22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4947 í B-deild Alþingistíðinda. (5290)

313. mál, steinullarverksmiðja

Frsm. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti iðnn. um frv. til l. um steinullarverksmiðju. Nefndin hefur fjallað um frv. og fengið á fund sinn Vilhjálm Lúðvíksson, Örn Jónsson, Jón Sigurðsson og Guðmund Halldórsson og svöruðu þeir spurningum nm. og gerðu grein fyrir skoðunum sínum á málinu.

Nefndin hafði samþykkt að leita til fleiri sérfræðinga til þess að fá svör við ýmsum spurningum og hafði óskað eftir að sérfræðingar frá Þjóðhagsstofnun, þeir Ólafur Davíðsson og Hallgrímur Snorrason, mættu hjá n. svo og Garðar Ingvarsson frá Seðlabanka. Úr því gat þó ekki orðið sökum þess að þessir sérfræðingar eru fjarverandi úr borginni eins og sakir standa. En ég vil taka það fram, að þessir menn höfðu mætt á fundum iðnn. Ed., en sú deild hafði unnið mjög vel í þessu máli. Mér er örugglega kunnugt að við undirbúning afgreiðslu þeirrar n. lágu fyrir umsagnir þessara manna.

Iðnn. þessarar hv. d. leggur til að frv. verði samþykkt eins og það kom frá Ed., en einstakir nm. áskildu sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.