30.04.1981
Efri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3893 í B-deild Alþingistíðinda. (3946)

306. mál, verðlagsaðhald

Frsm. 2. minni hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. 2. minni hl: fjh.- og viðskn. hefur skilað stuttu nál., sem nú hefur verið útbýtt.

Ég hef hugsað mér að reyna að vera stuttorður þannig að þessi fundur dragist ekki á langinn, enda hafa menn nú fylgst með gangi þessara mála og umr. í Nd. í allan dag, sem margir Ed.-menn hafa fylgst með, og nefndirnar hafa starfað saman og mikið hefur verið um málið rætt og ritað og því ástæðulaust að rifja margt efnislegt upp. Við hv. þm. Lárus Jónsson höfum valið þann kostinn að flytja enga brtt. Við teljum að það muni vera tilgangslaust þar sem stjórnarliðið er staðráðið í að knýja þessa frumvarpsómynd í gegnum Alþingi og það nú í kvöld, sem væntanlega verður, a. m. k. ef svör verða veitt við fsp, sem koma hér á eftir, eða raunar kannske aðeins einni fsp. sem ég mun víkja svolítið seinna að.

Ég vil taka það fram, að við munum greiða atkv. gegn 4. gr. frv. þar sem þar er ótvírætt um stjórnarskrárbrot að ræða, eins og komið hefur fram í fjh.- og viðskn., og viljum gjarnan láta á það reyna með nafnakalli hvort menn vilji virða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ég mun taka eftir því og við allir hvernig atkv. þeirra, sem mest hafa um stjórnarskrána rætt, galla hennar og ágæti, í nokkra áratugi, falla við það nafnakall. Það mun verða býsna sögulegt nafnakall og raunar afgreiðsla frv. í heild því að nærri stappar, svo að ekki sé meira sagt, að fleiri ákvæði frv. séu einnig brot á stjórnarskrá lýðveldisins. Við greiðum ekki atkv. á móti 4. gr. vegna þess að við viljum ekki niðurskurð og sparnað. Í því efni nægir að vitna til orða formanns Sjálfstfl. í Nd. nú fyrir skömmu og skal ég ekki hafa um það fleiri orð.

Á fund nefndarinnar áðan kom Þórður Friðjónsson hagfræðingur í forsrn. með litla greinargerð sem svör við fsp. varðandi frv. til l. um verðlagsaðhald, lækkun vörugjalds og bindiskyldu innlánsstofnana, eins og fyrirsögnin hljóðar. Ég ætla að lesa þetta hér upp því að menn hafa ekki fengið það í hendur. Þetta er sem sagt örstutt, með leyfi forseta:

„1. Spurt er um hvernig framkvæmd verðákvarðana verður háttað,“ stendur hér, „og þá sérstaklega hvort ríkisstj. verði ætlað að ákveða fyrst þær hækkanir, sem eru umfram meginmarkmiðið, og síðan verði öðrum ætlað að samþykkja eða gera tillögur um hækkanir með hliðsjón af afgreiðslu ríkisstj.

Rétt svar við þessari spurningu er að mínu mati þannig, að hver verðákvörðunaraðili lögum og reglum samkvæmt (verðlagsráð, gjaldskrárnefnd o. s. frv.) gerir samþykktir og tillögur sem í heild eru ekki umfram hin ársfjórðungslegu meginmarkmið. Á þann hátt verði gert ráð fyrir að ákvörðun viðkomandi verðlagsyfirvalda, óháð öðrum verðákvörðunaraðilum, hvort sem einstakar tillögur fari umfram sett verðlagsmarkmið eða ekki, verði í samræmi við mörkin.“ — Þetta er kannske ekki mjög skýrt, en vonandi skilst það þó. — „Viðkomandi verðlagsyfirvöld miði því við að samþykktir eða tillögur verði í heild í samræmi við meginmarkmið ríkisstj. í verðlagsmálum án tillits til þess hvaða ákvarðanir verða síðan teknar af öðrum aðilum í þeim málum.

