10.11.1980
Neðri deild: 14. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þegar rætt var um skýrslu hæstv. samgrh. um Flugleiðamálið í Sþ. gerði ég þetta frv., sem þá var þegar komið fram, nokkuð að umræðuefni. Lýsti ég því, að Alþfl. mundi í samræmi við yfirlýstan vilja sinn í þessu máli verða samþykkur öllum meginatriðum frv. Þó tók ég fram að við mundum ekki vera reiðubúnir til þess að styðja 5. gr. eins og hún er óbreytt í frv. af þeirri ástæðu að við teldum hæpið að Alþ. veitti ríkisstj. svo ótakmarkaða heimild til þess að setja skilyrði. Í samræmi við þetta hefur fulltrúi Alþfl. í fjh.- og viðskn. Ed. haldið þessu atriði fram og lagt fram till. um þá meðferð málsins sem við teljum eðlilegri. Þar er ekki um mikinn efnislegan ágreining að ræða, eins og hæstv. ráðh. benti á. Við áskiljum okkur þó allan rétt til að fjalla um þetta frekar í nefnd. og hugsanlega við 2. umr.

Flugleiðamálið er nú búið að vera til opinberrar meðferðar um alllangt skeið og hafa orðið um það miklar umr., illdeilur, ásakanir og átök sem því miður hafa ekki verið íslenskum stjórnmálum, stjórnvöldum eða félaginu til gagns eða sóma. Í þessu máli eru í hættu veigamiklir hagsmunir íslensku þjóðarinnar varðandi flugsamgöngur milli landsins og umheimsins og jafnvel innanlands, varðandi atvinnu mikils fjölda manna og fleiri atriði.

Ég tel að mál sé að þessum ósköpum linni. Það virðist svo sem almennt samkomulag sé um meginefnisatriði við afgreiðslu málsins hér á Alþ., og ég er því sama sinnis og hæstv. ráðh. hvað það snertir, að ég tel að þingið eigi nú að snúa sér að afgreiðslu málsins og gera það rösklega og eins fljótt og með góðu móti er hægt. Ed. tók sér langan tíma og gekk mikið á, eins og við mátti búast. Ég hef ekki trú á að það sé margt sem Nd. getur dregið fram sem mundi bæta meðferð málsins.

Með tilliti til þessa vil ég eindregið taka undir það, að við látum sem mest falla niður illdeilur, vegna þess að öll meðferð málsins hefur fyrst og fremst orðið til að draga úr trausti þessa þýðingarmikla félags, að eyðileggja það orðspor sem það hefur unnið sér víða um lönd. Tap þessa trausts er tap fyrir okkur Íslendinga alla. Því fyrr sem við afgreiðum þetta mál og snúum okkur að því í friði að reyna að bæta þann skaða, sem orðinn er, og byggja upp það, sem hægt er, því betra. Það verður nógur tími til að útkljá ýmis atriði sem skiptar skoðanir eru um, eins og eign og stjórn og stjórnarstefnu þessa félags.