08.05.1981
Efri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4120 í B-deild Alþingistíðinda. (4249)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur lagt fyrir mig allmargar spurningar og ég skal reyna að svara þeim eftir bestu getu og reyna að lengja ekki mjög mát mitt þó að ég komist ekki hjá því að gera ýmsar þeirra nokkuð almennt að umræðuefni.

Hann spurðist fyrst fyrir um hverjar hafi verið þær verðhækkunartillögur sem hafi verið lagðar fram í verðlagsráði. Hv. fyrirspyrjandi á e. t. v. öllu heldur við hverjar hafi verið þær samþykktir sem verðlagsráð afgreiddi á síðasta fundi sínum. Þær voru nokkrar og ég skal gera grein fyrir þeim:

Í fyrsta lagi var samþykkt í verðlagsráði með 8 samhljóða atkvæðum að heimila 8.57% hækkun á aðgöngumiðaverði að kvikmyndahúsum. Verðið mundi þá hækka úr 17.50 kr. í 19.00 kr. Í erindi sínu hafði Félag kvikmyndahúsaeigenda óskað eftir heimild til að hækka verð aðgöngumiða að kvikmyndahúsum á almennar sýningar úr 17.50 kr. í 23.00 kr. eða um 31.43% og á barnasýningar úr 8.75 kr. í 11.00 kr. Ástæður fyrir beiðninni voru launahækkanir, gengissig, hækkun á myndaleigu erlendis og aðrar rekstrarkostnaðarhækkanir. Síðast hækkaði miðaverð að kvikmyndahúsum 21. jan. 1981.

Í öðru lagi var samþykkt samhljóða að heimila hækkun á verði bensíns. Samþykkt var að heimila olíufélögunum að hækka verð á bensíni úr 5.95 kr. per lítra í 6.85 kr. Hækkunin skiptist þannig, að 8% stafa af hækkun innflutningsverðs, magnálagningar, smásölulauna o. fl.

Í þriðja lagi var samþykkt með 6 shlj. atkv. að heimila Flugleiðum að hækka far- og farmgjöld í innanlandsflugi um 12%. Í þessu máli sátu fulltrúar launþega í verðlagsráði hjá við atkvæðagreiðslu. Í erindi Flugleiða var farið fram á hækkun far- og farmgjalda í innanlandsflugi sem næmi 26.9%. Þessi hækkun var rökstudd með miklum hallarekstri á s. l. ári og yfirstandandi ári. Síðasta hækkun á far- og farmgjöldum í innanlandsflugi var afgreidd 16. mars s. l. og nam 6%.

Í fjórða lagi var samþykkt með 9 shlj. atkv. að heimila 4.5–7.1% hækkun á brauðum öðrum en sigtibrauðum, en samþykkt var að heimila 15.7% hækkun á þeim. Hér er um að ræða 6% meðaltalshækkun þegar allt er lagt saman.

Í fimmta lagi var samþykkt með 8 shlj. atkv. að heimila skipafélögum að hækka farmgjöld og vöruafgreiðslugjöld um 12%. Ásmundur Stefánsson, fulltrúi ASÍ, sat hjá við þessa atkvgr.

Í sjötta lagi var samþykkt með 7 shlj. atkv. að heimila Landvara, sambandi vöruflutningaaðila, að hækka taxta sína um 14%, en sambandið hafði sótt um hækkun á bilinu 14–34%.

Í sjöunda lagi var samþykkt með 6 atkv. gegn 1 að heimila vinnuvélaeigendum að hækka taxta sinn um 19%, en Félag vinnuvélaeigenda hafði farið fram á 26% hækkun. Haraldur Steinþórsson greiddi atkv. á móti þessari samþykkt.

Í áttunda lagi var samþykkt með shlj. atkv. að heimila Félagi sérleyfishafa að hækka taxta sína um 20%. Félagið fór fram á 22.98% hækkun og mælti skipulagsnefnd fólksflutninga með afgreiðslu þessa erindis. Á síðasta ári hækkuðu fargjöld sérleyfishafa um 40.7% og Landleiðir fengu milli 70 og 80% hækkun.

Í níunda lagi var samþykkt með 9 shlj. atkv. að heimila 18% hækkun á sementi, steypu án sements og sandi og möl. Sementsverksmiðja ríkisins fór fram á 25% hækkun á sementi. Leyfðar hækkanir á árinu 1980 voru tæp 83%, en þrátt fyrir það var tap á rekstri Sementsverksmiðjunnar sem nam 570 millj. gkr.

