06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4040 í B-deild Alþingistíðinda. (4137)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Eins og nál. minni hl. landbn. á þskj. 719 ber með sér náði landbn. ekki samstöðu um að staðfesta þau brbl. sem fyrir lágu um kjarnfóðurskatt.

Ég hafði ætlað að ég mundi ekki þurfa við þessa umr. að ræða málið efnislega. Ég gerði það við 1. umr. Þó að nú sé orðið nokkuð langt um liðið — það mun hafa verið upp úr miðjum nóv. sem sú umr. fór fram hér í hv. Nd. — er það e. t. v. farið að fyrnast sem þá var sagt. Ég ætla ekki að kippa mér mjög upp við það, en ég vil þó undirstrika að þessi brbl., sem sett voru um Jónsmessuleytið í sumar sem leið, komu yfir mjólkurframleiðendur eins og þruma úr heiðskíru lofti. Menn vissu ekki til að þetta væri yfirvofandi. Menn höfðu tekið á sig að hlíta kvótakerfi sem í undirbúningi var hjá bændasamtökunum, og þess var farið að sjá staði að það verkaði. Ég vil því til áréttingar minna á fáein orð sem Árni Jónasson, erindreki Stéttarsambands bænda, viðhafði í samtali við Þjóðviljann í vetur, þar sem rætt er við hann um áhrif kjarnfóðurgjaldsins annars vegar og kvótakerfisins hins vegar.

Árni Jónasson segir þar að hann telji að áhrifin af kvótakerfinu hafi orsakað minni framleiðslu og kemur það fyrst og fremst af því að kúnum hefur fækkað verulega og það svo að það virtist vera nóg. Þá spyr blaðamaður Þjóðviljans: „Telurðu þá að náðst hafi nokkurn veginn jafnvægi á milli framleiðslu og neyslu mjólkurafurða? „Já, það sýnist okkur, og ég held að mjólkin megi a. m. k. ekki minnka mikið úr þessu eigi ekki að verða tímabundinn mjólkurskortur. Við óttumst það fremur, að afturkastið verði of mikið.“ Og þá spyr blaðamaðurinn: „Bendir nokkuð til þess, að framleiðslan aukist á ný á yfirstandandi ári?“ — árinu 1981, og ég vil biðja menn að athuga að þá er búið að aflétta þessum skatti eins og hann var á lagður í sumar. Árni Jónasson svarar: „Ekki sé ég það og það því síður þegar þess er gætt að orsökin liggur í fækkun kúnna.“

Ég gerði grein fyrir þeirri skoðun minni og rökstuddi hana við 1. umr. þessa máls, að kjarnfóðurgjaldið hefði verið óþarft og það væri stórhætta á því, að það hefði eftirverkanir sem kæmu okkur í koll. Mér sýnist að síðan þessi orð voru mælt hafi ekkert gerst sem gangi í aðra átt eða afsanni þetta álit mitt.

Hv. 2. þm. Norðurl. e., frsm. meiri hl. landbn., hafði þau orð um álit nefndarinnar áðan, að það væri verið að staðfesta brbl., og hann tilgreindi það einnig, að stéttarsambandsfundur hefði staðfest þau. Þó ég sé nokkuð gamall í hettunni er ég kannske ekki nægilega gamall til að vita upp á hár hvernig hefur verið staðið að því að staðfesta brbl. jafnan, sem fyrir þingi hafa legið, en ef þetta er staðfesting á þeim brbl., sem lögð voru fram, kann ég ekki fyllilega að lesa úr því sem stendur á blöðunum.

Þessi brbl., sem sett voru í sumar, voru mjög afmörkuð og ég tel að það hefði verið eðlilegt að ef þingfylgi væri til þess yrðu þau þá staðfest óbreytt. Þau hafa verið í gildi alla tíð frá því að þau voru sett og eru í gildi enn, en það virðist vera svo, að meiri hl. landbn. hafi ekki treyst sér til að samþykkja þau eða staðfesta þau eins og frsm. n. vildi kalla það. Það má vera að meiri hl. n. hafi ekki viljað fallast á að staðfesta þau eins og þau voru og að það megi rekja til þeirrar umsagnar sem prófessor Jónatan Þórmundsson viðhafði um þau lög á fundi hjá okkur í landbn., þá hafi verið farið að óa hreinlega við því að staðfesta þau eins og þau voru og þess vegna hafi verið, eins og kom fram hjá frsm. áðan, leitað leiða til þess að komast fram hjá þeim annmörkum sem prófessorinn taldi vera á þeim eins og þau lágu fyrir nefndinni.

