19.05.1981
Sameinað þing: 84. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4614 í B-deild Alþingistíðinda. (4798)

187. mál, vegáætlun 1981--1984

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þá yfirlýsingu sem hv. formaður fjvn., Geir Gunnarsson, flutti í upphafi þessarar umr., þ. e. stefnumarkandi yfirlýsingu frá hæstv. samgrh. um hvernig vinna skuli að úrbótum á vegunum um Enni, Óshlíð og Ólafsfjarðarmúla. Ég þakka hæstv. samgrh. og fjvn. fyrir forgöngu þeirra í þessari stefnumörkun.

Samþykkt vegáætlunar er sú afgreiðsla hér á hv. Alþingi sem jafnan er beðið eftir af hvað mestri eftirvæntingu úti um byggðir landsins, hvernig ráðamönnum hér í ríkisstj. og á hv. Alþingi hefur tekist til við að skammta og ráðstafa fé í hina ýmsu vegi vítt og breitt um landið. Mikilvægi samgangnanna er mjög mikið og góðar samgöngur eru grundvöllur þess, að hægt sé að halda uppi byggð úti um landsbyggðina. Það ríður því á miklu, að bæði sé veitt mikið fé til uppbyggingar vega og því fé, sem til ráðstöfunar er, sé ráðstafað á sem bestan og réttlátastan máta.

Vitanlega er takmarkað fjármagn til þessara framkvæmda svo og til flestra annarra hluta vegna fámennis okkar sem byggjum þetta land. Við höfum ekki bolmagn til að gera stórt og margt í einu, og það er alltaf nokkur vandi að meta hvaða verkefni skuli látin hafa forgang. Það hefur sjálfsagt verið unnið að undirbúningi þeirrar vegáætlunar, sem hér er til umr., á svipaðan hátt og gert hefur verið á undanförnum árum. Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem til starfa sem þm. Vesturl. að því að skipta fjármagni eða samþykkja eða hafna tillögum Vegamálaskrifstofunnar um það, hvernig því fjármagni skuli skipt sem til kjördæmisins er áætlað.

Við þm. Vesturl. höfum rætt þessi mál ásamt með ágætum starfsmönnum Vegamálaskrifstofunnar á þrem fundum og komist að sameiginlegri niðurstöðu hvernig því fé skuli skipt sem ætlað er til Vesturlands. Mér fannst það fé, sem veitt er til vegamála, ekki aðeins til Vesturlands, heldur í heild, vera allt of lítið. Ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum þegar ég sá hvað það var lítið sem átti að gera á Vesturlandi á áætlunartímabilinu. Vitaskuld er þetta í sama hlutfalli í öðrum kjördæmum landsins.

Ef ekki verður gert stórt átak með aukinni fjárveitingu til vegagerðar í landinu blasir það við, að byggð dregst saman meira og minna úti um landið. Ef ekki verða gerðir stórir áfangar í vegagerð í dreifbýlinu kemur enn betur í ljós sá mismunur sem á sér stað milli landshluta. Ég sé ekki betur, ef þeirri stefnu verður haldið, sem nú er, að byggja upp fyrst og fremst vegi út frá umferðarsjónarmiði og þar af leiðandi verði vegalagning um aðalþéttbýlissvæði landsins látin ganga fyrir svo og hluti hringvegarins, en að góður vegur t. d. um Mýrar og sunnanvert Snæfellsnes, um norðanvert Snæfellsnes, um meginhluta Vestfjarða, um meginhluta Austfjarða verði ekki kominn á þessum áratug og varla þeim næsta. Sá vegur, sem nú er verið að leggja og hefur verið lagður hér um Reykjanes og Suðurland, verður þá líklega orðinn ónýtur. Að þessum tíma liðnum þarf að fara að endurbyggja kjarnavegina hér um Suðurland og Reykjanes og hluta hringvegarins svo að sá tími kemur aldrei eftir þeim hraða sem uppbyggingin er nú, að almennilegur vegur verði byggður upp fyrir utan þennan aðalumferðarkjarna.