Í tíunda lagi var samþykkt með 9 shlj. atkv. að heimila 8% hækkun á niðursoðnum fiskbollum og fiskbúðingi.

Í ellefta lagi var samþykkt með 8 shlj. atkv. að heimila 18% hækkun á saltfiski í neytendaumbúðum, en það hafði verið sótt um 30% hækkun.

Þetta eru þær samþykktir sem gerðar voru í verðlagsráði nú í vikunni og ég ætla að hv. fyrirspyrjandi hafi spurt um.

Varðandi gjaldskrána voru nýlega staðfestar af ríkisstj. hækkanir á gjaldskrá ýmissa opinberra þjónustustofnana. Ég er ekki með þessar hækkanir með mér. Þær voru í kringum 8%. Ég vil nú ekki fara með nákvæmar tölur, en þær voru í kringum það, og þær hækkanir allar koma inn í útreikninga þeirrar vísitölu sem tekur gildi 1. júlí.

Þá spurði hv. þm. um hvort það væru höfð samráð við launþegasamtökin um útreikninga á vísitölunni. Um það eru í sjálfu sér engin samráð vegna þess að um það gilda vissar reglur og það er ákveðin stofnun sem um það fjallar, kauplagsnefnd. Það hafa ekki mér vitanlega farið fram nein sérstök samráð í sambandi við það mál.

Þá spurði hv. þm. hvort ráðh. og ríkisstj. ætli að samþykkja þessar verðhækkanir. Hann spurði hvað einstakir ráðh. eða ráðh. einstakra flokka mundu gera. Þeir verða að svara fyrir sig sjálfir, en ég svara hér í einu lagi fyrir ríkisstj. og er engin ástæða til að ætla að það sé munur á skoðun manna í þessum efnum. Ég hef a. m. k. ekki orðið var við það.

Varðandi þessi mál er í sem stystu máli það að segja, að samkvæmt nýafgreiddum lögum um aðhald í verðlagsmálum o. fl. er gert ráð fyrir að ríkisstj. miði verðlagsákvarðanir við ársfjórðungsleg meginmarkmið í verðlagsmálum. Þessi markmið hafa ekki verið ákveðin fyrir næstu þrjá mánuði. Ég ætla ekki að ríkisstj. muni ákveða þetta að þeim þremur mánuðum liðnum. Ég geri ekki ráð fyrir því. Ég vildi svara þessu þannig, að ég geri ráð fyrir að þessi mörk verði ákveðin á næstunni. Ég skal ekki nefna daga í því sambandi, en þau verða áreiðanlega ákveðin á næstunni af ríkisstj. Það hefur legið í loftinu að þessi mörk yrðu einhvers staðar í kringum 8%, en ég álít að það fari dálítið eftir því, hvað framfærsluvísitalan verður há núna 1. júní vegna þess að það er náttúrlega samband þarna á milli. Ég get upplýst það, vegna þess að hv. þm. spurði síðar um það mál, að Hagstofan telur að framfærsluvísitalan muni verða einhvers staðar á milli 8 og 8.5% 1. júní. Það hefur farið fram verðupptaka í verslunum hér í Reykjavík, sem er grundvöllur að útreikningum vísitölunnar. Það er byrjað að vinna úr henni, en niðurstöður liggja ekki fyrir í þeim efnum fyrr en eftir þessa helgi.

Koma þessar verðhækkanir inn í framfærsluvísitölu 1. maí og þá verðbótavísitölu 1. júní eða mælast þær ekki í verðbótum fyrr en 1. sept.? Um það skal ég ekkert segja. Eins og ég sagði áður er það kauplagsnefnd sem fjallar um útreikninga á vísitölunni. Ég skal ekkert um það segja, hvort svo verður. Það er alveg ljóst af þeim samþykktum, sem hafa verið gerðar, að bensínhækkun vegur langmest í vísitölu. Hitt er tiltölulega smáræði, vil ég segja. En það er auðvitað ekkert launungarmál að menn hafa áhuga á að reyna að koma í veg fyrir eins og unnt er víxlhækkanir verðlags og launa. Það er ekkert launungarmál. — Ég verð nú að segja alveg eins og er, þegar ég lít á málflutning og skrif Morgunblaðsins og alveg sérstaklega þm. Sjálfstfl. hér á Alþingi: Einhvern tíma hefur verið meiri áhugi í þessum herbúðum á því að halda vísitölunni niðri með það fyrir augum að koma í veg fyrir eins og unnt er víxlverkun kaupgjalds og launa.

Ég geri ekki ráð fyrir að menn reyni að mótmæla þessu. Það eru allt of mörg nærtæk dæmi til þess að rifja þetta upp.

