25.05.1981
Efri deild: 124. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 5006 í B-deild Alþingistíðinda. (5357)

320. mál, raforkuver

Egill Jónsson:

Herra forseti. Svo sem kunnugt er hafa nú verið felldar tillögur minni hl. iðnn. Ed. Alþingis og þær till. sem voru fluttar hér af stjórnarandstöðunni, en þar fólust einmitt mikilvægustu ákvæði varðandi framgang Fljótsdalsvirkjunar. Það hefur komið mjög greinilega í ljós og reyndar verið á allra vitorði um langan tíma, að forsenda Fljótsdalsvirkjunar væri sú, að stóriðja yrði tekin upp í allríkum mæli í nágrenni þeirrar virkjunar. Hversu stór sú iðja þarf að vera fer eftir því, hversu mikill hluti af raforku frá Fljótsdalsvirkjun færi inn á kerfið til hinna almennu nota, og mundi þannig að verulegu leyti markast af því, hvar sú virkjun verður sett inn í lög. Um hitt þarf ekki að deila, að virkjun í Fljótsdal án stóriðju þar í grennd er nánast útilokuð.

Það hefur komið mjög greinilega fram í umfjöllun iðnn. Ed. um önnur mál er snerta orkunýtingu, og þá sérstaklega það sem fjallaði um steinullarverksmiðju, að þeir sérfræðingar, sem þar voru til viðræðu við nefndina, töldu að venjulegar samningaviðræður um kaup á framleiðslu slíkra verksmiðja gengju ekki sem grundvöllur að ákvarðanatöku. Til þess að hægt væri að taka ákvarðanir um framkvæmdir þyrftu að liggja fyrir ákveðnir viðskiptasamningar. Það er þess vegna alveg nauðsynlegt að hafist verði handa í sambandi við Fljótsdalsvirkjun og að þegar í stað verði gerðar ráðstafanir til þess að leita eftir orkukaupanda í sambandi við áformaða stóriðju staðsetta við Reyðarfjörð.

Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi fór þess bréflega á leit við alþm. af Austurlandi, að þeir flyttu till. til þál. hér á Alþingi sem hnígur nálega alveg í sömu átt og þessi till. Má því segja að hún sé flutt m. a. í beinu framhaldi af þeirri málaleitan og svo vegna þeirra margháttuðu skýringa sem fram hafa komið við umfjöllun hér á Alþingi um það, að þegar verði tekið til handanna í fullri alvöru við að leita eftir orkukaupanda í sambandi við stóriðju við Reyðarfjörð og skapa þannig grundvöll að þeirri virkjunarframkvæmd. Af þessari ástæðu og með tilliti til þess, að þær tillögur, sem hafa mjög hnigið í þessa átt, hafa nú verið felldar, hef ég ásamt hv. þm. Kjartani Jóhannssyni lagt hér fram skriflega tillögu sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 2. gr. Á eftir 2. mgr. komi ný mgr. er hljóði svo: Ríkisstj. skal þegar leita eftir samningum um sölu raforku til orkufreks iðnaðar með stóriðju staðsetta á Reyðarfirði fyrir augum.“

Ég vænti þess, herra forseti, að þd. veiti afbrigði til að þessi till. megi koma hér til afgreiðslu.