22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4944 í B-deild Alþingistíðinda. (5274)

320. mál, raforkuver

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á vegum iðnrn. eru í athugun margir iðnaðarkostir er nýta verulega orku. Er gert ráð fyrir dreifingu slíks iðnaðar um landið á svipaðan hátt og fyrirhugað er með vatnsaflsvirkjanir, svo sem fram kemur í grg. með því frv. sem þessi brtt. er gerð við. Meðal slíks iðnaðar má nefna sem dæmi magnesíumvinnslu, pappírsverksmiðju og kísilmálmvinnslu. Þannig er nú unnið að frumáætlun um kísilmálmverksmiðju og áætlað að verja í því skyni um 500 þús. kr. eða 50 millj. gkr. í ár. Slík verksmiðja mundi nota um 500 gwst. á ári af raforku miðað við 30 þús. tonna ársframleiðslu. Er við það miðað, að henni gæti tengst vetnisverksmiðja er hagnýtti kolefni úr útblæstri frá kísilmálmvinnslunni til eldsneytisframleiðslu, og væri þar um að ræða nálægt 600 gwst. á ári í orkunotkun. Auk þess er talið hagkvæmt að nýta afgangsvarma, er til fellur frá kísilmálmverksmiðju, til húshitunar í byggðarlögum þar sem ekki er að finna nýtanlegan jarðvarma. M. a. af þeim sökum er talið skynsamlegt að staðsetja slíka verksmiðju, ef talin verður vænlegt fyrirtæki við nánari athugun, í landshluta eins og á Austurlandi, nánar tiltekið á Reyðarfirði. Hefur svokölluð staðarvalsnefnd iðnrn. mælt með slíku í bráðabirgðaáliti og fara nú og á næstunni fram ýmsar athuganir á fyrirhuguðum verksmiðjusvæðum. Áfangaálit mun liggja fyrir innan tíðar um þessa verksmiðjuhugmynd, og frumáætlun ásamt markaðsathugun á að ljúka á komandi vetri. A. m. k. 500 þús. kr., eins og ég gat um áður, verður varið í þessu skyni af fjárveitingu til athugana á orkufrekum iðnaði. Hér er um að ræða fyrirtæki, sem ekkert mælir á móti að verði — (Forseti: Nú er þetta að verða að ræðu og það er ekki ræðutími nú.) Ég er að ljúka máli mínu. Með tilliti til þessa og að ekki er ástæða til að skilyrða virkjun á Austurlandi, fremur en aðrar virkjanir fyrir landskerfið, við orkufrekan iðnað með þeim hætti sem tillögur hafa komið fram um frá stjórnarandstöðunni í sambandi við þetta frv., segi ég nei.