20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4706 í B-deild Alþingistíðinda. (4903)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að reyna að hryggja neinn né gleðja sérstaklega með framlagi mínu við þessar umr., og ég skal reyna að hafa það mjög stutt. Ég vil í stuttu máli, eins og ég segi, tjá þá skoðun mína, að ég hef ætíð verið mótfallin þeirri aðferð, sem lögð er til, til að ná jafnrétti konum til handa. Þá á ég við frv. það frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem hér liggur fyrir og skilað hefur verið nál. út af. Ég er Jóhönnu engu að síður þakklát fyrir að koma með þetta mál inn á þing, og ég held að umræðurnar, sem um það hafa orðið, hafi jákvæð áhrif frekar en hitt.

Mér finnst gremja hv. þm. yfir því, að 2. gr. frv. hafi verið mistúlkuð, ekki eiga við rök að styðjast því að greinin, eins og hún er orðuð, gefur beint tilefni til að ætla að þarna sé alls ekki krafist sömu hæfileika og menntunar konu til starfs sem karls, enda þótt það komi fram í athugasemdum, og í fyrstu, þegar ég heyrði þetta frv., olli þetta mikilli undrun minni.

Ég ætlaði að vera stuttorð. Ég vil segja það, að mér koma ekki á óvart þær umsagnir sem hv. félmn. bárust um þetta mál. Þessi aðferð, sem hér er lögð til, ber keim af ofbeldi sem ég get ekki fellt mig við, hversu mjög sem við viljum aukið jafnrétti.

Hv. þm. Árni Gunnarsson talaði um að ekki væri neitt jafnrétti. Auðvitað er jafnrétti eða ekki. Það er varla hægt að tala um lítið eða mikið eða dálítið jafnrétti. Það er jafnrétti eða ekki. Það er enginn vafi á að jafnrétti er ekki náð. Ég er heils hugar samþykk þeim sem gagnrýna það og vilja bæta úr. En ég er hrædd um að þessi aðferð, ef að lögum yrði, gæti boðið heim auknu ranglæti og jafnvel ógeðfelldri spillingu til viðbótar við það sem nú er og er þó ekki á bætandi. Þess vegna er ég mótfallin því að fara þessa leið. Ég treysti á að aukin menntun kvenna, sem leiði til aukinnar þátttöku þeirra í atvinnulífi og menningarlífi okkar, þjóðlífi öllu, verði besti lykillinn að raunverulegu jafnrétti. En það kvótakerfi, sem þarna er verið að ræða um, og forréttindi og mismunun til að ná jafnrétti felli ég mig ekki við. Mér finnst það jafnvel lítilsvirðandi fyrir konur að ætla að leita jafnréttis og ná settu marki í þeim málum með þessum hætti. Þess vegna get ég fallist á þá niðurstöðu sem n. komst að. En ég tek undir það, að afgreiðsluformið var óþarflega hvatskeytilegt og ber kannske vott um það hugarfar meðal karla sem of lengi hefur ráðið í þessum málum hér á landi.