08.05.1981
Efri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4135 í B-deild Alþingistíðinda. (4255)

319. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. menntmrh. er þetta frv. ekki nýtt af nálinni hér í sölum Alþingis og hefur oftlega verið lagt fram hér áður þó ekki sé það alveg í sömu mynd og nú. Hins vegar verður að átelja þau vinnubrögð að leggja frv. fram tveimur vikum fyrir þinglok og ætlast til að það bruni hér í gegn ágreiningslaust og hljóti afgreiðslu sem allra fyrst. Ég held að það hljóti að verða að ætla mönnum eðlilegan tíma til að fjalla um mál af þessu tagi. Ég minnist þess vorið 1979 að þá var frv. um sinfóníuhljómsveit lagt fram nokkrum dögum fyrir þinglok, ef mig ekki misminnir, og ætlast til sömuleiðis þá að það yrði afgreitt á afar skömmum tíma. Ég held að ráðh. geti ekki ætlast til þess að þm. afgreiði viðamikil mál á svona stuttum tíma. Ráðh. verða að átta sig á því, að þeim ber þá að leggja slíkt mál fram fyrr á vetrinum, og ætti í rauninni að vera vandalaust.

Það eru ýmis atriði í þessu frv. sem ég tel ástæðu til að gera athugasemdir við og spyrja nánar um.

Í 3. gr. þessa frv. er fjallað um skiptingu kostnaðar af rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hæstv. ráðh. sagði að nú væri lokið löngum deilum um þessi efni og því ætti að lögfesta þetta eins og það er. Ég leyfi mér að efast um að þetta sé endilega rétt, þó svo að menn hafi sæst á eitthvað í þessa veru. Mér finnst t. d. óeðlilegt að það skuli ekki öll sveitarfélög hér á höfuðborgarsvæðinu borga sinn hlut í rekstri þessarar hljómsveitar. Mér finnst óeðlilegt að það skuli aðeins gera borgarsjóður Reykjavíkur og bæjarsjóður Seltjarnarness. Mér finnst að Garðabær, Mosfellssveit og Hafnarfjörður ættu að vera hér með.

Þá er á það að líta að hlutur Ríkisútvarpsins er þarna 25% og það finnst mér sömuleiðis orka tvímælis og bið þá n., sem þetta tekur til umfjöllunar, að skoða þetta vel. Ég hef jafnvel í hyggju, ef ekki kemur till. um það frá n., að flytja brtt. um að minnka hlut Ríkisútvarpsins og auka heldur hlut ríkisins. Eins og fram hefur komið hér og kom fram m. a. í umr. um skýrslu hæstv. menntmrh. um Ríkisútvarpið í gær er fjárhagur þess afar bágborinn sem stendur. Það sýnist með öllu óeðlilegt að láta Ríkisútvarpið standa undir þessum kostnaði þegar svo illa árar þar. Það gæti verið eðlilegt, ef Ríkisútvarpið væri rekið með miklum hagnaði, að það legði þarna verulegt fjármagn af mörkum, en eins og nú háttar og árar hjá þeirri stofnun held ég að það sé ekki rétt.

Þetta er að vísu meginatriðið varðandi þessa kostnaðarskiptingu, en það eru nokkur atriði önnur sem ég tel rétt að gera aths. við.

Í 2. mgr. 2. gr. segir, með leyfi forseta:

„Tengja ber starf hljómsveitarinnar tónlistarkennslu í landinu svo sem kostur er.“

Þessi yfirlýsing er góðra gjalda verð, en mér leikur nokkur forvitni á að vita með hverjum hætti þetta er hugsað í framkvæmd, hvernig eigi að framkvæma þetta.

Í 3. gr. segir:

Sinfóníuhljómsveitin skal kappkosta að afla sjálfstæðra tekna af tónleikahaldi og stefna að því að eigi minna en 12% af útgjöldum hljómsveitarinnar fáist greidd af slíkum tekjum hennar.“

Þarna finnst mér markið óþarflega lágt sett. Ég held að þarna mætti stefna svolítið hærra. Að vísu mun það vera svo nú, að aðgöngumiðasala og tekjur standi undir innan við 10% af kostnaði við hljómsveitina, en ég held að það beri að stefna að því, að þetta verði meira, og setja markið svolítið hærra.

Í 6. gr. segir: Stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar ræður fastan hljómsveitarstjóra og aðalhljómsveitarstjóra og skipar verkum með þeim.“

Það væri kannske ekki úr vegi að ráðh. skýrði þetta svolítið nánar. Hver er munurinn á föstum hljómsveitarstjóra og aðalhljómsveitarstjóra? Ég er ekki viss um að öllum hv. þm. sé það ljóst.

Í öðru lagi segir í síðustu mgr. 6. gr.:

„Heimilt er að ráða tónskáld til starfa í þágu hljómsveitarinnar í takmarkaðan tíma“ — þetta er góðra gjalda vert — „eða fá verk til flutnings hjá tónskáldum.“

Ég sé nú ekki að þurfi sérstaka lagaheimild fyrir Sinfóníuhljómsveitina til að fá verk til flutnings hjá tónskáldum. (Gripið fram í.) Já, ég held að þetta megi athuga nánar. (Gripið fram í: Þetta er ekki stórvægilegt.) Nei, nei, þetta er ekki stórvægilegt, en ég held að þetta megi áthuga betur.

Sömuleiðis finnst mér orka tvímælis að binda í lög töluna 65, en fellst á að um það má vissulega deila.

Annað atriði, sem er kannske líka smávægilegt, er að í 7. gr., í lok fyrri mgr., segir um verkefnavalsnefnd að formaður hennar, sem tilnefndur er af menntmrn., skuli hafa staðgóða tónlistarmenntun. Þá er búið að telja upp ýmsa aðra aðila, sem eru í þessari nefnd, sem starfa sinna vegna hljóta að hafa mjög staðgóða tónlistarmenntun, svo sem hljóðfæraleikara og fleiri aðila. Mér hefði fundist eðlilegra að formaðurinn hefði til að bera staðgóða þekkingu á tónlist, en væri ekki gert að skyldu að hann væri menntaður á sviði tónlistar. Mjög margir eru þeir áhugamenn um tónlist sem hafa þar feikilega þekkingu til að bera án þess að þeir hafi formlega notið menntunar sem tónlistarmenn. Ég skýt þessu nú fram hér til ábendingar.

Ég ætla, herra forseti, ekki að tefja þessar umr. lengur né gera fleiri aths., en vænti þess, að hæstv. menntmn. þessarar deildar, sem fær þetta frv. til skoðunar, hafi þessar aths. mínar í huga.