20.10.1980
Efri deild: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

25. mál, Flutningsráð ríkisstofnana

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 26 hef ég ásamt hv. 11. þm. Reykv. leyft mér að endurflytja frv. til l. um Flutningsráð ríkisstofnana. Í 1. gr. þessa frv, segir svo: „Eftir hverjar alþingiskosningar kýs sameinað Alþingi hlutfallskosningu sjö menn í Flutningsráð ríkisstofnana. Varamenn skulu kjörnir með sama hætti. Forsrh. skipar formann og varaformann Flutningsráðs ríkisstofnana úr hópi ráðsmanna.“

Í 2. gr. frv. er hlutverk þessa flutningsráðs skilgreint, en það er:

„a) að vera Alþingi, ríkisstj., ráðuneytum og einstökum ríkisstofnunum til ráðuneytis um staðarval og flutning ríkisstofnana, þar með taldar deildir og útibú slíkra stofnana,

b) að gera tillögur um staðarval nýrra ríkisstofnana og breytingar á staðarvali eldri stofnana,

c) að annast a.m.k. einu sinni á áratug heildarendurskoðun á staðsetningu ríkisstofnana og gera á grundvelli þeirrar endurskoðunar tillögur um breytingar, sbr. b-lið,

d) að fylgjast með framkvæmd ákvarðana um flutning ríkisstofnana og staðsetningu nýrra stofnana og stuðla að því að auðvelda aðgerðir á þessu sviði.“

Þetta segir í raun og veru að mestu til um meginefni þessa frv. Það hefur áður verið flutt á Alþ., reyndar tvisvar, en í hvorugt skiptið fengið afgreiðslu. Það á sínar eðlilegu skýringar, því að málið hefur komið síðla fram í bæði skiptin og sú n., sem um það hefur fjallað, hefur haft litinn tíma til þess að fjalla um málið, enda skal ekkert úr því dregið, að hér er um allstóra ákvörðun að ræða ef tekin verður.

Ég ætla ekki hér að fara að rekja enn einu sinni það álit sem þetta frv. er byggt á, álit stofnananefndarinnar, sem skilað var 1975, um það, hvernig haga mætti flutningi ríkisstofnana, stofnun útibúa og deilda frá hinum einstöku stofnunum. En ég minni aðeins á þetta álit nú vegna þess, að í því álit var það talin forsenda þess, að eitthvert skipulag kæmist hér á, að einhverju slíku flutningsráði eða einhverri slíkri nefnd yrði falin framkvæmd og skipulagning málsins.

Ég ætla hins vegar aðeins að minna á þær meginspurningar sem koma í hug okkar varðandi þetta mál í heild.

Það er í fyrsta lagi hver á að vera hin almenna stefna okkar í byggðamálum, til jöfnunar í okkar réttindamálum, til valddreifingar, til frekara öryggis í atvinnumálum, til aukinnar og bættrar þjónustu á öllum sviðum. Þetta mál snertir valddreifinguna og þjónustuna, en hefur reyndar áhrif á alla þætti.

Í öðru lagi kallar þetta á spurninguna um hvernig stjórnkerfi okkar á að byggjast upp í framtíðinni, hversu mikil miðstýring á þar að vera, hversu nær fólkinu á að færa valdið, hversu auðvelt þar er um ákvarðanatöku og greiðfært til allra áhrifa og hversu greiðan aðgang almenningur á að hafa að þjónustu hins opinbera. Við vitum að án skipulegs átaks í þessum efnum gerist ekkert nema handahófskennt fálm.

Í þriðja lagi verðum við að gera okkur grein fyrir því, hver reynsla annarra þjóða er af því sem hér er lagt til og þetta byggir á, hver er reynsla nágranna okkar, t.d. í Noregi og Svíþjóð, af skipulegri dreifingu stofnana ríkisins, af deildaskiptingu stofnananna og útibúum frá stofnununum víðs vegar um þeirra land og sem jafnast um landið, í stað þess að hafa alla hluti í höfuðstöðvum landsins eins og hér hjá okkur í Reykjavík. Þá verðum við að hafa það í huga, að frændur okkar í Noregi og Svíþjóð hafa rutt þar braut og reynslan er þar ótrúlega góð. Þar hafa vissulega komið fram margir annmarkar, en þeir hafa í flestum tilfellum verið yfirstignir. Kostnaður hefur verið mikill, ekki skal því neitað, en engu að síður hafa þessar þjóðir talið þetta eðlilega leið í sinni byggðaþróun.

Það er alveg rétt, að vegna enn strjálli byggðar og reyndar enn stærri höfuðborgar hlutfallslega hjá okkur en hjá þeim kunna erfiðleikar okkar að verða enn þá meiri. Og kostnaðurinn kann einnig að verða meiri m.a. vegna samþjöppunar valds, þjónustu og stofnana hjá okkur, því að okkar höfuðborg, eins og ég sagði áðan, er meira áberandi í raun og veru en aðrar í þeim samanburði.

Í fjórða lagi ber að hafa í huga, að ef ákvörðun verður tekin um átak í þessum efnum, ef þingvilji er fyrir hendi, þá þarf skipuleg vinnubrögð. Og forsenda þeirra er þá einhver aðili til yfirstjórnar og skipulagningar, aðili eins og hér er lagt til, bæði til þess að skipuleggja það, sem ákveðið kann að verða, eins til ráðgjafar fyrir stjórnvöld til beinna aðgerða í kjölfar samþykktrar tillögugerðar hér á Alþingi.

Það skal skýrt tekið fram, að mér dettur ekki í hug eða okkur flm. að hér sé einhver endanleg gerð eða fyrirkomulag, en þetta hlýtur að vera svipað að sjálfsögðu og fyrirmynd okkar er sótt beint til annarra Norðurlandaþjóða sem hafa, eins og ég áður sagði, framkvæmt mikið í þessum efnum og fengið út úr því mjög jákvæða niðurstöðu.

Þetta mál hefur verið kynnt þannig áður, að ég tel ekki ástæðu til þess að fara um það fleiri orðum hér. Ég vil þó aðeins taka það fram, að fram hafa komið frá landshlutasamtökum á Norðurlandi og Austurlandi mjög eindregnar stuðningsyfirlýsingar við fyrirkomulag af þessu tagi, og það er kannske sá hvati til endurflutnings sem hefur ráðið mestu um það, að ég tel rétt að halda þessu máli vakandi og við flm., og eins það, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, fái verulega góðan tíma, eins og nú ætti að vera, til þess að fjalla um málið, en það hefur hún ekki fengið á þeim þingum sem málið hefur fyrr verið flutt á. Ég þarf svo ekki að taka það fram, að ef starfsfriður verður og tími hjá núv. hæstv. ríkisstj. til aðgerða í þessum málum, þá treysti ég því sannarlega, að þar verði á málum tekið á einhvern þann hátt sem telja má æskilegan og jákvæðan til framgangs þessu málefni.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.