07.05.1981
Neðri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4072 í B-deild Alþingistíðinda. (4201)

305. mál, grunnskólar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það fór aldrei svo að hv. 8. landsk. þm. kæmi því ekki að í framhjáskoti á þessu þingi, að hún væri á móti hernum, því að ekki hefur borið mikið á þeirri baráttu það sem af er þessu þingi.

Ég vil út af því máli, sem hér er til umr., annars segja það, að dregist hefur úr hömlu að aðlaga framhaldsskólastigið breyttum grunnskóla, og mjög hvetja til þess, að reynt verði að flýta þessu máli, og þó ekki um of, því að ég hygg að nauðsynlegt sé að frekari rannsóknir en orðið hafa verið á því, hversu grunnskólakerfið hefur reynst og hversu fjölbrautaskólar hafa reynst og hvort námskröfur séu með eðlilegum hætti nú á þessum síðustu og verstu tímum. Ég skal ekki hafa um þetta mörg orð, en leggja áherslu á það, að tíminn til næsta árs verði vel notaður til þess að safna gögnum svo að menn geti betur áttað sig á því í fyrsta lagi, hvort rétt sé og skylt að framlengja skólaskylduna um eitt ár, hvort nauðsynlegt sé að hverfa til gamla horfsins og breyta efstu bekkjum grunnskólastigsins til þess horfs sem áður var og vel gafst meðan gagnfræðaskólinn var, og enn fremur auðvelda skiptin yfir í framhaldsskólann þannig að fyrstu námsárin þar komi að betra gagni fleiri nemendum en nú er.

Ég er ekki kunnugur því lengur í einstökum atriðum hvernig skólastarfið hefur gengið, en hitt hef ég fundið á kennurum, bæði hér í Reykjavík og eins úti á landi, að nauðsynlegt er að koma ýmsum lagfæringum við varðandi bæði grunnskólann og framhaldsskólann. Mjög skiptar skoðanir eru t. d. um það, hvort rétt sé að hverfa að fjölbrautaskólanum á Akureyri eða fara aðrar leiðir.

Að síðustu vil ég svo láta í ljós ugg minn út af því, að móðurmálskennslan sé vanrækt í skólunum og við gætum þess ekki sem skyldi að standa þar í ístaðinu.

Ég skal svo ekki orðlengja það, en mun fylgja því frv. sem hér liggur fyrir.