2. Spurt er um við hvaða vísitölu viðkomandi verðlagsyfirvöldum beri að miða hverju sinni.

Ríkisstj. ákveður á hverjum tíma verðlagsmarkmið með hliðsjón af fjöldamörgum þáttum og miðað er við, eins og skýrt kemur fram í frv., að um meginmarkmið sé að ræða. Markmiðasetningin tengist þannig ekki beint neinni ákveðinni vísitölu fyrir liðinn tíma, heldur er markmiðið sett fyrir þann tíma sem í hönd fer. En eðlilegt er að viðkomandi verðlagsyfirvöld miði ákvarðanir sínar í meginatriðum við samanlögð áhrif á framfærsluvísitölu, þar sem það er algengasti mælikvarði á þróun verðlags hér á landi. Á hitt er þó að líta, að þrátt fyrir að vara eða þjónusta sé ekki í framfærsluvísitölunni gildir almenna reglan eftir sem áður. Hér er því fremur um eðlilegt vinnumarkmið að ræða en algilda reglu.“

Mér sýnist á þessu plaggi að þar sé staðfestur sá skilningur, sem vikið er að í aths. við frv., þar sem segir — með leyfi forseta: „Miðað er við, að verðhækkanir umfram brýnustu nauðsyn verði ekki leyfðar, en í óhjákvæmilegum tilfellum verði unnt að leyfa meiri hækkanir, enda verði heildarútkoman innan við hin settu mörk.“ M. ö. o. sé hægt að neita hækkunum á þeim forsendum að komið sé fram yfir mörkin þótt öll rök hnigi að því að hækkanir eigi að veita.

Í hv. Nd. vék hv. frsm. og formaður n., Halldór Ásgrímsson, að þessu máli og segir þar orðrétt, með leyfi forseta: „Það kom fram á nefndarfundum að menn óttuðust að þetta gæti leitt til þess, að fyrirtækjum væri mismunað samkv. þessum lögum, einn fengi minna og annar fengi meira vegna laganna, en slíkt er að sjálfsögðu ekki hægt að lesa út úr þessum lagatexta.“ — Og út af fyrir sig er það rétt. Út úr lagatextanum sjálfum er ekki hægt að lesa þetta, en hins vegar út úr aths. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson heldur áfram: „Hins vegar hlýtur það alltaf að verða svo, að það er misjöfn hækkunarþörf hjá hinum ýmsu aðilum og á það þarf að leggja mat hverju sinni, eins og verið hefur á undanförnum árum, og slíkt mat hlýtur ávallt að liggja til grundvallar annars vegar ákvörðun verðlagsyfirvalda og einnig ákvörðun ríkisstj. þegar það á við.“ — Ég hygg að með þessum orðum hafi ræðumaður ætlað að koma því á framfæri að þessi mörk væru ekki svo ginnheilög að ekki yrði að hafa hliðsjón af hverju einstöku máli og yfir þau mundi þess vegna stundum a. m. k. verða að fara. En mér heyrðist hins vegar á hæstv. forsrh. áðan að það væri ekki hugmyndin. Síðasta grg. frá fulltrúa hans tekur raunar af tvímæli í því efni. Það á sem sagt ekki að taka tillit til fullkominnar sanngirni og algerrar nauðsynjar ákveðinna fyrirtækja ef búið er að fylla upp í rammann. Í grg. Þórðar Friðjónssonar segir raunar að það eigi ekki að miða við liðinn tíma, heldur séu hækkanirnar, sem hugsanlega verða leyfðar, eingöngu miðaðar við verðhækkanir í framtíðinni. Þannig á m. ö. o. í fyrsta lagi að hafa af fyrirtækjunum í landinu allar hækkanir sem orðið hafa síðustu 2–3 mánuði, því að engar verðhækkanir hafa yfirleitt verið leyfðar, og síðan á að miða við einhverja vísitölu, 8% eða eitthvað slíkt, fyrir næsta þriggja mánaða tímabil og það á að vera meðalhækkun þó að einhver fyrirtæki hafi fengið við skulum segja 20%, eins og verða mun um landbúnaðarvöruna. — Hún verður sjálfsagt undanskilin þessu. Við höfum fengið um það upplýsingar að 1. júní muni landbúnaðarverð hækka um 20%. — En auðvitað eru mörg fyrirtæki, sem þurfa á jafnmiklum hækkunum að halda, og gætu þau kannske sum fengið þessa 20% hækkun, en þá væri líka búið að fylla út í rammann og hin fengju ekki neitt eða eitthvað miklu minna.

