21.05.1981
Neðri deild: 104. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4834 í B-deild Alþingistíðinda. (5111)

300. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hér er til umr. frv. sem nokkrir hv. Alþfl.-menn hafa flutt um breyt. á lögum nr. 101 frá 1966. Þar sem við höfum, ásamt mér hv. þm. Steinþór Gestsson og Albert Guðmundsson, flutt frv. um sama efni og óljóst er hvort tækifæri gefst til að flytja framsögu fyrir því máli á þessu þingi, þykir mér eðlilegt að fara nokkrum orðum um það frv., enda hljóta frumvörpin tvö að verða skoðuð í sameiningu í nefnd sem fær þetta mál til meðferðar.

Ég get að mestu leyti tekið undir rökstuðning hv. síðasta ræðumanns sem hann flutti í sinni framsöguræðu, en þess skal getið, að við undirbúning frv. okkar sjálfstæðismanna höfðum við samband við fjölda manna sem bæði hafa hagsmuni af þessum málum og þekkja vel til þeirra, svo sem Eðvald Malmquist, Þorvald Þorsteinsson framkvæmdastjóra Sölufélags garðyrkjumanna, fulltrúa dreifingaraðila, sérstaklega í innflutningsverslun, m. a. þá sem sjá um innflutning á ávöxtum, sem ekki er alls óskyld vara, blómasala, en blómarækt er hér mikil í garðhúsum og gróðurhúsum, og loks hv. þm. Egil Jónsson sem áreiðanlega er einna best að sér allra manna á Alþingi um kartöflurækt.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það frv. sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram hér í hv. deild, en með okkar frv. er lagt til að einokunarákvæði um sölu á matjurta- og gróðurhúsaframleiðslu verði numin úr lögum. Ekki er gerð önnur breyting á starfsemi Grænmetisverslunar landbúnaðarins. Lagt er til að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. jan. 1982, eða á sama tíma og Alþfl.-mennirnir gera ráð fyrir að þeirra lög taki gildi, og þannig getur Grænmetisverslun landbúnaðarins og núverandi framleiðendur og hugsanlegir nýir heildsöludreifendur fengið nokkurn aðlögunartíma áður en lögin taka gildi.

Ákvæði frv. um afnám einokunar í verslun með grænmeti eiga að vera til bóta fyrir neytendur og enn fremur framleiðendur, sérstaklega þá sem framleiða fyrsta flokks kartöflur, og hugsanlega aðra heildsöludreifendur. Á Grænmetisverslun landbúnaðarins að geta starfað áfram þótt sérréttindi fyrirtækisins séu afnumin, en nú er álitamál að margra mati hvort gildandi löggjöf brýtur ekki. í bága við 69. gr. stjórnarskrárinnar.

Öllum er kunnugt að hagfræðin fjallar m. a. um hagkvæmni mismunandi fyrirkomulags á framleiðslu og dreifingu vöru og þjónustu. Niðurstöður hagfræðinnar eru almennt þær, að einokun sé þjóðhagslega óhagkvæmasta framleiðslu- og dreifingarfyrirkomulagið. Stefna vestrænna þjóða a. m. k. hefur því verið að afnema og útiloka einokun hvarvetna þar sem samkeppni fær þrifist, en veita einokunarfyrirtækjum, sem búa við tæknilega eða náttúrlega einokun, rekstrarlegt aðhald. Ástæðurnar fyrir því, að einokun er jafnóhagkvæm og hér hefur verið getið um, eru fyrst og fremst þrjár: Í fyrsta lagi að verð til neytenda hefur tilhneigingu til þess að vera hærra en þar sem samkeppni ríkir. Í öðru lagi verður vörumagn til neytenda minna samkvæmt áhrifum verðsins á jöfnun framboðs og eftirspurnar og fjölbreytni minnkar jafnframt. Og í þriðja lagi getur þjónusta við neytendur verið lakari án þess að það skaði einokunarfyrirtækið ef ný fyrirtæki eru útilokuð frá aðgangi að markaði.

Þótt hægt sé að sýna fram á þessi atriði með hagfræðilegum aðferðum að gefnum vissum forsendum, þá verður það ekki gert í þessari stuttu ræðu. Æskilegast væri að geta beitt aðferðum raunvísindanna með samhliða tilraunum með einokun og samkeppni á sama markaði á sama tíma.

Ég held hins vegar að það sé ástæða til þess að fara örfáum orðum um þær fjórar brtt. sem okkar frv. gerir ráð fyrir.

Með 1. gr. er heildsöludreifing á garðávöxtum og matjurtum framleiddum í gróðurhúsum gefin frjáls þannig að nýir heildsöludreifendur geti starfað við hlið núverandi dreifingaraðila. Jafnframt er umsjón með þessum kafla framleiðsluráðslaganna færð í hendur landbrn. til samræmis við 39. gr. laganna, enda er sú skipan eðlilegri vegna þeirra breytinga sem hér eru lagðar til. Landbrn. getur þó að sjálfsögðu engu að síður falið Framleiðsluráði að framkvæma settar reglur og annast það eftirlit sem henta þykir.

Með breytingunni í 2. gr. fellur niður einkaréttur ríkisstj. til innflutnings á kartöflum og grænmeti. Í stað þess er lagt til að ríkisstj. hafi heimild til að takmarka innflutning þegar innlend framleiðsla er á boðstólum. Jafnframt er ríkisstj. heimilt að setja reglur um innflutning þegar innlend framleiðsla er ekki fáanleg.

Með 3. gr. er fellt niður núgildandi ákvæði 36. gr. um heimild Framleiðsluráðs til að veita einkasöluréttindi á gróðurhúsaframleiðslu og eggjum. Í stað þess kemur ný 36. gr. um varnir gegn sýkingu nytjajurta.

Og með 4. gr. er felld niður heimild Framleiðsluráðs til að skipta landinu í sölusvæði, en sú niðurfelling er eðlileg fylgja þess, sem áður er getið, og breytingu á verslun með þessar vörur.

Tilgangurinn með því að leggja þetta frv. fram er að sýna að innan þingflokks Sjálfstfl. hefur farið fram vinna sem hefur beinst að því að aflétta einokun á þessu sviði, án þess að hér skapist hætta fyrir innlenda framleiðendur, og með því að taka tillit til hagsmuna neytenda. Ein aðalástæðan fyrir því, að ákveðið var að leggja þetta frv. fram nú í vor, er sú, að við teljum að þá gefist hæstv. landbrh. tækifæri til þess í sumar að skoða þetta frv. og reyndar þessi frv. bæði sem lögð hafa verið fram: það frv., sem hér er til umr., og það frv., sem við sjálfs,æðismenn höfum lagt fram. Og ég þykist þess fullviss, að þegar þetta mál er skoðað niður í kjölinn af landbrn. verði þess að vænta, að hæstv. landbrh. leggi fram strax í haust brtt. við framleiðsluráðslögin sem innihaldi það sem bæði þessi frv. gera ráð fyrir.

Ég tel, herra forseti, ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég hef kosið að ræða um frv. sem reyndar er ekki á dagskránni. En vegna þess, hve það frv. er náskylt því sem hér er til umr., taldi ég eðlilegt að láta skoðun mína í ljós, ekki síst vegna þess að enginn virðist enn vita hvenær þinglausnir verða og svo kynni að hafa farið að þingi lyki án þess að flutningsmenn frv., sem er 322. mál þingsins, fengju tækifæri til þess að flytja framsögu með sínu máli.