er eftir 37% hækkun. Ætli það verði ekki víða sem þarf að skera niður og ætli það verði ekki dálítið undarlegir bankareikningar Pósts og síma? Ætli skuldir Pósts og síma og annarra opinberra stofnana muni ekki aukast verulega þegar svona er staðið að málum? Og annað atriði: Landsvirkjun fær 9% hækkun, en biður um 42.5% hækkun. Þetta þýðir náttúrlega að fyrirtækið safnar skuldum vegna rekstrar í stað þess að hafa afgangsfé til fjárfestingar, og þetta þýðir að taka þarf erlent lán til að fjármagna hversu lítið sem gert er í virkjunarmálum á vegum Landsvirkjunar. Sá talnaleikur ríkisstj. að heimila ekki eðlilega hækkun, sem sannarlega er orðin á þjónustu þessa fyrirtækis, þýðir að það verður að taka erlend lán sem auka verðbólguna. Þannig er nú hringlandaháttur hæstv. ríkisstj. í verðlagsmálunum.

Ég er með hér fyrir framan mig lista yfir tæplega 50 beiðnir um ýmsar hækkanir fyrirtækja. Þeim hækkunum, sem ég las upp áðan, hefur einum verið sinnt núna fyrir 1. maí. Hinar eru allar geymdar fram yfir 1. maí. Til hvers? Til þess að þær komi ekki inn í vísitöluna. Það er verið að skekkja þann mælikvarða, sem hafður er á verðlag, og það er verið að skekkja þann mælikvarða, sem á að dæma mönnum samkv. lögum verðbætur á laun.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þessa sálma. Það er augljóst hverju barni hvernig að er unnið. En þetta er ekki leiðin til þess að sigrast á verðbólgunni og það er ekki leiðin að taka í viðbót við þetta upp slík verðlagshöft sem í þessu frv. felast. Þær verðhækkanir, sem orðið hafa á vöru og þjónustu, koma fyrr eða síðar fram ef vörurnar og þjónustan eiga að fást og ef fyrirtæki eiga að geta haldið áfram starfsemi sinni. Oftast koma þær fram í miklu ríkara mæli þegar þær koma fram en þær hefðu annars gert og fyrirtækin verða verr í stakk búin eftir en áður til að hagræða og laga til hjá sér.

Herra forseti. Þetta mál hefur verið nokkuð rætt undanfarna daga á Alþingi Íslendinga, en sú umr. hefur verið stutt því að frv. kom ekki fram fyrr en á mánudag og er að mörgu leyti mjög undarlega að því staðið. Þetta hefur verið harðlega gagnrýnt frá hálfu okkar stjórnarandstæðinga og ég skal ekki fara nánar út í þau atriði eða þau vinnubrögð, en að lokum fara nokkrum orðum um helstu atriði frv. og stikla þar á stóru.

1. Ætlað er með þessu frv. að lögfesta þriðja afbrigði verðstöðvunar í tíð núv. ríkisstj. með nýrri nafngift. Verðbólgan fer þó vaxandi næstu mánuði samkv. spá Þjóðhagsstofnunar og er það í fullu samræmi við reynslu af slíkum úrræðum. Viðnám gegn verðbólgu er ekki veitt með frv., heldur þvert á móti.

2. Frv. gerir ráð fyrir áframhaldandi spennitreyju lögbundinna verðlagshafta sem drepa atvinnulífið í dróma og valda atvinnuleysi þegar fram í sækir.

3. Verðlagshöftum er sérstaklega beint gegn innlendum iðnaði og innlendri þjónustustarfsemi og þar með gegn atvinnuöryggi íslenskra launþega. Framleiðsluvörur útlendinga á íslenskum markaði eru nánast undanþegnar þessum ósköpum.

4. Verðlagshöftin verða nú lögbundin við ákveðin ársfjórðungsleg heildarmörk þannig að í landinu verði „heildarverðhækkun ekki umfram þessi tímasettu mörk,“ svo að vitnað sé beint í framsöguræðu hæstv. forsrh. Með þessu er tekinn upp sá háttur, að lögbundin pólitísk markmið verði höfð að viðmiðun við ákvörðun á verðlagningu á vörum og þjónustu, en horfið frá því að sannanlegur kostnaður fyrirtækja, sem eru vel rekin, fáist uppi borinn og að þeir, sem best standi sig í frjálsri samkeppni, hafi áhrif á vöruverð til hagsbóta neytendum.

