22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4888 í B-deild Alþingistíðinda. (5218)

288. mál, Landakaupasjóður kaupstaða og kauptúna

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Félmn. fjallaði um þá breytingu sem hv. Ed. gerði er hún tók aftur þá breytingu sem Nd. hafði gert á fyrirsögn þessa frv. Miðað við allar aðstæður urðu nm. sammála um að leggja ekki til að fara að flækja þessu máli milli deilda enn á ný. Kemur margt til. Það komu fram upplýsingar frá málfræðingum sem hafa lagt úrskurð á það, að þessi orð væru jafnrétthá í íslensku máli, og færa ýmis rök fyrir því sem ástæðulaust er að vera að lesa frekar upp.

Niðurstaða n. varð sú, að þó að meiri hl. hennar hefði kosið fremur það heiti á frv. sem samþykkt var hér í Nd. telur meiri hl. n. það ekki skipta svo miklu máli að ástæða sé til að breyta því að nýju, enda fram komið álit málfræðinga, að orðin landkaup og landakaup séu jafnrétthá í íslensku máli. Leggur n. til að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir þetta nál. skrifuðu auk frsm. Friðrik Sophusson, Eggert Haukdal, Steinþór Gestsson og Guðmundur J. Guðmundsson. Aðrir nm. voru fjarverandi.