Einhver segir kannske að ég sé að draga upp dökka mynd af ástandinu. En við hverju má búast miðað við þá vegáætlun sem fram er lögð hér á hv. Alþingi nú? Gagnvart Vesturlandi er sú áætlun í fáum orðum þannig fyrir yfirstandandi ár sem ég skal nú lýsa.

Til þjóðbrauta á Vesturlandi, sem eru um 863 km, eru áætlaðar 3 millj. kr. og til 450 km stofnbrauta eru áætlaðar 11 millj. kr. til undirbyggingar og uppbyggingar vegarins. Drjúgur hluti þessa fjár fer til þess að undirbyggja vegina frá þéttbýlisstöðunum á Akranesi og Stykkishólmi að aðalvegi. Uppbygging þessara vega er ekki betri en það nú, að allmikið fé þarf til að gera þessa vegi þannig að þeir hafi eins mikið burðarþol og ætlast er til þegar sett er bundið slitlag á veg. Framlag til bundins slitlags til Vesturlands er 3.4 millj. kr. Það fer að mestu leyti í Akranesveginn eða 2.9 millj. Afgangurinn, hálf millj., fer í að setja bundið slitlag á veginn um Búðardal. Ástandið er sem sagt það vont á Vesturlandi nú á árinu 1981, að það er ekki búið að undirbyggja og setja bundið slitlag á þessa umferðarmiklu vegi sem tengja þessa þéttbýlisstaði, Akranes og Stykkishólm, við aðalveg.

Ef litið er til framtíðarverkefna samkv. áætluninni er myndin þannig að sáralítið fé er ætlað til framkvæmda á veginum frá Borgarnesi vestur um Snæfellsnes á áætlunartímabilinu. Sama er að segja um Snæfellsnesveg, þ. e. veginn á norðanverðu Snæfellsnesi. Á norðanverðu Snæfellsnesi eru íbúar um 4000. Það er eitt þéttbýlasta svæði landsins. Samt er ekki áætlað að á þessum vegi milli byggðanna á Snæfellsnesi verði gert neitt stórátak á árunum 1981–1983. Þess ber þó að geta, að á Snæfellsnesvegi, þ. e. norðanverðu Snæfellsnesi, verður framkvæmt á þessu ári fyrir 1 millj. kr. við Svelgsá, sem er samkv. vegáætlun, og fyrir 1 millj. kr. við Grundarfjörð, en það er fjármagn sem Framkvæmdastofnun ráðstafar til þessara framkvæmda. Á árunum 1982–1983 er aðeins um 1/2 millj. kr. að ræða til framkvæmda á þessum vegi. Ég hef áður nefnt, að aðeins eru ætlaðar 3 millj. kr. til þjóðbrauta á Vesturlandi. Þeirri upphæð verður vitaskuld ekki víða skipt, enda kemur í ljós að á öllu svæðinu norðan Skarðsheiðar — eða í Borgarfjarðarsýslu norðan Skarðsheiðar og Mýrasýslu — á því svæði er aðeins ein smáframkvæmd. Það er um Síðumúla. Menn gera sér grein fyrir því, hvað hér er um geysivíðáttumikið svæði að ræða og nauðsynlega vegi. Það eykur ekki bjartsýni, þegar til þessa svæðis alls er ekki varið stærri upphæð en þetta.

Framkvæmdafénu til þjóðbrauta er ráðstafað í ýmsa nauðsynlega vegi. Þessi fjárhæð, 3 millj. kr., skapar hvergi möguleika til að gera verulegar framkvæmdir. Sömu söguna má segja um aðra þætti vegauppbyggingar á Vesturlandi, ef undan er skilin Borgarfjarðarbrú. Þar er hvergi um að ræða verulegar framkvæmdir né fyrirheit um þær.

Það eru flestir sammála um að jafna þurfi aðstöðu til búsetu og að aðstaðan þurfi að vera sem jöfnust vítt og breitt um landið. Ýmsir þættir hafa lagast á undanförnum árum. Mismunur á rafmagnsverði hefur minnkað mikið frá því sem áður var. Nú er talað um að ekki sé nema 24% hærra rafmagnsverð hjá Rafmagnsveitum ríkisins heldur en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Unnið er að því að jafna símkostnað með því að setja á skrefatalningu hér í Reykjavík þó að ýmsir hafi talið sig knúna til að mótmæla því skrefi. Þetta er í áttina. En á sama tíma ríkir óbreytt ástand eða jafnvel að megi segja að ástandið fari heldur á verri veginn í sambandi við aðstöðumun í samgöngum eða í sambandi við uppbyggingu vega.

