22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4892 í B-deild Alþingistíðinda. (5229)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af þeirri ástæðu, að stjfrv. um heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða var ekki afgreitt úr nefnd, vegna þess að n. taldi sig ekki hafa tíma til þess að fjalla eins og skyldi um það frv. og sömuleiðis annað frv. sem lá fyrir nefndinni. En því er þetta frv. flutt að það er talin nauðsyn á að fjáröflun fari fram til þess að sinna því hlutverki að fjármagna byggingar bæði ríkis, sveitarfélaga, sjálfseignarfélaga og einstaklinga vegna stofnana fyrir aldraða. Þetta er brýnt verkefni sem ekki þolir bið.

Sá tekjustofn, sem 2. gr. frv. fjallar um og hv. frsm. n. hefur lýst, er mjög umdeildur eins og allir alþm. vita. Það er mjög ofarlega hjá mörgum þm. að vera alfarið á móti nefsköttum eða mörkuðum tekjustofnum, og í sjálfu sér get ég tekið undir þau orð hv. frsm. n. Þó tel ég útilokað að ljá ekki máls á því í undantekningartilfellum, brýnum tilfellum, að grípa til þess ráðs og þá um stundarsakir. Þess vegna skrifa ég undir þetta nál. og styð það. Þó að mér sé á margan hátt ógeðfellt að leggja á nýjan nefskatt, þá greiði ég honum atkv. Ég hefði talið eðlilegra að ríkið hefði sýnt þann stórhug að leggja þessu máli lið beint úr ríkissjóði án nýrrar skattpíningar. Við teljum að bæði tekjuskattur og eignarskattur hafi hækkað það mikið, sérstaklega nú á síðustu árum, að ekki sé á bætandi að leggja 1% álag á eignarskatt og tekjuskatt eins og brtt. fól í sér sem fram var komin hér við 1. umr. þessa máls. Hitt hefðum við talið eðlilegra. En það er stjórnarliðið á hverjum tíma sem ræður því, hvaða skattlagning skuli viðhöfð, og þar sem ríkisstj. hefur ekki orðið ásátt eða stjórnarliðar um það, að ríkissjóður leggi fé til þessa nauðsynlega verkefnis, þá vil ég heldur standa að slíkri skattlagningu til þess að tryggja fjármagn til þess. Því styð ég þetta frv. heils hugar.