Ég vil láta það koma hér skýrt fram, að þegar prófessor Jónatan Þórmundsson kom til fundar við okkur í nefndinni voru bókuð eftir honum viss ummæli sem ég treysti mér til að hafa hér yfir vegna þess að þau voru á fundinum borin undir hann og hann hafði ekkert við þau að athuga. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Jónatan Þórmundsson varaði við því að fela framkvæmdavaldinu að taka ákvarðanir um skatta. Alþingi þyrfti að hugsa sig um tvisvar áður en það fæli ráðherrum ákvörðunarvald um skatta. Í þessum lögum taldi hann gengið lengra en önnur dæmi væru til um.“ Og enn fremur segir prófessorinn, að lagadeild teldi dómstóla of lina í umfjöllun um mál af þessu tagi.

Það er þess vegna mjög líklegt að það sé rétt eftir haft, sem frsm. meiri hl. hafði hér eftir Jónatan Þórmundssyni, að hann teldi hins vegar ekki líklegt að dómstólar mundu hnekkja þessum lögum.

En það er að mínum dómi ekki það sem þarna skiptir máli, hvort dómstólar mundu hnekkja þeim lögum sem við erum að setja hér á Alþingi. Vitaskuld skiptir það höfuðmáli fyrir okkur, sem erum fulltrúar fyrir þjóðina hér á Alþingi og erum kosnir til þess að setja lög, að þau séu í samræmi við þær reglur sem okkur eru settar og að þau séu í samræmi við stjórnarskrá landsins. Allir höfum við undirritað um það yfirlýsingu að við skuldbindum okkur til að halda stjórnarskrána.

Ég vil segja það einnig, að þær brtt., sem komu fram á fundi landbn. hver eftir aðra, eru þrjár. Sú fyrsta, sem kom á fund 3. febr., var tillaga frá Framleiðsluráði eða Stéttarsambandinu — það er kannske erfitt að greina þar á milli — eða frá báðum þeim aðilum. Hún var lögð fyrir Búnaðarþing með frv. og frsm. meiri hl. sagði að Búnaðarþing hefði mælt með frv. svo breyttu. Það er rétt að því leyti til, að Búnaðarþing mælti með þessu — samþykkti meðmæli með lögunum með, ef ég man rétt, 18:4 atkv. og 2 sátu hjá. Það má koma fram í þessari umr. að það var ekki einsýnn vilji Búnaðarþings að samþykkja þetta eins og það liggur fyrir.

Þessi till. var jafnan í umfjöllun með brbl. eins og þau lágu fyrir og álit lögmannanna var því um hana jafnframt. Önnur tillaga, sem er fskj. með nál. minni hl., merkt fskj. III, var lögð fyrir nefndina 13. apríl, og mér fannst, þegar ég las þá till. yfir, að hún væri í raun og veru ekkert annað en að samræma brbl. og gildandi lög eða fella þau saman í eitt. Breytingin var sáralítil önnur. Þessa brtt. bárum við einnig undir lögmenn, og ég hef það eftir Helga V. Jónssyni, sem hafði gefið álit um brbl. áður, að hann telur þessa brtt. á engan hátt aðgengilegri að því er varðar afsal löggjafans til annars aðila á ákvörðun skattgjaldsins. Þar er engu breytt í þessari síðari brtt.

Eitt er enn í þessum lögum, sem mun þó hafa verið fyrir í lögunum frá 1979, en kemur einmitt inn í þessa brtt., að gert er ráð fyrir að skattstjórum sé skylt að veita hvers konar upplýsingar sem Framleiðsluráð telur sér nauðsynlegt að fá. Við höfum oft talað um það hér í hv. Alþingi, að það eigi að reisa skorður við því, hvað skattstjórar megi láta frá sér fara úr persónulegum skýrslum manna. Verð ég að segja að mér finnst þetta orðalag vera í hæsta máta varhugavert. Þar segir að skattstjórum sé skylt að veita hvers konar upplýsingar sem Framleiðsluráð telur sér nauðsynlegar. Ég veit að á þessum tíma ber ég hið fyllsta traust til framleiðsluráðsmanna, en hvenær gæti orðið breyting á því? Það vitum við ekki og í því hróksvaldi tel ég að við alþm. eigum ekki að skáka.

