08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4174 í B-deild Alþingistíðinda. (4303)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég hefði gjarnan óskað eftir því, að 1. landsk. þm. væri viðstaddur umr. (Forseti: Hv. 1. landsk. þm. virðist ekki vera lengur í húsinu, en ég skal sjá svo um að þegar 3. umr. fer fram verði hann viðstaddur þannig að hv. þm. megi nema nefi þá og þegar það verður.) Ég þakka hæstv. forseta. Ég hefði gjarnan viljað svara hv. 1. landsk. þm. nokkrum orðum, en fyrst hann er ekki hér viðstaddur mun ég fella niður nokkuð af því sem ég hefði við hann viljað segja.

Þó get ég ekki stillt mig um, fyrst ég er kominn hér í ræðustól, að benda á það, að ég tel að það sé ákaflega miður farið þegar hv. þm. leyfa sér að leiða umr. um slíkt mál sem hér er til umr. inn á það svið að fara að blanda inn í það því, sem í mörgum tilfellum er kallað hrepparígur, og reyna að koma því að í umr. að menn beri í brjósti sérstaka óvináttu gagnvart Reykjavík. Mér finnst þetta fáránlegt. Ég mótmæli harðlega slíkum málflutningi og tel að það komi ekki til mála að slíkt sé viðhaft. Ég er að sjálfsögðu dreifbýlisþingmaður, en ég get sagt það hér að ég á flest mín börn búsett á Reykjavíkursvæðinu og ég ber hagsmuni Reykjavíkur fyrir brjósti. Hún er sameign okkar. Hún er höfuðborg okkar. Það er mín skoðun, að hagsmunir dreifbýlisins og þéttbýlisins, Reykjavíkur þar með, fari saman í öllum atriðum. Við erum ekki það stórt þjóðfélag og við alþm. höfum sannarlega þá skyldu og það hlutverk að stuðla að því að styrkja byggð um landið og auka samstarf byggðanna og skilning á hagsmunum dreifbýlis, þéttbýlis og að sjálfsögðu að efla höfuðborg okkar. Mér finnst að svona tal eins og kom fram hjá hv. 1. landsk. þm. beri keim af einhverri minnimáttarkennd gagnvart okkur þm. dreifbýlisins. Ég kann ekki við svona orðaskak hér á hv. Alþingi þegar er verið að ræða um mál sem snerta jafnvel þjóðina í heild.

Það er rétt að endurtaka það hér, að ég held að ekki eigi að fara milli mála að við viljum, flestir þm. vonandi, vernda fiskveiðilandhelgi okkar, byggja upp fiskstofna og tryggja framtíð veiða og þar með framtíð þessarar þjóðar. Reynsla veiða með dragnót í Faxaflóa hræðir. Þetta er ekkert óeðlilegt. Þetta eru staðreyndir sem okkur ber skylda til að taka tillit til. Þess vegna eigum við að flýta okkur hægt í svona málum. Það þarf að samræma veiðar og vinnslu. Hagnýting aflans með tilliti til besta markaðar er aðalatriðið.

Hvers vegna eiga aðeins að vera flökunarvélar fyrir skarkola, og markaðsáhugi fyrir hendi hjá sölusamtökum þessarar þjóðar á 1000–1500 tonnum af skarkola veiddum í Faxaflóa? Hvers vegna hafa sölusamtökin ekki áhuga á meiri framleiðslu á kolaflökum á öðrum svæðum eða — ja, eins og fiskifræðingar telja hæfilegt, — 10 þús. tonna afla? Hvers vegna er þetta ekki? Hvers vegna vilja sölusamtök ekki hvetja frystihús sín til að kaupa kolaflökunarvélar sem tryggi þessa framleiðslu ef öruggur markaður er fyrir hendi og viðunandi markaðsverð? Þessar spurningar hafa verið settar fram áður, en ekki hafa komið svör við þeim. Ég veit hins vegar að sölusamtökin hafa ekki talið eðlilegt að hvetja frystihúsin til að setja upp kolaflökunarvélar miðað við þessa hagnýtingu. Þau hafa ekki talið það eðlilegt. Hvers vegna? Vegna þess að markaðurinn fyrir þessa vöru er ekki óþrjótandi. Það þýðir ekkert fyrir hv. 4. þm. Suðurl. að vera að hrista hausinn. Þetta er staðreynd.