Kostnaður við rekstur bíla á malarvegi er mun meiri en ökutækis sem notað er á vegi með bundnu slitlagi. Þetta er kostnaðarauki fyrir þá sem búa við það að þurfa að aka um holótta malarvegi. Þetta er aðstöðumunur sem úr þarf að bæta. Þegar það raðast upp, að við, sem búum úti á landsbyggðinni, búum við dýrara rafmagn, búum við dýrari síma, búum við miklu dýrari samgönguaðstöðu, þá gefur auga leið að menn velta því fyrir sér, hvort ekki sé nauðsynlegt til þess að jafna þessar aðstæður að atvinnufyrirtæki úti á landsbyggðinni borgi hærra kaup. Fólkið úti á landsbyggðinni, sem verður að borga hærra fyrir rafmagn, meiri peninga fyrir símann sinn og mun meiri kostnað við bílinn, hlýtur að verða að fá það bætt með einhverjum hætti. Þessi mál hljóta að verða til umræðu æ meira á komandi árum, hvernig þessi aðstöðumunur verði jafnaður. Ég tel því að það sé mjög nauðsynlegt, til þess að þarna komi ekki upp síaukinn mismunur, að gerð verði stórátök í öllum þessum þáttum og þá fyrst og fremst þeim þætti sem hér er rætt um, vegagerðinni. Það verður ekki undan því komist að bæta aðstöðu fólksins úti á landsbyggðinni í sambandi við samgöngukostnað og létta rekstrarkostnað með því móti að sem mestur hluti veganna um aðalbyggðasvæðin verði byggður upp og bundinn slitlagi.

Það hefur verið mikið talað um það, að allar vegalengdir hafi styst með bættu samgöngukerfi, og enn eigum við eftir að stytta þessar vegalengdir að mun með því að endurbyggja meginhluta þess vegakerfis sem þegar er fyrir í landinu. Við höfum á undanförnum árum lagt fram mikið fjármagn í það að nýta heita vatnið okkar og nota það til. upphitunar á stórum svæðum í landinu. Það er kannske frekar hending, að tekist hefur að fá heitt vatn til þess að hita upp húsnæði fólks aðallega á þeim svæðum, þar sem komið er sæmilegt vegakerfi, og jafnframt á þeim svæðum, þar sem raforkan er ódýrust. Hin svokölluðu köldu svæði, þar sem ekki er fyrir hendi heitt vatn til þess að leysa vandamálin í sambandi við upphitun húsa, eru einnig þau svæði, þar sem lélegastir vegir eru. Þarna er einn þáttur enn sem ýtir undir það, að gert sé stórátak í vegamálum, án þess að ég fari frekar að ræða um þetta hér. Ég geri þó ráð fyrir því, að jafnframt því sem vegaframkvæmdir á landsbyggðinni jafni aðstöðuna milli byggða sé ekki neinn vafi á að vegagerðin sé eins arðsöm og hitaveitulagnirnar okkar eru og eru þær þó flestar mjög arðsöm fyrirtæki.

Mér finnst að þó að sú vegáætlun, sem hér er til umr., verði samþykkt, og sjálfsagt er ekki um annað að gera en að gera svo, þá verði þegar á næsta ári að afla mjög aukins fjármagns umfram það, sem áætlunin gerir ráð fyrir, til vegaframkvæmda vítt og breitt um landið. Ég tel að sú vegáætlun, sem hér er lögð fram, sé fyrst og fremst til þess að leysa vandamálið fyrir árið í ár. Það er knýjandi nauðsyn að taka áætlunina fyrir árin 1982 og 1983 til athugunar og útvega mjög aukið framkvæmdafé til vegagerðar á þeim árum svo og áfram í framtíðinni.