25.05.1981
Efri deild: 123. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4997 í B-deild Alþingistíðinda. (5348)

320. mál, raforkuver

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er nú augljóst að frv. ríkisstj. um raforkuver, sem hér liggur fyrir og í þeim búningi sem það hefur nú á sig tekið, er ekki fremur en fyrr stefnumarkandi að neinu leyti. Það er í rauninni engin afstaða tekin til framkvæmda og þær heimildir, sem virðast vera veittar, eru síðan teknar aftur í öðrum greinum frv. Sú heimild, sem virðist vera veitt í 1. gr., er tekin til baka í 2. gr., þannig að þessi mál eiga þá að vera jafnóleyst hér eftir og þau hafa verið fram að þessu.

Þær breytingar, sem gerðar hafa verið á texta frv. í meðförum Nd., eru auk þess að ýmsu leyti harla einkennilegar. Það er t. d. tekið fram að ríkisstj. sé heimilt að semja við Landsvirkjun um að reisa og reka tilteknar vatnsaflsvirkjanir, en uns þeir samningar hafi tekist skuli þetta vera í höndum Rafmagnsveitna ríkisins. Hér er ekki gert ráð fyrir að samningar geti tekist né heldur hvernig með skuli fara ef þeir samningar takast ekki. Ég held að það sé harla óvenjulegt að ríkisstj. afsali sér þannig eiginlega öllum rétti til þess að láta ekki samninga takast. Og þá spyrja menn: Til hvers er að semja?

Í annan stað hefur verið gerð breyting á þá lund, að tillögur um framkvæmdir við nýjar vatnsaflsvirkjanir og virkjunaráfanga skuli lagðar fyrir Alþingi til samþykktar. Ég vek athygli á því, að þetta orðalag þýðir í rauninni það, að engar framkvæmdir megi gera í vatnsaflsvirkjunum öðruvísi en leggja þær fyrir Alþingi, og skiptir ekki máli hvað um er að ræða. Það að virkja vatnsafl er annaðhvort að reisa vélar til þess að nýta vatnsafl, sem fyrir hendi er, ellegar þá að ná vatnsafli inn í virkjanir, sem fyrir hendi eru, þannig að í raun og sannleika þýðir þetta orðalag það eitt, að ekkert megi gera. Og orðið „nýtt“ þýðir náttúrlega ekkert sérstakt í þessu samhengi. Það er þess vegna kannske ekki nema von að hv. iðnn.

Nd. sæi ástæðu til að fjalla sérstaklega um þennan þátt. Og hún gefur út skýringu á hvað þetta eigi að þýða í framkvæmd, sem stangast gersamlega á við það sem í rauninni stendur í frv.-textanum. Ég skal ekki fjölyrða frekar um það, en ég held að þetta sé ekki til fyrirmyndar um vinnubrögð, að þurfa þannig að taka til baka í nál. það sem stendur í frvgr.

Það, sem er megingalli þess frv. sem hér liggur fyrir, er annars vegar það, að engar heimildir eru veittar, og hins vegar það, að engin afstaða, engin stefnumótun er tekin að því er varðar orkufrekan iðnað. Án uppbyggingar í orkufrekum iðnaði og stóriðju er upplýst að skurðgröftur og stíflur á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu muni nægja okkur til raforkuöflunar til þeirra þarfa sem við höfum, a. m. k. út áratuginn. Þá þurfa Austfirðingar ekki að hugsa mikið um vatnsaflsvirkjun í sínum landshluta eða atvinnuuppbyggingu þar. Þá þurfa Norðlendingar ekki heldur að hugsa um það í bráð. Það er kannske skýringin á því, að ríkisstj. sér ekki ástæðu til að raða þeim framkvæmdum sem hér um ræðir, að hún telji sig hafa heilan áratug til stefnu til þess að taka þá ákvörðun.

Það hefur komið fram í viðtölum við ýmsa sérfræðinga og þá sem að orkumálum starfa, í hvert óefni sé í rauninni komið sakir þess stefnuleysis sem ríkir, hefur ríkt og ríkir áfram miðað við það frv. sem hér um ræðir. Það kom fram hjá orkuspárnefnd, að í rauninni væri harla tilgangslaust hjá henni að reyna að gera orkuspá þegar stefnan varðandi orkunotkunina lægi ekki fyrir. Hún skilaði þess vegna örlitlum prósentureikningi um það, hvernig þetta gæti þróast fram til ársins 2000 að því er varðar almenna notkun. Að öðru leyti vísaði orkuspárnefnd málinu frá sér.

