20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4733 í B-deild Alþingistíðinda. (4965)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Hv. alþm. er það auðvitað sameiginlegt hagsmunamál og áhugamál að vegur Alþingis alls staðar annars staðar í þjóðlífinu sé sem mestur. En það hefur oft verið sagt hér í dag og er þrátt fyrir það ástæða til að endurtaka það enn, að afgreiðsla mála nú þessa síðustu daga er alveg með ólíkindum. Hér er hvert stórmálið á fætur öðru afgreitt og auðvitað, þó að út af fyrir sig sé um virðingarverð og sjálfsögð mál að ræða sitja menn á sér og taka ekki til máls til að tefja ekki umr., eins og það er kallað, vitandi mætavel að fljótaskrift er á afgreiðslu, að frv. eru ekki nægilega vel undirbúin, að það er hróflað upp lausnum á vandamálum á síðustu stundu. Ef Alþingi starfaði með eðlilegri hætti og eins og nútímalegt þjóðfélag ætti að gera ráð fyrir, starfaði eins og önnur fyrirtæki í þessu landi og sniði sig ekki svo að hinu gamla landbúnaðarþjóðfélagi eins og það gerir með þessum hætti, þá gæfist meiri og betri tími. Því segi ég, að ég hygg að það frv. til laga, sem hér er til umr. um framkvæmdasjóð aldraðra, sé nákvæmlega svona til orðið.

Nú er það auðvitað svo, að enginn getur haft á móti framkvæmdasjóði aldraðra og enginn getur haft á móti því út af fyrir sig að stuðlað sé að byggingu húsnæðis og dvalarstofnunum fyrir aldraða, eins og það heitir í 1. gr. frv. Vandamálið snýst ekki um það út af fyrir sig. Á undanförnum árum hefur ekki eins mikið verið gert í þessum efnum og við gjarnan kysum, en það snýst um það að ekki hafa verið til peningar.

Fyrir nokkrum vikum lagði hæstv. félmrh. til við Alþingi að lagður yrði skattur á þá sem sækja veitingahús í Reykjavík — og Akureyri raunar. Það hefur komið fram, að eftir að hafa hlustað á röksemdir taldi n. að þessi leið gengi ekki, og á það sjónarmið n., sem hér hefur raunar verið lýst, verður að fallast. En nú er í staðinn farin sú leið að leggja flatan nefskatt á sérhvern skattskyldan einstakling í þjóðfélaginu, unglinga og upp úr. Alveg burtséð frá hinu virðingarverða verkefni sem hér er um að ræða, hverju nafni sem þessi skattheimta er nefnd, er hér auðvitað um að ræða hækkun á tekjusköttum sem nemur 1%. Innheimtur tekjuskattur nemur samkv. fjárl. núna u. þ. b. 100 milljörðum kr. Hér er um að ræða 1% hækkun á slíkum skatti. En málið er það, að vitaskuld ætti ekki að fara þessa leið. Vitaskuld ætti það svo að vera, að þegar fjmrh. og heilbrrh. semja fjárlög með sínar sérfræðingasveitir á bak við sig ætti það, hvað við viljum leggja til slíkra verkefna, að vera eitt af því sem þeir þurfa að gera upp við sig. Það skal sagt um þetta mál: þeim mun meira, þeim mun betra. En þetta er röng leið. Og af hverju er þetta röng leið? Vegna þess að stóri bróðir má gæta sín. Skattar af þessu tagi eru til þess fallnir að fara hreinlega í taugarnar á fólki og það með réttu. Málið er auðvitað það, að hversu óendanlega virðingarvert verkefni sem auknar byggingar til handa öldruðum eru, sem þær vissulega eru, úr því skal hvergi dregið, megum við ekki gleyma að fjölmörg önnur félagsleg verkefni af þessu tagi bíða. Hvað með vandamál þroskaheftra eða vandamál geðsjúkra? Eigum við hv. þm. að fara hér í kapphlaup um að leggja til nefskatt af þessu tagi, að negla niður verkefni af þessu tagi og setja þingbræður okkar og systur upp við vegg? Ég held að þessi aðferð sé af mörgum ástæðum bæði vitlaus og beinlínis óheppileg.

