22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4891 í B-deild Alþingistíðinda. (5228)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. fékk til meðferðar frv. til l. um Framkvæmdasjóð aldraðra. Nefndin fjallaði um frv. á tveimur fundum og fékk til ráðuneytis Árna Kolbeinsson deildarstjóra í fjmrn.

Nefndin hefur flutt brtt. á þskj. 1018, en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Fjarverandi afgreiðslu málsins var Matthías Á. Mathiesen.

Brtt. n. fjalla um það að breyta 1. tölul. 2. gr., en þar var ýmislegt athugavert, ekki í sjálfu sér beint við orðfæri, heldur efnisinnihald, og höfðum við náið samráð við fjmrn. varðandi þær breytingar sem við höfum gert. Þar er gert ráð fyrir að lagður verði skattur á hvern mann, 100 kr. Þó skulu börn innan 16 ára aldurs undanþegin gjaldinu svo og allir þeir menn er hafa tekjuskattsstofn undir 2.5 millj. gkr. Þannig er gert ráð fyrir að þetta gjald muni skila þeim sjóði, sem hér um ræðir, þ. e. Framkvæmdasjóði aldraðra, um 1 milljarði gkr. á árinu 1981. Hér er um það að ræða að þetta gjald skuli aðeins lagt á á árinu 1981. Með því er á engan hátt ákveðið að gjald þetta megi ekki framlengja. Hitt er svo annað mál, að okkur þykir eðlilegt að þessi skattur komi til endurskoðunar að ári liðnu.

Það verður að segjast eins og er, að það er fremur hvimleitt að taka upp svokallaða nefskatta eða ákveðið gjald hjá hverju mannsbarni í landinu. Það verður að gæta hófs í því. Og þó að ég sé ekki að segja með því að það komi ekki til greina í vissum tilvikum veit ég að mörgum hv. þm. þykir eðlilegt að taka þessa ákvörðun til endurskoðunar. Hér er um afmarkað málefni að ræða sem að vísu verður aldrei leyst til fullnustu, en menn vænta þess, að það muni vera hægt að gera þar mjög verulegt átak á nokkrum árum ef kraftur er í það settur. Það liggur fyrir að það verður að framlengja það átak. Það er alls ekki nægilegt að það standi til eins árs, langt frá því. En ég vildi aðeins geta þessa varðandi það að gjaldið yrði tekið til endurskoðunar.

Nefndin gerir einnig tillögu um að 3. liður 2. gr. falli niður. Það er gert vegna ábendingar um að lögin um Byggingarsjóð aldraðra muni gilda áfram og þess vegna þykir ekki eðlilegt að hafa þennan 3. lið inni. Nefndin flytur tillögu um að 3. liður falli niður, 4. liður verði 3. liður og 5. liður 4. liður.

Ég sé ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir máli þessu. Ég vil aðeins ítreka það, að n. leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu er fram kemur á þskj. 1018, en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Tvær aðrar brtt. hafa þegar verið fluttar við mál þetta.