05.05.1981
Sameinað þing: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3981 í B-deild Alþingistíðinda. (4052)

55. mál, opinber stefna í áfengismálum

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vildi með örfáum orðum í tilefni af ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e., Árna Gunnarssonar, skýra nokkru nánar hvað liggur að baki hjá allshn. Sþ. þegar hún leggur til þær breytingar sem hún hefur gert á þessari till. og koma fram á þskj. 617 og hv. 10. landsk. þm. hefur gert grein fyrir sem frsm. nefndarinnar. Það má ekki skilja þetta á þann veg, eins og hv. þm. gerði í sinni ræðu, að nefndin treysti sér ekki til að taka afstöðu til einstakra töluliða í till. eins og hún var upphaflega lögð fram, eða það megi skilja afstöðu allshn. þannig að hún geti ekki fallist á eða sé jafnvel á móti einstökum töluliðum sem þarna koma fram. Það er ekki rétt. Þetta er frekar spurningin um það, hvernig rétt sé að Alþingi afgreiði svona tillögur almennt séð, þar sem gert er ráð fyrir að hafin sé vinna við að móta stefnu í ákveðnum meiri háttar málum. Þessi till. til þál. er þannig upp sett, að í upphafi greinir hún frá þeim markmiðum, sem vinna á að í áfengismálum, og að hvaða markmiðum stefnumótunin eigi að beinast. Síðan eru settar fram hugmyndir um viðfangsefni í ákveðnum töluliðum. Við töldum rétt — og það á ekki sérstaklega við um þessa till., heldur ýmsar fleiri tillögur svipaðs eðlis sem allshn. hefur haft — að afgreiða þær þannig, að markmiðin séu skýrt greind, en síðan sé það látið þeim eftir, sem vinna eiga að stefnumótuninni, að móta nánar stefnuna og þá sé það m. a. haft til hliðsjónar sem tillögumenn hafa lagt fram. Þetta á ekki sérstaklega við um þessa einu till., enda kemur svipuð málsmeðferð fram í fleiri tillögum sem nefndin hefur haft til meðferðar. Ég vil því alveg skýrt taka það fram — vegna þess að mér fannst það liggja í orðum hv. þm. þegar hann annars vegar þakkaði nefndinni fyrir störf, en gagnrýndi hana hins vegar fyrir að hafa ekki treyst sér til að taka afstöðu til einstakra tölul. — að það má ekki skilja afstöðu nefndarinnar þannig. Ég býst við að bæði nefndin í heild og einstakir nm. geti tekið undir margt af því og jafnvel allt sem þarna stendur — e. t. v. með einhverju öðru orðalagi og hefði þurft að slípa það eitthvað betur og laga — en það má ekki skilja það svo að við séum á móti þessu á neinn hátt.

Ég held að flm. hafi hreyft hér mjög merku máli. Ég held að nauðsynlegt sé að það sé mótuð opinber stefna í áfengismálum. Og ég vek sérstaka athygli á því, að við nm. tökum það upp sem fram kemur í niðurlagi þáltill., að tillögur þessar og grg. skuli sendar Alþingi í sérstakri skýrslu ásamt tillögum ríkisstj. um aðgerðir á sviði löggjafar og stjórnsýslu. Þá gefst þinginu, hv. Alþingi, gott færi á að ræða þessa stefnu í einstökum atriðum. Við töldum hins vegar ekki rétt að efna til jafnvíðtækra umræðna um stefnumótunina á þessu stigi og upphaflega till. gerði ráð fyrir.