11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

347. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Einhvern tíma hefði hæstv. núv. fjmrh. ekki haft áhyggjur af erlendum lántökum. En látum það vera, að hann er farinn að hafa áhyggjur af því núna, það var tími kominn til. Hins vegar hefur það gerst hér, sem hefur verið tekið réttilega fram, að þessi framkvæmd er á forræði tveggja aðila. Innan ríkisstj. er hún alfarið á forræði hæstv. utanrrh. Að svo miklu leyti sem til einhverrar fjármagnsútvegunar eða fjármagnsráðstöfunar kemur af hálfu stjórnvalda, þá eru þau mál að sjálfsögðu á forræði Alþingis sem fjárveitingavaldsins í landinu. Við gerð stjórnarsáttmála hefur stundum verið samið um það, að hluti af þessum málum ætti að vera á forræði ríkisstj. allrar. Það var ekki gert núna. Ég ætla ekki að koma með neinar skýringar á því, hvort heldur það var af vangá, gleymsku eða af ráðnum hug. Niðurstaðan er sú, að það var ekki gert. Þar af leiðandi eru þessi mál innan ríkisstj. alfarið á forræði hæstv. utanrrh. eins og hann hefur sjálfur tekið fram. Ég ætla að láta það koma fram hér, að mér finnst gersamlega ástæðulaust í þessu máli sem öðrum að láta einhvern lítinn minni hluta, þótt hann sé hávaðasamur, ráða fyrir meiri hlutanum. Hæstv. utanrrh. hefur í þessu máli alveg óskorað forræði, sem enginn getur efast um og engin tilraun var gerð til að svipta hann, þegar núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð. Og um forræði Alþingis leikur enginn vafi, þar verður minni hlutinn að sætta sig við forræði meiri hlutans, hvort sem hann unir því vel eða miður vel.

Á annað vildi ég leggja áherslu. Eins og allir þm. vita, þá er núna verið að styrkja mjög varnir á norðanverðu Atlantshafi hjá NATO. Ég veit ekki betur en sú styrking eigi sér líka stað á Keflavíkurflugvelli um þessar mundir og sé raunar þegar hafin, og fyrir þá, sem hafa áhuga á eflingu vestrænnar samvinnu, er það ánægjulegt út af fyrir sig.