11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

347. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Á tveimur mínútum í fsp.-tíma er ógerningur að fjalla ítarlega um efnisatriði þessara tveggja mála og ég vil aðeins vekja hér athygli á fjórum atriðum varðandi fyrri fsp. og þremur varðandi hina síðari.

Í fyrsta lagi eru þarfir þjóðarinnar fyrir nýja flugstöð í millilandaflugi mjög óvissar á þeim tímum sem nú ríkja í flugsamgöngum okkar, svo að tegund og stærð flugstöðvar fyrir millilandaflug Íslendinga er í raun og veru ekki hægt að ákveða til frambúðar fyrr en ljóst er hvernig greiðist úr þeirri miklu flækju sem við höfum hér undanfarnar vikur og mánuði verið að fjalla um varðandi millilandaflugið.

Í öðru lagi er það svo, að aðbúnaður að farþegum í innanlandsflugi, Íslendingum sjálfum í innanlandsflugi, flugstöðvarmál okkar í innanlandsflugi eru miklu meir til vansa, miklu verr á sig komin heldur en nokkurn tíma í millilandafluginu, þannig að ef við ætluðum að bæta aðbúnað í flugsamgöngum almennt, þá væri raunhæfara verk að taka fyrst til við að bæta aðbúnað þeirra tugþúsunda Íslendinga sem fara með innanlandsflugi okkar á ári hverju, og taka erlendu flugsamgöngurnar þar á eftir. Ég veit að aðbúnaðurinn hér í innanlandsfluginu er þm. svo kunnur að það þarf ekki að útskýra hér.

Í þriðja lagi er ljóst að borgaryfirvöld Reykjavíkur fjalla nú um framtíð Reykjavíkurflugvallar og hugsanlegan flutning á honum og byggingu nýs flugvallar eða ákvörðun um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugsins, jafnvel með samtengingu við framtíðarbúnað innanlands- og millilandaflugs í sameiningu. Það er afar óráðlegt og óskynsamlegt að ákveða meiri háttar fjárfestingu á þessu sviði fyrr en niðurstaða hefur fengist í þeirri umræðu sem nú fer fram á vegum Reykjavíkurborgar.

Í fjórða lagi er nauðsynlegt að gera það upp, hvort Íslendingar sjálfir eiga ekki alfarið að greiða þær flugstöðvarbyggingar sem hér verða reistar í landinu. Þeir aðilar, sem leggja mikla áherslu á að flýta þessum framkvæmdum, ættu væntanlega að vera tilbúnir til að stuðla að því, Íslendingar standi þá einir að þeirri fjármögnun, enda mun heildarkostnaður þessarar byggingar ekki vera meira en sem nemur kostnaðarverði 3–4 togara.

Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu. En það fer eins og mig grunaði, að tvær mínútur eru lítill tími. En ef ég má hlaupa aðeins á hálfri mínútu eða svo á þessum þremur atriðum varðandi seinni fsp.

Í fyrsta lagi er það ljóst, að hægt er að leysa þá mengunarhættu, sem oft hefur verið vísað til varðandi olíugeymana á Keflavíkurflugvelli, á annan hátt en gert er ráð fyrir í þessum tillögum, vegna minnkandi olíuþarfar hersins á næstu árum með tilkomu hitaveitunnar á Suðurnesjum.

Í öðru lagi er afar óráðlegt að staðsetja þessa olíubirgðastöð inni í helsta framtíðarbyggingarsvæði Keflavíkur. Svæðið við Helguvík er vænlegasta framtíðarbyggingarsvæði Keflavíkur, og það væri verið að gera nákvæmlega sömu mistökin í þessu efni og gert var áður ef ætti að hafa staðsetninguna þar.

Í þriðja og síðasta lagi — og það er kannske höfuðatriði þessa máls, að í umræður um mengunarhættuna skutu Bandaríkjamenn inn kröfu um þre- til fjórföldun á olíubirgðamagni hersins hér á landi. Það á að reisa hér á Íslandi einhverja umfangsmestu eldsneytisbirgðastöð Bandaríkjanna á Norður-Atlantshafi og þar með stórauka árásarhættuna á landið, því að sérfræðingar í stríðsfræðum, ef kalla má svo, hafa komist að þeirri niðurstöðu, að í þeim kjarnorkuvopnaátökum, sem fram undan kunna að verða, sérstaklega á grundvelli nýrrar ákvörðunar forseta Bandaríkjastjórnar á þessu sviði, þá eru það olíu- og bensínbirgðastöðvar sem verða fyrsta skotmark ef til átaka kemur, þannig að með því að útrýma mengunarhættunni eru menn að stórefla árásarhættuna á landið.