05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3957 í B-deild Alþingistíðinda. (4019)

268. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ástæða er til að fagna því og taka viljann fyrir verkið þegar hæstv. viðskrh. segir nú að næst þegar spurt verði um það, hvort hann fari að vilja Alþingis í lánamálefnum varðandi bændur, þá muni hann reyna að standa sig betur en nú. Það er ástæða til að fagna því.

Hv. 11. þm. Reykv., Ólafur Ragnar Grímsson, hafði nú ekki kjark í sér til þess að hafa uppi hér sömu ummæli og áður varðandi Jónatan Þórmundsson, og er það að vísu góðs viti að hann skuli draga í land. En hitt verður að teljast ámælisvert, að formaður þingnefndar dragi einn af prófessorum Háskólans inn í umr. á Alþingi með þeim hætti sem hér hefur gerst í dag. Ég veit að allir þm. eru sammála um að umfjöllun af þessu tagi um embættismenn, sem geta ekki svarað fyrir sig hér í þingsölum, er ekki af því góða og verður ekki til þess að auðvelda þingnefndum störf sín eftirleiðis. Er því vissulega ástæða til að láta í ljós undrun og vonbrigði yfir þessari hegðun þm.

Varðandi svo þau ráð hans og hæstv. viðskrh. að fara til dómstólanna eftir að ríkisstj. hefur fengið samþykkt hér lög á færibandi um eitt og annað og ekki hirt um hvort þau stæðust ákvæði stjórnarskrárinnar, heldur skuli þegnarnir höfða mál fyrir dómstólum, þá er þetta ekki nýtt af nálinni. Það er búið að gefa verðlagsskrifstofunni lögbannsvaldið. Haustið 1978 voru gefin út ný skattalög með brbl. þess efnis, að öðru sinni skyldi lagður á skattgreiðendur bæði tekjuskattur og eignarskattur og tekjuskattsviðauki, og fyrningarreglum var breytt, og við munum að Hæstiréttur hefur fjallað um þá löggjöf og það var ekki meiri hl. í Hæstarétti sömu manna fyrir því að öll þessi löggjöf samrýmdist stjórnarskránni. Fimm menn dæmdu og það var ekki sami þriggja manna meiri hl., þriggja dómara meiri hl. fyrir því að þetta samrýmdist stjórnarskránni. Við getum tekið það dæmi sem Jónatan Þórmundsson talaði um og vafalaust er brot á stjórnarskránni. Við getum tekið dæmi af fóðurbætisskattinum sem líka er brot á stjórnarskránni. Og þeir sitja þarna saman núna og fer vel á með þeim, hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni og Ragnari Arnalds, en við minnumst þess í umr. um skattamál í vetur að Halldór Ásgrímsson lýsti þá yfir úr sæti sínu að reglugerð ráðh. varðandi fiskimannaafslátt bryti í bága við skattalög — og hann er fræðimaður á því sviði.

Ef tíminn væri ekki útrunninn mætti rekja þetta áfram, en vafalaust er að virðing manna fyrir lögum fer minnkandi meðan við völd er ríkisstj. sem lætur sig engu skipta hvort hún reyni að vera réttu megin við stjórnarskrána, á meðan dómsmrh. sér ekki ástæðu til að gefa Alþingi skýringu á því, hvers vegna og á hvaða rökum hann stendur með umræddri grein. Og að síðustu þetta: Fyrst hæstv. forsrh. mæltist svo vel á lokuðum fundi, hvers vegna vildi hann þá ekki endurtaka rökin hér í ræðustólnum? Hann var þó vissulega hvattur til þess. Ég varð fyrir vonbrigðum að hann skyldi ekki svara mér, eins og hann er þó óðfús stundum að svara fsp. mínum.