Þá spurði hv. þm. um það, hvort verðlagning einhverrar vörutegundar og þjónustu væri frjáls eftir að þessi lög hafa tekið gildi. Það er að vísu ekki búið að taka um þetta ákvarðanir í ríkisstj., eins og gert er ráð fyrir að gert verði samkvæmt lögunum, en ég er þeirrar skoðunar, að eðlilegt sé að svo verði innan þeirra marka sem ríkisstj. ákveður. Ég álít að það sé eðlilegt og hljóti að liggja í hlutarins eðli. Hitt er svo annað mál, og hann spurði einnig um það, hvort hér sé um algjöra verðstöðvun að ræða samkvæmt lögunum. Svo er auðvitað ekki. Hér er um að ræða aðhald í verðlagsmálum, verðlagsaðhald, en ekki verðstöðvun, því það er gert ráð fyrir því í lögunum að ef Verðlagsstofnun eða verðlagsráð samþykki fyrir sitt leyti hærri hækkanir, sem eru umfram þau mörk sem ríkisstj. hefur ákveðið á hverjum tíma, gangi það til ríkisstj. til staðfestingar. Það er enginn vafi á að í sumum tilfellum verður óhjákvæmilegt að fara yfir þessi mörk. Ég vil nefna t. d. Sementsverksmiðju ríkisins. Það er alveg sýnilegt að það verður óhjákvæmilegt, til þess að hægt sé að reka Sementsverksmiðjuna með eðlilegum hætti, að fara fram úr settum markmiðum.

Þá spurði hv. þm. um það, hvort hækkanir í vöru og þjónustu væru innan ramma pólitísks markmiðs um verðlagsmörkin án tillits til afkomu vel rekinna fyrirtækja. Ég álít að það sé alveg sjálfsagt mál og nauðsynlegt að haga verðlagspólitíkinni þannig að það sé hægt að reka vel rekið fyrirtæki með eðlilegum hætti, það sé í raun og veru ekkert vit í að haga henni á annan veg þó að menn gæti ýtrasta aðhalds í verðlagsmálum. Ég álít að það hefni sín ef rekstur fyrirtækja er kyrktur, í minni framleiðslu og verri afkomu þjóðarbúsins.

Þá spurði hv. þm. um verðhækkanir innfluttra vara, hvort þær væru óháðar verðlagseftirliti að öðru leyti en að því er varðar álagningu dreifingaraðila. Þessu er til að svara, að það verður fylgst með þróun innflutningsverðlags og álagningar. Náttúrlega koma hér mörg atriði til álita. Það kemur t. d. til álita hvað gerist í gengismálunum. Það hafa orðið mikil umskipti í þeim málum á hinum alþjóðlega peningamarkaði á undanförnum mánuðum, — ég vil segja: mánuðum því það hefur gerst eiginlega síðan forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fóru fram í nóvemberbyrjun á s. l. ári. Bandaríkjadollarinn hefur verið að styrkjast síðan og hefur styrkst stórkostlega síðan t. d. í janúarmánuði. Þá jafngilti Bandaríkjadollar hvað kaupgengi snertir 6.23 kr., en núna hefur orðið sú breyting á að í dag er gengið 6.70 kr., hefur hækkað sem sagt um nærri því 50 aura. Þetta er náttúrlega gífurlegur munur og kemur þarna til með að raska, eins og okkar gengisskráningu er hagað, einnig afstöðu krónunnar gagnvart Evrópugjaldmiðlum, en þar hefur íslenska krónan verið að styrkjast síðan um áramót. Í janúarmánuði jafngilti sterlingspundið 14.86 kr., en núna 14.35 eða 36. Ég held að það sé að vísu í dag líklega um 14.30. Hér hefur sú breyting orðið á að gengi Evrópugjaldmiðla hefur lækkað yfirleitt samkvæmt ísl. kr. Þessi gengisþróun er hagstæð fyrir okkur sem þjóð vegna þess að við flytjum ákaflega mikið út fyrir dollara, en kaupum aftur inn fyrir Evrópugjaldmiðla. Þetta ætti að hafa þau áhrif að lækka hér verðlag heldur en hitt. Gengið hefur því ákaflega mikil áhrif á þessi mál, t. d. hvort aðföng iðnaðar, sem verður að flytja til landsins, hráefni og annað slíkt, fara hækkandi í verði eða ekki. Hann spurði um hina svokölluðu 5–15% reglu, sem er fólgin í því að verðlagsráð hefur samþykkt að Verðlagsstofnunin geti hækkað álagningu innan marka sem eru milli 5 og 15% í hækkun í smásölu ef aðföng hafa hækkað. Aftur á móti hefur Verðlagsstofnunin sem slík ekki heimild til að hreyfa neitt ef um er að ræða hækkanir aðfanga sem leiða til minni útsöluverðshækkunar en 5% og ekki heldur ef það er yfir 15%. Ég tel ákaflega eðlilegt og ég tel nauðsynlegt að þessi regla verði áfram í gildi, ekki síst vegna þeirrar gengisþróunar sem við búum við vegna þess að lækkandi gengi á Evrópugjaldmiðlum er yfirleitt andstætt útflutningsiðnaðinum sem selur mjög fyrir Evrópugjaldeyri. Því er ástæða til að ætla að útflutningsiðnaðurinn kunni að eiga í erfiðleikum. Ég tel nauðsynlegt að þessi 5–15% regla verði áfram í gildi. Um það hefur ekki verið tekin ákvörðun af hálfu ríkisstj. vegna þess að sumt af því fer yfir þau mörk sem sett munu verða, en vegna þeirrar þróunar, sem hefur verið í gengismálum, tel ég ólíklegt að mikið verði um það.