Hæstv. forsrh. sagði áðan að mörg fyrirtæki þyrftu ekki svona mikla hækkun, mér skilst jafnvel heilar starfsgreinar, því að fyrirtæki, þar sem lítill vinnulaunakostnaður væri, þyrfti ekki á þessum hækkunum að halda, hvorki fyrir þennan liðna ársfjórðung né heldur komandi ársfjórðung. Þau þyrftu sem sagt engar hækkanir fyrir hálft ár þrátt fyrir 50% verðbólgu. — Hún verður vafalaust orðin 50% í raunveruleikanum a. m. k. þegar kemur fram á sumarið þótt áfram verði haldið að falsa vísitöluna. — Ég leyfi mér þess vegna að spyrja hæstv. forsrh. og vona að í þetta skipti svari hann ekki með neinum útúrdúrum, heldur beint: Hvaða íslensku starfsgreinar eru það sem þurfa á næstu þrem mánuðum mun minni hækkanir til þess að geta borið sig en 8%? Það verða að vera allvíðtækar starfsgreinar þegar við vitum að t. d. áburðarverð hækkar um 70–80%, landbúnaðarverð um 20% o. s, frv. Það hljóta að vera mjög stórar atvinnugreinar sem þurfa ekki á þessu að halda ef þær eiga að geta borið uppi þann mismun sem þarna er. Ég vona að hæstv. ráðh. skilji hvað ég er að fara. Hann getur kannske sagt að það verði einhverjar vörutegundir, t. d. innfluttar, sem mundu ekki hækka þetta mikið, en þær eru raunar ekki undir beinum verðlagsákvæðum. Það eru sjálfkrafa hækkanir þar. Ég hygg að það sé engin þjónustustarfsemi, enginn iðnaður, engin verslunarstörf og því síður finnist sú atvinnugrein í sjávarútvegi sem þurfi ekki á 8% hækkun að halda næstu þrjá mánuði vegna þess að útgjaldahækkanir hjá þeim hafi orðið miklu minni. (Forsrh.: Hver er nánar spurning hv. þm.?) Spurning mín er sú, hvaða starfsgreinar það séu sem á næstu þremur mánuðum þurfa ekki á 8% hækkun að halda a. m. k. þannig að það verði hægt að leyfa öðrum mun meiri hækkanir án þess að ramminn verði sprengdur. Ég skil þetta svo, eftir greinargerð Þórðar og eftir ummælum hæstv. forsrh., að hækkanirnar eigi ekki í heild að fara yfir þessi mörk eða þennan ramma, sem mér finnst þó vera skiljanlegra en einhver tímamörk.

Ég vona að einhver misskilningur sé á ferðinni af minni hálfu. Svo sannarlega vona ég að það sé hægt að finna þarna lausn og láta þetta dæmi ganga upp. En mér er ekki nokkur leið að sjá hvernig það megi verða eftir að við fengum í hendur þá greinargerð sem ég var að lesa upp. Og þá er ekki heldur hald í ummælum hv. formanns fjh.- og viðskn. Nd. sem ég las upp áðan. Ég veit að það er vilji hans og hugsun að þarna verði gætt réttlætis, sæmilegs réttlætis a. m. k., og að ekki eigi að hafa einn út undan af því að annar hafi fengið mikið. En þetta verður alveg óhjákvæmilega að skýra. Nóg er óhreinlyndið í kringum þetta allt saman þó að menn fái svör við svona einföldum spurningum. Hæstv. forsrh. sagði áðan að mörg fyrirtæki þyrftu ekki á allri þessari hækkun að halda. Ég spyr: Hver eru þau einstöku fyrirtæki og þær starfsgreinar sem þurfa ekki á þessu að halda að mati hæstv. forsrh.? Ég vona að hann svari þessu skilmerkilega, með engum útúrdúrum eða undankomu, því að það gæti vissulega lengt þessar umr. ef ekki er hægt að fá svör við svona einföldum spurningum. Ef honum hefur orðið á í messunni og getur ekki fundið þessi fyrirtæki skal ég fyrirgefa það. Ef það er játað er málið á hreinu. Þá vitum við hvernig með á að fara.

Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að vera langorður. Málið er mikið rætt. Enginn hefur raunar lýst þessu máli betur en okkar ágæti hv. formaður fjh.- og viðskn. þessarar deildar þegar hann sagði áðan að þetta mál væri enn einn steinn í hina traustu götu núv. ríkisstj. Það er svo sannarlega réttnefni. (ÓRG: Það er rangt með þetta farið og ég mun leiðrétta það hér á eftir.) Það er ekki rangt með farið, við heyrðum það allir í deildinni, en ef hv. þm. hefur orðið mismæli er það líka fyrirgefanlegt. En þetta var réttnefni. Ég held að þetta hafi verið einhvers konar tungubrjótur undirmeðvitundarinnar. Ég vona að málið sé þar með útkljáð. Þetta heyrði hver einasti maður hér inni. (ÓRG: Ég mun upplýsa það hér á eftir.) Við fáum þá alla vega einhverjar upplýsingar. — Og þar með læt ég máli mínu lokið.