Það kom líka mjög glögglega fram í viðtölum n. við sérfræðinga iðnrh. og þeirra sem að orkumálum starfa, að það væri ekki nema vonlegt að það rækist svolítið á hér og hvar í grg. ráðh. um það, hvers konar virkjanir hugmyndin væri að reisa. Hið uppsetta afl, sem um væri talað, væri sveiflukennt eftir því hvar menn væru að lesa í grg. Það væri stundum talað um 330 mw. í Fljótsdalsvirkjun, en stundum t. d. 270. Skýringin var sú — og það kom mjög greinilega fram — að án stefnumörkunar um það, til hvers eigi að nýta raforkuna, sé í rauninni ekki hægt að taka ákvörðun um það, hvers konar vélar eigi að kaupa, hversu mikið uppsett afl skuli vera í þeim virkjunum sem hér um ræðir. Ég rek þetta sem dæmi um það, að stefnuleysið, sem ríkt hefur í þessum efnum, þýðir það, að ekki er hægt að taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegt er að taka, ekki einu sinni undirbúningsákvarðanir af þessu tagi varðandi uppsett afl, svo að dæmi sé tekið.

Þá má spyrja hvernig stefnan þurfi að vera. Ég held að augljóst sé að það þurfi að setja fram föst markmið sem hugmyndin sé að stefna að, setja fram í öðru lagi hvernig staðið skuli að málum miðað við þessi markmið og í þriðja lagi að veita þær heimildir sem á þarf að halda. Tillögur þær, sem ég mæli hér fyrir, eru einmitt af þessu tagi. Þar eru sett fram föst markmið í orkusölumálum og að því er varðar uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Það er yfirlýst markmið samkv. því sem hér segir að störfum skuli haga þannig að sala raforku til orkufreks iðnaðar a. m. k. fjórfaldist fram til ársins 1999. Þetta er hið raunverulega markmið. Það er líka gerð grein fyrir því, hvernig staðið skuli að orkusölunni og uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Að því er hinn orkufreka iðnað varðar er sérstaklega tekið fram að unnið skuli að því að þrjú ný iðjuver rísi á sviði orkufreks iðnaðar, auk stækkana á þeim iðjuverum sem fyrir hendi eru, þ. e. eitt á Austurlandi, eitt á Norðurlandi og eitt á suðvesturhorni landsins.

Það er líka gerð grein fyrir því, að með framkvæmd þessara mála verði teknir upp nýir hættir, vegna þess að það liggur augljóslega fyrir að hæstv. iðnrh. og ríkisstj. hafa ekki áhuga né getu eða vilja til að standa að þessum málum með þeim hætti sem nauðsynlegt er til þess að árangur náist. Þess vegna er gerð tillaga um það, að Alþingi taki málin í sínar hendur.

Í þriðja lagi eru í þessari till. okkar afdráttarlausar heimildir til virkjunarframkvæmda í samræmi við þessa stefnu. Þar er heimilað að virkja allt að 250 mw. í uppsettu afli á Þjórsár-Tungnaársvæðinu, í annan stað að virkja Blöndu, þegar tryggð hafa verið nauðsynleg réttindi vegna virkjunarinnar, og í þriðja lagi virkjun Jökulsár í Fljótsdal. Þetta eru þeir meginþættir sem felast í þeim brtt. sem ég mæli hér fyrir. Með samþykkt þeirra hefði afdráttarlaus stefna verið upp tekin.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að það er stefna flm. þessara brtt. að uppbygging virkjana og orkufreks iðnaðar fylgist að og miðist við a. m. k. fjórföldun sölu á raforku til orkufreks iðnaðar fram til ársins 1999, jafnframt að þeim virkjunum sem hér er sérstaklega fjallað um, viðbótum á Þjórsár-Tungnaársvæðinu, Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun, sé öllum lokið á 8–10 árum. Í lagafrv. ríkisstj. kemur engin stefna fram í þessum efnum og í grg., sem oft er vitnað í, er slegið úr og í. Þar er t. d. víða talað um 15 ára framkvæmdatíma að því er varðar þessar virkjanir. Í máli stuðningsmanna ríkisstj., eins og hæstv. viðskrh., hefur annað veifið verið talað um 12 ár eða svo. En þetta svífur þó allt í lausu lofti og augljóslega engin afstaða tekin til orkufreks iðnaðar, ekki einu sinni í grg., og undirbúningur þess þáttar er í algerum ólestri. Á einum stað í grg. er meira að segja talað um að miðað við 15 ára framkvæmdatíma verði bara hreinlega 2400 gwst. í afgang umfram þarfir. Þetta er sú vörutegund sem ekki er heppilegt að vera með afgang af, heldur verða menn að finna nýtingu og not fyrir hana.

