18.05.1981
Neðri deild: 99. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4561 í B-deild Alþingistíðinda. (4731)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Að sjálfsögðu ber að fagna þessu frv. og þeim fyrirhuguðu framkvæmdum sem það gerir ráð fyrir, þó að tekjuöflun í þessar framkvæmdir sé heimild til að taka lán allt að 20 millj. kr. árlega í 5 ár til fjármögnunar framkvæmda samkv. 1. gr. þessa frv.

Ég hef nokkrar áhyggjur af því, að þó að hér sé hreyft mikilvægu máli og reynt að hraða því að koma á almennilegu símasambandi við sveitir landsins, þá hefur það gengið þannig til hjá póst- og símamálastjórninni að undanförnu, og kastar þó tólfunum á þessu ári, að það er niðurskurður framkvæmda. Þó að hér sé tekin upp heimild til lántöku verður Póstur og sími vitaskuld að greiða afborganir og vexti af lánum sem hann tekur. Ég spyr: Eigum við þá að eiga það á hættu að það verði haldið áfram að skera niður allar aðrar framkvæmdir hjá Pósti og síma? Það er enginn smániðurskurður sem á sér stað á þessu ári og það var enginn smániðurskurður sem átti sér stað á s. l. ári. Þar er víða pottur brotinn sem beðið er eftir framkvæmdum. Þó að ástandið í sveitunum sé hvað alvarlegast er líka til á þéttbýlli stöðum mjög alvarlegt ástand.

Eins vil ég í leiðinni nefna það, að samfara því að taka upp nýja áætlun um að flýta fyrir sjálfvirku símasambandi er frá hendi Pósts og síma verið að stíga skref aftur á bak í sambandi við símaþjónustu. Það er verið að leggja niður stöðvar, tengja þær stöðvum sem eru lokaðar jafnvel allar helgar. Þar mun sambandið versna þangað til komin er betri þjónusta við hinar sjálfvirku stöðvar. Ég vara alvarlega við því, að hér hefur verið, sérstaklega síðustu tvö árin, stigið skref aftur á bak hvað þetta snertir þar til hið sjálfvirka kerfi verður tekið jafnhliða upp, en það má ekki skapast hér tómarúm á meðan, eins og raun ber vitni á vissum stöðum á landinu.