Nú vil ég lýsa því, að víða annars staðar, ég nefni t. d. Þýskaland, skipta þeir upp þannig að á skattseðli ráða menn t. d. hvað mikið þeir eru að greiða til heilbrigðisþjónustu. Það má vel hugsa sér að skattseðill sé í ríkari mæli svona upp byggður, að það sé skipt á milli þannig að fólk geri sér nokkra grein fyrir í grófum dráttum hvað fer til þessara stóru málaflokka: til heilbrigðismála, til menntamála, til stjórnunarmála og til framkvæmda. Það eru í grófum dráttum stærstu þættirnir sem um er að ræða. En að taka eitt mál, sem þegar við skoðum allt þetta dæmi í heild er auðvitað lítið mál, þ. e. í prósentu- og peningaskilningi, og leggja á nefskatt til þess eins, það er nefskattur sem er 100 kr. eða 10 þús. gkr., — ég held að það sé röng aðferð. Úr því að farið er til þessa er auðvitað miklu hreinlegri aðferð að fara þá leið, sem hv. þm. Magnús H. Magnússon og Jóhanna Sigurðardóttir leggja til á sérstöku þskj., að hækka þá álagðan tekju- og eignarskatt um 1%, en það er auðvitað það sem verið er að gera. Og það er auðvitað rétt ábending, sem fram kom hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni um þetta: Þessi mál eru tekin út fyrir sviga. Þetta er flatur skattur á hvern skattskyldan einstakling. M. ö o.: fyrirtæki og aðrir þeir sem skatta greiða, aðrir en einstaklingar, taka ekki þátt í þessari fjármögnun. Hlutverki og þjónustu ríkisins á á hinn bóginn einmitt að dreifa, slíkri kostnaðarbyrði á að dreifa þannig að þunginn fari frá einstaklingum og til ágóða. Hér er þessi leið ekki farin, heldur farin sú leið að leggja þetta alfarið á einstaklinga. Að þessu leytinu til horfir þessi skattlagning í ójafnaðarátt.

Nú væri auðvelt að segja sem andsvar við þessum málflutningi mínum, að hér væri verið að bregða fæti fyrir framkvæmdasjóð aldraðra. Gott og vel. Og af hverju er það hægt? Jú, vegna þess að stutt er eftir af þingtíma. En málið er það, að þetta kom seint fram frá hæstv. ráðh. Ég get vel skilið að stuðningsmenn ríkisstj. í n. vilji ekki bregða fæti fyrir málið, en þeir sjá enga aðra lausn en þá afleitu lausn að leggja á skatta með þessum hætti. Ég vil vekja sérstaklega athygli hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur á því, að með því að leggja þetta eingöngu á hvern skattskyldan einstakling fer þunginn þangað, ekki á fyrirtækin, ekki ágóðann í landinu. Eðli þessarar skattlagningar er þess vegna allt annað en eðli hins almenna dæmis sem við gerum upp í gegnum fjárlög og dreifum aftur út í félagslega þjónustu. Það er þetta sem er aðalatriði þessa máls.

Út af fyrir sig er þetta nákvæmlega eins og með mörg önnur mál sem hér er verið að afgreiða: Það er svo seint fram komið að ég hefði gjarnan viljað fá lengri umhugsunarfrest. Við sjáum hvernig mál eru að þróast. Menn féllu frá vínveitingahúsaskattlagningu, væntanlega vegna þess að eftir nokkurra daga umhugsun sáu menn að það gekk ekki, eins og hér var ágætlega gerð grein fyrir í framsöguræðu. Þetta er næsta stig í þróuninni, og ég er sannfærður um að ef t. d. við hv. þm. Guðrún Helgadóttir leiddum að því góðan og betri þanka og tækjum til þess nokkurn tíma kæmumst við sameiginlega að þeirri niðurstöðu, að þetta er ekki rétta leiðin til að afla fjármuna. En væntanlega á þetta eftir að fara hér í gegn og hv. þm. annars stjórnarandstöðuflokksins hafa fallist á þessa hugmynd. Ég er sannfærður um að í raun og veru er þar eins rökleitt. Þeir segja: Tíminn er orðinn naumur, en málið er svo gott að það er ekki hægt annað en að vera með þessu. — Allt er þetta mál í heild sinni enn ein undirstrikun þess með hverjum hætti vinnubrögð eru hér á Alþingi síðustu daga.

Ég spái því, að þessi skattur eigi eftir að fara feikilega í taugarnar á feikilega mörgum og meira en upphæð hans gefur tilefni til. Það á að vera svo, að hegðunarmunstur stóra bróður — ríkisins — fari ekki meira í taugarnar á fólki en nauðsynlega þarf. Með þessum vinnubrögðum er stóri bróðir að gefa réttmætan höggstað á sér, þó svo málið sé gott. Af þeirri ástæðu er ég fastlega þeirrar skoðunar, að þessi aðferð til skattheimtu sé röng. Rétta leiðin hefði verið að taka þetta út úr heildardæminu, eins og við gerum við mennta- og menningarmál og aðra þætti heilbrigðismála. Það hefði verið frá sjónarmiði ríkisins skynsamlegri leið en sú vitlausa leið sem hér er verið að fara.