Ég vil endurtaka, einmitt út frá því sem hv. 1. landsk. þm. sagði í dag í umr., að ég get samþykkt áframhaldandi tilraunaveiðar í Faxaflóa í þeim mæli, sem fiskifræðingar telja hæfilegt, eða að taka úr flóanum 1000–1500 tonn undir vísindalegu eftirliti — og ég vil bæta við: með þeirri möskvastærð sem Alþingi heimilaði til þeirra veiða, þ. e. 170 mm. Þar með er þessum tveimur fyrirtækjum, sem hafa keypt sér kolaflökunarvélar, tryggð sú vinnsla, sem þau virðast telja sig hafa markað fyrir, og um leið tryggð atvinna, sem hv. 1. landsk. þm. hafði áhyggjur af, fyrir það fólk sem hefur haft atvinnu af þessari vinnslu á s. l. ári. Þessi frystihús eru, eins og allir vita, Ísbjörninn í Reykjavík og Sjöstjarnan í Keflavík.

Í sambandi við þessar umr. tel ég rétt að vekja athygli á því, að það eru yfir 300 bátar af ýmsum stærðum, smábátar, hér á Faxaflóasvæðinu sem stunda aðrar veiðar en með dragnót. Þetta er staðreynd. Mér finnst ástæða til að minna menn á að gleyma þessu ekki. Bann við dragnótaveiði er þess vegna mjög mikið hagsmunamál fyrir fjölda fiskimanna á smærri bátum sem stunda veiðar hér í Faxaflóa, og eðlilega hræðir reynsla fyrri ára þessa menn þegar þeir eru að ræða um framtíðaratvinnu sína eða þá atvinnu sem þeir stunda í tengslum við þessar veiðar.

Hvað sem við ræðum lengi um þessi mál er ein staðreynd sem stendur upp úr. Hún er sú, og viðurkennd af fiskifræðingum þessarar þjóðar, að Faxaflóinn er mikilvæg uppeldisstöð fyrir nytjafiska. Þetta verður ekki hrakið, hvað sem menn vilja nefna þá menn sem vilja hafa vissa varúð í sambandi við sókn á þessu svæði.

Ég get bætt því við, að fyrir nokkrum árum tóku útvegsmenn og sjómenn sig til á Breiðafjarðarsvæðinu og friðuðu sjálfir innhluta Breiðafjarðar. Þeir friðuðu þetta svæði vegna þess að þeir voru sannfærðir um að þarna væri hrygningarsvæði, þarna væri uppeldisstöð. Hvað sögðu blessaðir fiskifræðingarnir okkar um þetta? Þeir sögðu að þetta væri kjánaskapur, það hrygndi enginn fiskur á þessu svæði, en nú viðurkenna þeir það sem sjómennirnir sögðu. Þeir viðurkenna að þetta hafi verið framsýni og heiðarleg tilraun og merkileg tilraun sjómannanna sjálfra og útvegsmannanna á þessu svæði til að taka þarna í taumana. Þetta er af því góða, svo ég noti orðtak hv. 9. þm. Reykv.

Ég ætla ekki að tefja þessar umr. Mér dettur það ekki í hug. Þetta er mál sem sjálfsagt er að þm. taki afstöðu til. En ég taldi það skyldu mína að flytja hér varnaðarorð í sambandi við þá ákvörðun sem hér er verið að taka, vegna þess að fortíðin ber með sér að það er fullkomlega réttlætanlegt, að varnaðarorð séu viðhöfð, og það er fullkomlega í samræmi við þá stefnu, sem við vonandi erum allir sammála um, að okkur ber að ganga varlega í fiskstofnana, okkur ber sú skylda að reyna að stuðla að því sameiginlega að efla fiskveiðar og framtíð fiskveiða í þessu landi. Og það eru ýmsar varnaðaraðgerðir sem við þurfum að gera í því sambandi, jafnvel þó það rekist á við hagsmuni einstakra aðila í landinu. Þess vegna segi ég að við eigum ekki að samþykkja þetta frv. sjútvrh. eins og það liggur hér fyrir. Það er ekki nægjanlega vel grundað og það stríðir gegn vissum staðreyndum sem við eigum að skoða vel.