Ég var búinn að svara því, hvað Hagstofan álíti um verðbótavísitöluna.

Fyrirspyrjandi spyr hvort ráðh. háfi kynnt sér verðbólguspá Þjóðhagsstofnunar og hver sé skoðun hans á þeirri spá. Ég skal svara þessu.

Ég hef enga ástæðu til að vefengja spá Þjóðhagsstofnunar. Ég hef ekki aðstöðu til þess og hef enga ástæðu til að vefengja hana. Ég vil skírskota til þess sem haft var eftir mér í fjölmiðlum: í blöðum, útvarpi og sjónvarpi, um áramótin eftir að áramótaefnahagsráðstafanirnar voru gerðar. Þá taldi ég að nauðsynlegt væri að gera frekari efnahagsráðstafanir á þessu ári til að ná því markmiði sem ríkisstj. stefnir að í verðlagsmálum. Ég er núna alveg sömu skoðunar. Ég álít að það þurfi að gera frekari ráðstafanir síðar á þessu ári til að ná því markmiði. En það er dálítið fróðlegt að lesa skoðanir Þjóðhagsstofnunar á því sem hefur verið að gerast. Þjóðhagsstofnun setur fram þá skoðun, að ef ekki hefði verið gripið til þess ráðs að draga verulega úr launahækkuninni 1. mars með lagasetningu væri líklegt að framfærsluvísitalan hefði hækkað um 15–16% frá febr. til maí. Með óheftu áframhaldi slíkra verðlags- og launabreytinga, segir Verðlagsstofnun, með leyfi forseta, „mátti ætla að verðbólga ykist úr tæplega 60% á síðasta ári í um 70% á þessu ári“. Þetta var baksvið efnahagsaðgerðanna um áramót, en veigamest þeirra var að draga úr verðbótahækkunum launa um 7% 1. mars. Hækkunin varð tæplega 6% í stað 13% að óbreyttum lögum. Með öðrum orðum var náttúrlega brotið í blað í verðlagsþróuninni. Í stað þess að stefna í 70% eða jafnvel enn þá hærri mörk stefna menn nú í 40%. Ef ekkert verður frekar að gert er Þjóðhagsstofnun þeirrar skoðunar, að verðbólgan verði 45–50%, en eins og ég hef sagt áður þarf að gera viðbótarráðstafanir til að ná því markmiði sem menn hafa sett sér.

Þá spyr hv. þm. að lokum að því, hvaða ráðstafanir komi til greina til að ná verðbólgunni niður í 40%, eins og ríkisstj. stefnir að. Í því efni vil ég nú vísa til nýgerðrar samþykktar þingflokks Framsfl. um þau mál. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að ná því markmiði, að verðbólgan lækki í um 40% á árinu 1981, er jafnframt nauðsynlegt að taka hið fyrsta ákvarðanir um framhaldsaðgerðir í efnahagsmálum.“

Síðan er bent á ýmis atriði sem nú er verið að vinna að, eins og vaxtastefnuna, gengisstefnuna og það verði leitað leiða til að draga úr þeim gífurlegu hækkunum á áburði sem sýnilegt er að muni verða.