Það náðist ekki meiri hl. um þessa brtt., eins og fram hefur komið og upplýst er, og þá klofnaði nefndin. Það var ákveðið að minni hl. skilaði séráliti, en 30. apríl sýndi formaður landbn., sem framsögu hafði áðan, okkur minnihlutamönnum og sjálfsagt nefndarmönnum öllum nýja útgáfu af brtt. n. Þær brtt. eru mjög í sama anda og tillagan sem merkt er sem fskj. III, en ég vil þó segja að þar eru viss atriði sem ég hef aths. við að gera. Í b-lið brtt. stendur svo, með leyfi hæstv. forseta (Forseti: Ég þykist vita að hv. þm. á töluvert eftir af ræðu sinni og bið hann, ef svo er, að velja sér fljótlega stað því að nú er komið að þingflokksfundatíma). Já, herra forseti, ég held að það sé þá best að ég geri hlé á ræðu minni hér. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var þar kominn máli mínu að ég vildi fara nokkrum orðum um þá brtt., sem liggur hér fyrir deildinni til afgreiðslu, og það, sem mér sýnist að helst hafi leitt til breytinga frá því sem er í gildandi lögum.

Lagt er til að b-liður 1. gr. frv. orðist eins og segir á þskj. og verði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Að innheimta gjald af innfluttu kjarnfóðri. Gjald þetta skal annaðhvort vera tiltekin fjárhæð á hverja þyngdareiningu kjarnfóðurs eða tiltekið hlutfall af tollverði kjarnfóðursins. Aldrei má gjald samkv. þessari mgr. þó nema meiru en sem svarar 200% af tollverði innflutts kjarnfóðurs. Að fengnum tillögum Framleiðsluráðs getur landbrh. ákveðið endurgreiðslu kjarnfóðurgjaldsins að hluta eða öllu leyti eða niðurfellingu þess til bænda, m. a. mismunandi eftir svæðum vegna harðæris, uppskerubrests eða til að auka framleiðslu búvöru, sem skortur er á, að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins.“

Ég kynni hérna þessa mgr. vegna þess að mér sýnist að hún sanni betur en nokkuð annað í þessum tillögum að þarna er farið lengra í þá átt að Alþingi afsali sér ákvörðunarrétti í skattamálum en góðu hófi gegnir. Það hefur komið fram í máli mínu hér áður að það er álit lögfræðinga, sem sérþekkingu hafa í þessum efnum, að stjórnarskráin mæli svo fyrir að ekki megi setja skatt, breyta skatti né afnema skatt nema með því að setja lög sérstaklega í hverju tilviki fyrir sig. Hér er á allt annan hátt staðið að málum, og það gildir einu þótt Alþingi hafi orðið á mistök áður. Þau mistök tel ég að eigi ekki að endurtaka.

Ég gat um það áðan, að ég teldi varhugavert að hafa í lögum fyrirmæli um að skattstjórum væri skylt að veita upplýsingar sem öðrum aðila þættu nauðsynlegar í þessu sambandi, sem sagt ótilgreindar upplýsingar um hvað eina sem Framleiðsluráði í þessu tilviki kæmi í hug að biðja um upplýsingar um úr persónulegum framtölum þeirra sem þeir eiga skipti við.

Þá vil ég koma hér að c-lið þessarar greinar í brtt., sem er á bls. 8 í nál. minni hl. landbn. Þar segir svo: „Framleiðsluráð fer með gæslu þess fjár, sem innheimtast kann samkvæmt heimildum þessarar greinar, og ráðstafar því með samþykki landbrh.“ — Ég held að það fari ekkert á milli mála, að hér er í sambandi við þetta fóðurbætisgjald um hreina skattheimtu að ræða, og það verður einnig að teljast óeðlilegt með öllu að þeim skatti, sem innheimtur er á vegum ríkisins og eftir lögum, sé ekki ráðstafað eftir fyrirmælum Alþingis. Þetta tel ég einnig ámælisvert.

Ég hef allmikið rætt um að lögmenn hafi haft uppi og komið fram með þá skoðun, að þessi lög standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég hef nefnt til þess tvo lögfræðinga Sérstaklega, Helga V. Jónsson hrl. og Jónatan Þórmundsson prófessor. Ég vil, áður en ég skilst algjörlega við þetta efni, vitna til tveggja sérfræðinga sem ég hygg að séu óumdeildir sem kunnáttumenn og vísindamenn á þessu sviði. Ég tek hér tilvitnun sem skráð er í umsögn Helga V. Jónssonar. Í fyrra lagi vil ég kynna þetta:

„Í fyrra bindi sínu að Almennri lögfræði frá 1976 fjallar dr. Ármann Snævarr um reglugerðir sem réttarheimild og segir þar m. a.: „Hinu er ekki að leyna, að handhafar lagasetningarvalds geta gengið svo langt í því að afsala sér valdi sínu að stjórnlögum til framkvæmdavalds, að ekki sé við það hlítandi. Ef Alþingi samþykkti t. d. lög um nýjan skatt og svo væri mælt í lögunum að fjmrn. setti reglugerð um skattstigann, mundi slíkt ekki fá staðist.““

