21.05.1981
Sameinað þing: 87. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4771 í B-deild Alþingistíðinda. (5015)

280. mál, stóriðjumál

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Í till. minni hl. allshn., ef samþykkt verður sem ályktun Alþingis um málsmeðferð í þessu máli, felst að þeir, sem að ríkisstj. standa, treysta sér ekki til þess að gefa yfirlýsingu um það, að verulega sé aukinn orkufrekur iðnaður hér á landi næstu ár til að nýta í ríkari mæli en nú er gert hinar miklu óbeisluðu orkulindir landsins. Í þessari samþykkt, ef gerð verður, felst einnig að þeir, sem að ríkisstj. standa, vilja hafna allri samvinnu við stjórnarandstöðuna um þetta mikilvæga mál, eitt mikilvægasta mál sem hv. Alþingi fjallar um nú um þessar mundir. Ég segi nei.