23.05.1981
Neðri deild: 109. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4988 í B-deild Alþingistíðinda. (5327)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Það er fjarri mér að troða illsakir við nokkurn mann út af þessu máli, allra síst síðasta hv. ræðumann. Ég ætla ekki heldur að fara að endurtaka neitt af því sem ég sagði í síðustu ræðu minni út af þessu máli. Ég vil þakka nm. og öðrum þeim sem unnið hafa að lagfæringu frv. hér á hv. Alþingi og tekið þar til greina margar af ábendingum ráðuneytisins. Það er hverju orði sannara. Og vissulega er það þannig, að þegar frumvörpum er ýtt á flot hér í þinginu er það vitaskuld hv. alþingismanna að móta þau og meitla þar til þau verða að lögum.

En ég vil aðeins taka eitt fram í viðbót við það sem ég sagði áðan. Þegar stjfrv. var raðað í ríkisstj. fyrir skömmu og þau flokkuð eftir því, hvort þau skyldu ná fram að ganga, þá flokkuðum við þau í tvo flokka. Í fyrri flokkinn settum við þau mál sem við töldum nauðsynlegt að hlytu samþykki fyrir þinglok. Í síðari flokkinn settum við þau frv. sem við töldum að vísu æskilegt að næðu samþykki fyrir þinglok, en mættu bíða. Þannig flokkaði ríkisstj. málin fyrir nokkrum vikum með tilliti til þinglausna, og þetta umrædda mál lenti í öðrum flokki.