Ég hef líka tekið eftir því, að í máli ýmissa stuðningsmanna ríkisstj. er oft vitnað til álits Þjóðhagsstofnunar um virkjanahraða sem fylgir þessu frv. í grg. Ég vil bara vekja athygli deildarinnar á því, að það er ekkert álit Þjóðhagsstofnunar í þessari grg. Þjóðhagsstofnun lýsir m. ö. o. engu áliti á þessum virkjunarframkvæmdum í því plaggi sem er fskj. í grg. með þessu frv. Það eina, sem gerst hefur, er að iðnrn. hefur sett fram hugmynd um framkvæmdamagn í orkufrekum iðnaði og í raforkuverum á næstu 10 árum. Það er hvergi hægt að lesa nákvæmlega hvað sé átt við með þessu framkvæmdamagni, en væntanlega er þá virkjunarhraðinn miðaður við 12–15 ár, ef eitthvert mark má taka á þeim málflutningi sem hefur verið hafður hér uppi.

Það sem Þjóðhagsstofnun hefur gert við þetta dæmi iðnrh., — sem ríkisstj. og ráðherrar hafa ekki tekið afstöðu til hvort sé stefnumarkandi eða ekki, það kemur hvergi neitt fram um það, þetta er einungis dæmi, — það sem Þjóðhagsstofnun hefur gert varðandi þetta dæmi er að reikna út hvað það svari til hás hlutfalls af vergri þjóðarframleiðslu í fjárfestingu á hverjum tíma og hvað það svari til margra prósenta af fjárfestingu eða fjármunamyndun á hverjum tíma. En það kemur hvergi fram stafkrókur í þessu blaði frá Þjóðhagsstofnun um það, hvert sé álit hennar eða mat hennar á þessu dæmi frá hæstv. iðnrh. eða iðnrn., sem við vitum reyndar ekki einu sinni hvort er stefna ríkisstj., þannig að það er rangt þegar menn vitna til þess, sem hér um ræðir, sem álits Þjóðhagsstofnunar. Prósentutölurnar, sem þar eru upp gefnar, það töfluverk, sem þar um ræðir, og sá texti, sem þar er með, er einungis skýringar á því töfluverki. Í því felst engin skoðun af hálfu Þjóðhagsstofnunar. En þessir útreikningar eru engu að síður athyglisverðir. Það dæmi, sem iðnrn. eða hæstv. ráðh. hefur beðið um að reiknað verði, gerir nefnilega ráð fyrir mun minni orkuframkvæmdum en verið hafa að undanförnu.

Ef við lítum á þær upplýsingar, það töflu- og talnaverk sem þarna birtist frá Þjóðhagsstofnun, kemur í ljós að orkuframkvæmdir hafa á árunum 1975–1981, á s. l. sex árum, verið að jafnaði 5.44% af vergri þjóðarframleiðslu. Þær hafa verið 5.44%. En fylgiskjalsstefnan — ég kann ekki annað orð yfir það dæmi sem vitnað er til, ég veit ekki hvort það er stefna ríkisstj. — gerir ráð fyrir að um verði að ræða 3.5% af vergri þjóðarframleiðslu að jafnaði á þessu 10 ára tímabili.

