16.05.1981
Neðri deild: 97. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4533 í B-deild Alþingistíðinda. (4652)

327. mál, umbætur á opinberum byggingum í þágu fatlaðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða lítið frv., sem gerir ráð fyrir að kostnaður við að gera opinberar byggingar aðgengilegar fötluðu fólki greiðist af ríki og sveitarfélögum í sömu hlutföllum og stofnkostnaður samkv. lögum um heilbrigðisþjónustu, grunnskóla, dagvistarheimili og fleiri slík lög sem kveða á um kostnað af skiptingu við opinberar framkvæmdir.

Ég tel ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fjalla ítarlega um frv., grg. þess skýrir málið allvel. Það eru fjölmargir aðilar sem hafa komið að samningu frv. og það er samið í framhaldið af samþykkt þáltill. hér á Alþingi 22. maí 1980.

Ég vil því leyfa mér að leggja það til við hv. nefnd, sem fær málið til meðferðar, að hún í fyrsta lagi kanni hvort ekki sé rétt að setja inn í frv. ákvæði um, að þessar einstöku greinar, sem þarna er um að ræða, bætist við viðeigandi lög, fremur en að þannig sé frá málum gengið endanlega eins og gert er ráð fyrir í frv. þessu.

Varðandi nafnið á frv. tek ég undir ábendingar hæstv. forseta, en ég minni á að samtök fatlaðra hafa komið sér upp orði yfir þetta sem við erum að tala hér um, sem er orðið „aðgengi“. Mér fyndist hugsanlegt að þetta héti einfaldlega: Frv. til laga um aðgengi fatlaðra.