5. Þessum verðlagshöftum á að fylgja fram með lögbannsaðgerðum þótt ekkert liggi fyrir, þegar slík lögbannsaðgerð fer fram, um að lögleyft söluverð nægi til að firra fyrirtækin taprekstri.

6. Með frv. yrðu lögfestar heimildir til handa Seðlabanka Íslands til að skylda banka, sparisjóði og innlánsdeildir kaupfélaga til að binda ótiltekinn hluta af aukningu spariinnlána í Seðlabankanum. Hámark þessarar bindiskyldu er 28% af sparifjáraukningu samkv. núgildandi lögum. Slík heimild án efri marka er nánast afsal Alþingis á stjórn peningamála að þessu leyti í hendur framkvæmdavaldsins og gæti leitt til stóraukinnar miðstýringar fjármagns í framkvæmd, enda frekleg notkun hennar tæpast talin standast eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

7. Í 5. gr. felast heimildir fyrir stjórn Seðlabankans til að mismuna innlánsstofnunum í bindiskyldu. Þetta ákvæði er svo fráleitt að bankastjórn Seðlabankans talaði um það á fundi fjh.- og viðskn. að bankinn óskaði ekki eftir slíkri „geðþóttaheimild,“ jafnframt því sem upplýst var að stjórnendur Seðlabankans sáu fyrst 5. gr. frv. eftir að það kom úr prentun. Þetta ákvæði breyttist nokkuð í meðferð Nd., en þó er óljóst hvort bankastjórn Seðlabankans og hæstv. ríkisstj. geta ekki eftir sem áður mismunað innlánsstofnunum í þessu efni.

Að lokum er það svo að gerð frv. er í samræmi við efni þess. Flaustrið er slíkt á síðustu stundu að úr verður með ólíkindum óhrjáleg lagasmíð, svo að ekki sé meira sagt. Í 4. gr. frv. framselur Alþingi löggjafarvald sitt ríkisstj., sem stenst ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. Svo gæti einnig reynst um ákvæði 1. og 5. gr. í framkvæmd að mati sérfræðinga.

Herra forseti. Að lokum: Það sýnir stefnufestu ríkisstj. í efnahagsmálum að hún leitar nú heimilda til að skera niður framkvæmdir sem hún hefur ekki enn tekið ákvörðun um að framkvæma. Ég er með í höndum lista yfir niðurskurð sem hæstv. ríkisstj. hugsar sér — eða það eru hugmyndir um hvað hæstv. ríkisstj. hugsar sér að skera niður í samræmi við heimild í þessu frv. Þar er efst á blaði niðurskurður í vegagerð, en vegáætlun er í meðförum Alþingis og vegáætlun hefur ekki verið samþykkt og væri í lófa lagið fyrir hæstv. ríkisstj. að skera niður þar, en ekki með heimild í sérstökum lögum. Hér tek ég aðeins eitt lítið dæmi um þann hringlandahátt sem verið hefur í þessum efnum af hálfu hæstv. ríkisstj. Það er ágætt að ríkisstj. er komin á þá skoðun að það verði að draga úr ríkisútgjöldunum, en vinnubrögðin í þessum efnum eru söm við sig.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessa umr. frekar. Málið hefur fengið ítarlega umr. í Nd. og fyrir því hefur verið gerð grein í nál. fulltrúa Sjálfstfl. í Nd. Það kemur nú til nefndar og ég vænti þess, að þar komi í ljós að við fulltrúar Sjálfstfl. í þessari deild munum, þrátt fyrir mjög eindregna andstöðu okkar við þetta mál, ekki bregða fæti fyrir það, eins og við sögðum í upphafi, svo að það verði að lögum fyrir 1. maí, þar sem meiri hl. Alþingis og hæstv. ríkisstj. leggja áherslu á það.