05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3973 í B-deild Alþingistíðinda. (4041)

391. mál, stundakennarar Háskóla Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það er ekki nema eðlilegt að menn hafi veitt því athygli, þegar deilur stóðu hér á dögunum milli stundakennara og fjmrh. um kjör stundakennara, að menn hafi veitt því eftirtekt, hversu margir stundakennararnir eru og hvaðan þeir kæmu. Hér hefur hv. þm. spurst fyrir um þetta efni, og ég skal reyna eftir bestu getu að svara því, hvernig þessu er fyrir komið, hversu margir gegna föstu starfi hjá hinu opinbera, og gefa nokkrar skýringar á þessu máli í leiðinni.

Samkv. upplýsingum, sem ég hef frá Háskóla Íslands, voru á aðalgreiðsluskrá haustmisseris 1980 346 nöfn, þar af 182 ríkisstarfsmenn. Á sömu skrá fyrir vormisseri 1981 eru 365 nöfn, þar af eru 197 ríkisstarfsmenn. Á þessum skrám eru allir sem sinna verulegri stundakennslu við Háskólann, segir í skýrslu Háskólans, en auk þess er fjöldi manna sem kenna eitthvað á hverju misseri, en lítið hver þeirra, allt niður í 1–2 fyrirlestra. Þar á meðal er fjöldi lækna á sjúkrahúsunum sem kenna læknanemum. Skrifstofa Háskólans áætlar að 450–500 manns kenni einhverja stundakennslu á hverju misseri og um 55% þeirra séu ríkisstarfsmenn.

Þetta er í raun og veru kjarni svarsins sem þarna kemur fram, að um 450–500 manns kenna einhverja stundakennslu á hverju misseri og 55% þeirra eru ríkisstarfsmenn. En eins og fram hefur komið í umræðum nýlega um kjaramál stundakennara við Háskóla Íslands er um það bil helmingi kennslu í Háskólanum sinnt af stundakennurum. Flestir munu sammála um að þetta hlutfall sé hærra en góðu hófi gegnir. En ástæða þessa háa hlutfalls stundakennslu er fyrst og fremst sú, að fjölgun á föstum kennarastöðum hefur verið langt frá því að haldast í hendur við þá miklu aukningu sem orðið hefur á starfsemi Háskólans á síðustu áratugum, þar sem hvort tveggja hefur gerst, að nemendum hefur stórfjölgað og kennsla verið tekin upp í mörgum nýjum greinum og á mörgum nýjum sviðum. Þess ber hins vegar að gæta, að við þær aðstæður, sem hér eru á Íslandi — og ég vil leggja á þetta mikla áherslu, þá hlýtur Háskólinn ávallt að leita til stundakennara í meira mæli en víða annars staðar mundi talið eðlilegt. Í fámennu þjóðfélagi eins og okkar, þar sem leitast er við að halda uppi sérfræðilegri starfsemi á mörgum sviðum, m. a. í vísindarannsóknum, er ekki þess að vænta, að völ sé margra sérfræðinga í öllum greinum. Jafnvel þótt Háskóli Íslands hefði fjárráð til þess að ráða fasta kennara til þess að sinna allri kennslu er hætt við að mönnum þætti vandinn ekki þar með leystur ef í staðinn yrði ekki unnt að manna nauðsynleg störf í öðrum stofnunum, öðrum fyrirtækjum sem þurfa á sérfræðimenntuðu starfsliði að halda. Með því móti, að sérfræðingar við ýmsar rannsókna- og þjónustustofnanir og reyndar einkafyrirtæki líka annist nokkra kennslu við Háskólann í sérgreinum sínum, eru Háskóla Íslands tryggð æskileg tengsl við ýmis starfssvið í þjóðfélaginu, m. a. á vettvangi atvinnulífsins, auk þess sem kennsla nýtur þá stuðnings af rannsóknaraðstöðu sem ella þyrfti að koma upp við Háskólann. Þetta ber að hafa í huga þegar rætt er um stundakennslu í Háskóla Íslands af hendi manna sem gegna aðalstarfi við aðrar ríkisstofnanir eða annars staðar í þjóðfélaginu. Að sjálfsögðu er greiðsla fyrir stundakennsluna reist á þeim grundvelli, að kennslan sé innt af hendi með samþykki yfirmanna viðkomandi stofnana og samkomulagi um vinnuskil ef kennslan fer fram á þeim tíma sem starfsmaður tekur laun fyrir í föstu starfi sínu.

Mér þótti rétt að bæta þessum fáu skýringum við frá eigin brjósti fram yfir það beina svar sem fsp. gefur tilefni til, en svarið við henni er, eins og ég greindi hér frá áðan, að það munu vera um 55% af stundakennurum ríkisstarfsmenn.