Ríkisstj. beiti sér fyrir breytingu á verðkönnun vöru, þannig að byggt verði á raunverulegri neyslu þeirra vöruflokka sem reiknaðir eru í vísitölu.“

Ég er þeirrar skoðunar, að kauplagsnefnd hafi verið nokkuð íhaldssöm í sambandi við upptöku á vöruverði, hún hafi miðað við alveg ákveðin vörumerki sem eru í mörgum tilfellum miklu dýrari en önnur vörumerki sem eru til á markaðnum. Þess eru dæmi, að þau séu yfir 100% dýrari. Ég held að það væri ástæða til þess fyrir kauplagsnefnd að endurskoða þessi mál. Það er, held ég, verið að gera það nú, því að ég hef tekið það upp í ríkisstj. og óskað eftir því að þau yrðu endurskoðuð og menn reyndu að aðlaga þessa útreikninga þeim neysluvenjum, sem sífellt eru að breytast, og nýjum vörumerkjum og vörum sem koma inn á markaðinn í stórum stíl.

Ríkisstj. beiti sér fyrir aðhaldi í gengismálum, en þess verði þó gætt að útflutningsatvinnuvegirnir verði reknir með heilbrigðum hætti.“

Ég rakti nokkuð hér áður þróunina í gengismálunum. Það er náttúrlega enginn vafi á að þessi þróun er hagstæð og þessi þróun gerir að verkum að auðveldara verður að ákveða fiskverð núna 1. júní en ella hefði orðið. Erfiðasti þátturinn í sjávarútveginum hefur undanfarið verið afkoma frystihúsanna, frystiiðnaðurinn, en með styrkingu dollarsins hækkar náttúrlega andvirði ísl. kr. fyrir seldar frosnar afurðir og það léttir undir með ákvörðun um fiskverð.

Þá er ekki hægt að segja annað en að það hafi verið hagstæð þróun í fiskverði að öðru leyti. Við búum við mjög hagstætt verð á saltfiski. Sama er að segja um skreiðina. Það er eiginlega mjög hátt verð á skreiðinni. Við skulum vona að það fari ekkert úrskeiðis því að það er mikil skreiðarframleiðsla, sem stafar auðvitað af því að það er svo hátt verð á skreiðinni. Þegar þetta er allt saman skoðað vekur það vonir um að það verði auðveldara að fást við þessi mál varðandi fiskverðsákvörðun um n. k. mánaðamót.

Þá erum við þeirrar skoðunar að stuðlað verði að lækkun vöruverðs með breyttum álagningarreglum. Ég vil geta þess, — ég vil mælast til þess að fyrirspyrjandi hlusti, — að ríkisstj. hefur samþykkt fyrir sitt leyti nýjar reglur um álagningu. Þær eru þannig að þær hvetja til ódýrari innkaupa til landsins. M. ö o.: innflytjendur eiga kost á því að fella niður umboðslaun erlendis og fá þá hærri álagningu ef þeir geta sýnt fram á að þeir lækki vöruverðið. Ég álít að þetta sé ákaflega þýðingarmikið. Það er ekki búið að afgreiða þetta,mál í verðlagsráði, en það verður fjallað um það. Verðlagsstjóri hefur verið að undirbúa það fyrir verðlagsráð, og ég vona sannarlega að það verði frá því gengið þannig að menn fái þarna reglur sem séu hvetjandi þess að menn kaupi sem ódýrast til landsins. Því er ekki að leyna að í þær reglur og það fyrirkomulag, sem við höfum búið við, hefur þvert á móti vantað hvatninguna þannig að menn hafa allt að því haft áhuga á að kaupa dýrari vöru til landsins til að fá hærri álagningu.

Það er alveg ljóst mál að það er mest hætta á auknum hraða verðbólgu þegar fer að líða á árið og alveg sérstaklega 1. nóv. Þess vegna erum við þeirrar skoðunar, að það verði að hefja sem fyrst undirbúning að ráðstöfunum til að koma í veg fyrir slíkt.

Þetta er í stuttu máli og alls ekki nægilega undirbúið svar að þessu leyti til, en í stuttu máli drepið á það sem við viljum gera til að ná því marki sem að er stefnt. Ég hef reynt að stytta mál mitt eins og ég hef getað. Þetta er samt yfirgripsmikið mál. Ég hef viljað haga málflutningi þannig og svörum að það leiddi ekki til almennra eldhúsumræðna því að þær eru nú fram undan á þinginu, eins og kunnugt er — það verða eldhúsumræður fyrir þinglok. Ég hef reynt að takmarka mig sem mest við þær spurningar sem hv. fyrirspyrjandi hefur lagt fyrir mig. Ég vona að ég hafi getað gert þeim skil á mína vísu, en hvort það er á hans vísu er sjálfsagt umdeilanlegt.