06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4037 í B-deild Alþingistíðinda. (4133)

315. mál, Bjargráðasjóður

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Mér er ljóst af svari hæstv. fjmrh. að 1. gr. þessa frv. kveður skýrt á um heimild fjmrh. til að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs lán sem Bjargráðasjóður tekur, allt að 15 millj. kr. Þetta liggur fyrir og um það er ekki deilt. En það tengist mjög því, að ef Bjargráðasjóður tekur þetta lán með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs, hvaða heimild hefur hann þá til að lána þetta fé aftur með lakari kjörum en hann verður að taka lánið á? Það skiptir auðvitað höfuðmáli, og það er það sem ég var að leyfa mér að spyrja um. Þar sem reikna má með að þetta lán fáist varla nema verðtryggt verður Bjargráðasjóður að fá tryggar tekjur til að geta staðið við sínar skuldbindingar ef hann á að lána aftur til tjónþola. Ég hygg að flestir þm. séu á að þeir eigi að njóta þeirra venjulegu kjara sem Bjargráðasjóður veitir. Ég tel fyrir mitt leyti — ég vil að það komi fyllilega fram — að Bjargráðasjóður eigi að hluta til að styrkja þessa tjónþola, en aftur að meiri hluta til að lána það með skaplegum vöxtum, t. d. svipuðum vöxtum og Byggðasjóðsvextir eru. Þetta vildi ég að kæmi fram. Þess vegna tengist þetta hvað öðru. Hér er aðeins um sjálfskuldarábyrgð að ræða og hreint til verks gengið í sambandi við þetta lán, en hitt er allt saman í lausu lofti og það er það sem við berum kvíða fyrir og hefðum viljað fá frekari upplýsingar um til þess að þetta mál gæti fengið greiða afgreiðslu hér á hv. Alþingi.