16.05.1981
Efri deild: 105. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4544 í B-deild Alþingistíðinda. (4687)

315. mál, Bjargráðasjóður

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson hefur spurst fyrir um það, hvort fyrirhugað sé að veita þessar 1500 millj. kr. sem óafturkræf framlög jafnhliða því sem lán yrðu veitt þannig að fyrirgreiðslan gæti verið með mismunandi hætti eftir því sem á stæði. Ég vil upplýsa það hér, að fyrirhugað er að veita lán í þessu sambandi með þeim kjörum sem eru á lánum frá Byggðasjóði, og því er ekki gert ráð fyrir að um verði að ræða óafturkræf framlög. Hins vegar er rétt að benda á það, að Byggðasjóðslán eru með svo góðum kjörum að í raun má segja að um helmingur lánsins sé óafturkræft framlag ef lítið er á hinn helming lánsins sem verðtryggt lán. Það eru ekki nema hálfir vextir á lánum frá Byggðasjóði. Því er um að ræða mjög mikla fyrirgreiðslu sem þeir njóta sem fá þessi lán, og verður það að duga.