18.05.1981
Neðri deild: 99. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4560 í B-deild Alþingistíðinda. (4729)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er á þskj. 578, 283. mál, og er um lagningu sjálfvirks síma. Þetta frv. er komið frá Ed. og var samstaða um afgreiðslu þess þar.

Við 1. umr. var enginn til þess að tala fyrir þessu frv. og mun ég þess vegna skýra í fáum orðum hvað felst í þessu frv.

1. gr. frv. er um það, að póst- og símamálastjóri skuli láta gera 5 ára áætlun um lagningu sjálfvirks símakerfis til sem flestra símnotenda og skal framkvæmdum raðað í forgangsröð. Í áætluninni skal að því stefnt, að símanotendur eigi kost á sjálfvirkum síma innan 5 ára frá 1. jan. 1982.

2. gr. frv. er um það, að tæki og búnaður til lagningar sjálfvirks símasambands, samkv. þeirri áætlun sem gerð verður, skuli undanþegin aðflutningsgjöldum og söluskatti við innflutning.

3. gr. er um að heimilt sé að taka lán, allt að 20 millj. kr. árlega á áætlunartímanum, og að lántökuheimildin breytist í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu.

4. gr. er um að lögin öðlist þegar gildi og haldi gildi sínu þar til framkvæmdum er lokið, sbr. 1. gr.

Fram kemur í grg., sem fylgir frv., að um 3220 heimili í sveitum landsins búi enn við handvirkt samband. Slíku sambandi fylgir mjög víða að ekki næst samband út fyrir þá línu, sem viðkomandi sveitabær er tengdur við, nema fáar klukkustundir á sólarhring. Slíku öryggisleysi una menn alls ekki nú og er krafist þess víða að úr verði bætt með eins snöggum hætti og kostur er.

Tilgangur frv. er að bæta úr þessu ástandi. Þessu verki verði lokið á 5 árum. Allir, sem vilja, fái því sjálfvirkt símasamband og verði búnir að fá það í síðasta lagi fyrir árslok 1986. Heildarkostnaður við þessa framkvæmd á verðlagi í ár er talinn vera 92 millj. kr., þegar aðflutningsgjöld og söluskattur hafa verið dregin frá, sem eru talin vera 43.7 millj.

Hér er verið að fjalla um mjög gott mál, mikið réttlætismál, enda stendur samgn. Nd. öll að því að leggja til að frv. verði samþykkt óbreytt, eins og fram kemur í nál. sem er á þskj. 873.