Að því er varðar framkvæmdir í orkufrekum iðnaði og stóriðju er það svo, að á undangengnum árum, þegar slíkar framkvæmdir hafa verið í gangi, hafa þær verið t. d. á árunum 1978–1980 1.43% af vergri þjóðarframleiðslu. Þær voru reyndar langtum meiri hér á árunum 1968–1969, þá voru þær 3.7 og 4.3% af vergri þjóðarframleiðslu. En í fylgiskjalsstefnunni, sem við vitum ekki hvort er stefna ríkisstj., er gert ráð fyrir að þetta sé 1.5%. Ef við tökum þetta hvort tveggja saman, þá gerir fylgiskjalsstefna ríkisstj. ráð fyrir framkvæmdum sem nema 5% af vergri þjóðarframleiðslu samtals í orkufrekum iðnaði og í orkuverum. En reynsla síðustu ára svarar til um 7%, 5.44% að viðbættum 1.4–1.6%. Það, sem fskj. gerir ráð fyrir, er því 30% minna en það sem verið hefur að því er varðar framkvæmdamagn miðað við þjóðarframleiðslu á undanförnum árum. Og það er alveg sama þó að við lítum á töfluverkið varðandi fjármunamyndun. Ef við tökum þessa tvo þætti, iðjuverin og orkuverin, og gætum að því, hvað þeir hafi verið stór hluti fjármunamyndunar á þeim árum sem ég hef hér áður vitnað til, þá hefur það verið 25.4% að jafnaði á þeim árum. En samkv. fylgiskjalsstefnunni er það langtum lægra. Það eru einungis 3/4 hlutar af því sem þar um ræðir eða 18.8%. Þegar fulltrúar ríkisstj., t. d. hæstv. menntmrh. eða viðskrh., eru að tala um að hér sé fylgt einhverri stórhuga stefnu og hér sé um stórkostlegt átak að ræða, þá eru þeir að lýsa yfir stuðningi við að framkvæmdahraðinn verði minni, að áherslan á þessum atriðum verði minni en verið hefur að undanförnu, svo að nemur um 30%. Sannleikurinn er sá, að ef við lítum bara á þessar tölur, 5 og 7% — að undanförnu 7%, 5% samkv. fylgiskjalsstefnunni, þá þarf að auka framkvæmdahraðann um 40% til þess að ná því sem hefur verið að undanförnu í orkuframkvæmdum og í orkufrekum iðnaði. Það þarf 40% meiri hraða en gert hefur verið ráð fyrir í fskj. Það kemur líka heim og saman við það sem við talsmenn Alþfl. höfum sérstaklega haft á oddinum í þessum efnum. Við höfum bent á það, að ef framkvæmdahraðinn væri 50% meiri en á s. l. 15 árum, þá ætti að virkja þetta á 8 árum. Það svarar til um 20–30% meiri virkjunarhraða en á því tímabili sem ég vitnaði til hér áðan, þannig að svipað framkvæmdamagn og verið hefur á næstliðnum árum í orkuframkvæmdum og í stóriðjuframkvæmdum svarar til um 10 ára. Ef menn vilja herða eitthvað á, þá eiga menn að stytta framkvæmdatímann fyrir þær þrjár virkjanir sem hér um ræðir sem því nemur. Þetta vildi ég að kæmi glögglega fram.

Stefna þeirra brtt., sem ég mæli hér fyrir, er frábrugðin stefnu ríkisstj. eða stefnuleysi í fáeinum grundvallaratriðum. Í fyrsta lagi viljum við ákveða að stefnt verði að því að virkja af meiri krafti en að undanförnu, í staðinn fyrir af minni krafti eins og helst verður ráðið af þeim gögnum sem fyrir liggja og ég hef hér rakið.

Í öðru lagi viljum við að menn setji ákveðin markmið um það, hvað menn ætli sér í þessum efnum, og taki strax til við að vinna að orkusölu og uppbyggingu orkufreks iðnaðar í samræmi við þá stefnumótun. Það má þá slaka á í þeim efnum ef ekki reynast hagkvæmir virkjunarkostir, þ. e. söluvalkostir á raforkunni sem þessari stefnu nemur, en hún á að vera tilbúin og það á að vinna samkv. henni. Það er ekki hægt að hafa alla enda lausa.

Í þriðja lagi viljum við að settur verði þróttur í að afla þeirra tækifæra í orkufrekum iðnaði sem fyrir hendi eiga að vera. Við teljum nauðsynlegt, eins og nú er komið málum, að Alþingi taki þau mál að sér með því að kjósa sérstaka nefnd í þennan þátt.

Enn viljum við leggja áherslu á það, að til þess að geta nýtt þau tækifæri, sem bjóðast í framtíðinni, eigi að vera tiltækir nokkrir virkjunarvalkostir sem séu tilbúnir til útboðs þannig að grípa megi þau tækifæri sem gefast með skjótum hætti. Við viljum ekki láta draga úr framkvæmdahraða við virkjanir eins og stefna ríkisstj. er. Við viljum láta herða á framkvæmdahraðanum, en þá vitaskuld þannig að það fylgist að, að unnið sé að öflun tækifæra til að selja þessa orku jafnhliða því að unnið verði að undirbúningi virkjananna og framkvæmdum. Við viljum að höggvið verði á þann hnút úrræðaleysis, sem hér hefur ríkt að undanförnu, og menn geti snúið sér að framkvæmdum og raunhæfum verkefnum frekar en standa áfram í þeim sporum úrræðaleysis og ákvarðanaleysis sem viðgengist hefur að undanförnu, þeim sporum sem einkennast fyrst og fremst af orðagjálfri og skæklatogi.