22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4945 í B-deild Alþingistíðinda. (5277)

320. mál, raforkuver

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Við þessa umr. bar ég fram spurningar til hæstv. iðnrh. sem eru þannig:

Hefur sú breyting, sem meiri hl. gerði á frv., þá þýðingu, að menn geti treyst því, að iðnrh. hafi skipt um skoðun varðandi það að þjóðhagsleg hagkvæmni virkjunarleiða skuli ráða framkvæmdaröð, en ekki ákvæði stjórnarsáttmálans? Og í öðru lagi: Telur ráðh. orkumála fært að leggja þá fjármuni fram sem þarf til stórvirkjunar á borð við Fljótsdalsvirkjun án þess að hafa áður tryggt kaupanda að orkunni sem þar verður framleidd? Með því að svör hafa ekki fengist mun ég, til þess að gera tilraun til að tryggja raunhæfar framkvæmdir, segja já við þessari tillögu.