Í öðru lagi vil ég vitna hér til og rifja upp það sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

„ Á bls. 370–371 í bók sinni ræðir Ólafur Jóhannesson um heimild löggjafans til að framselja reglugerðargjafa eiginlegt lagasetningarvald og leitast við að gera grein fyrir þeim takmörkunum sem framsalsheimild séu sett. M. a. segir hann: „Þess er áður getið, að ýmis stjórnarskrárákvæði mæli svo fyrir, að tilteknum efnum eigi að skipa með lögum. Almenna löggjafanum er þó óheimilt að fela ríkisstjórn eða öðrum stjórnvöldum að skipa slíkum málefnum með reglugerð.“ “

Það er sem sagt ekki heimilt að skipa þessum málum með reglugerð þó að frá ráðherra hendi sé.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta efni að svo komnu máli, en eins og fram kemur í nál. minni hl. landbn. gátum við ekki orðið samferða meiri hl. um afstöðuna til frv. Við erum andvígir frv. af tveimur ástæðum sérstaklega. Við erum á móti því, að kjarnfóðurskatti sé beitt nema til þess liggi ríkar ástæður og þó því aðeins að þeim skatti sé ráðstafað til ákveðinna verkefna og að þau verði tilgreind í lögum. Í þessu sambandi er rétt að það komi hér fram, að í máli frsm. meiri hl. áðan vildi hann halda því fram, að sá skattur, sem gert er ráð fyrir að innheimta með þessum lögum, sé í samræmi við það sem við sjálfstæðismenn höfum sett fram í stefnumörkun okkar í landbúnaðarmálum. Ég vil andmæla þessu og andmæla þessu mjög ákveðið vegna þess að í þeirri stefnumörkun eða í þeirri tillögu, sem fyrir Alþingi liggur, er gert ráð fyrir að þessa skattheimtu föllumst við ekki á nema hún verði til eins ákveðins verkefnis, svo sem til þess að styðja að innlendri fóðurframleiðslu með því að greiða niður áburð. Það er einmitt þetta sem við tökum saman í okkar nál., að við erum andvígir því, að fóðurbætisskatti sé beitt, nema til þess liggi ríkar ástæður og þó því aðeins að þeim skatti sé ráðstafað til ákveðinna verkefna og að þau verði tilgreind í lögunum. Það er ekki gert hér, eins og ég minnti á áðan, því að þar er það sett á vald Framleiðsluráðs og ráðh. hvað við skattinn er gert.

Enn fremur tökum við fram, minni hl. landbn.: Í annan stað föllumst við á það sjónarmið þeirra lögmanna, sem við höfum leitað til og hafa gefið umsögn um frv. munnlega og skriflega, að frv. þetta svo og brtt. meiri hl. n. standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. Að mati undirritaðra er það eitt nægilegt til þess að við séum frv. mótfallnir. — Þarna koma efnisatriðin til líka og ætla ég ekki að fara langt út í þá sálma að þessu sinni, en ég vil þó aðeins minna á að við 1. umr. málsins gerði ég grein fyrir andstöðu minni við kjarnfóðursskattinn eins og hann lá fyrir, og ég ætla ekki að endurtaka neitt um það frekar en ég hef nú gert.

Annað efnisatriði í lögunum var það, að bætt er inn í 2. gr. laganna því sem ekki hefur verið í lögum áður: „Heimilt er að ákveða sérstaklega með reglugerð rétt þeirra, sem hefja búskap, draga saman búvöruframleiðslu eða hætta búskap. Enn fremur þeirra, sem hafa mikinn fjármagnskostnað vegna byggingaframkvæmda, sem teknar hafa verið í notkun 1976 eða síðar.“

Ég sagði við 1. umr. að ég væri þeirrar skoðunar að þetta innskot væri ekki nauðsynlegt. Ég rökstuddi það með því, að við meðferð málsins hér á Alþingi 1979 var sett inn í upphaflega frv. ákvæði um að það væri heimilt að ákveða rétt frumbýlinga í samræmi við bústofn þeirra, og það í raun og veru þýddi ekkert annað en að taka þurfti að tillit til þarfa þeirra bæði að því er varðaði bústofn og annan fjármagnskostnað.

Herra forseti. Ég get þá látið máli mínu lokið. Eins og ég hef þegar tekið fram leggur minni hl. landbn. til að frv. nái ekki fram að ganga.