13.11.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

51. mál, bygging útvarpshúss

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það var kannske ekkert sérstakt tilefni til þess að ég færi að koma aftur í ræðustól. Ég felldi mig ágætlega við margt af því sem hv. 10. þm. Reykv. var að segja hér, að mörgu leyti ágætlega. Hann kastaði að vísu nokkrum hnútum í þessum leik, eins og við gjarnan gerum hér á hv. Alþ. En í sambandi við það sem ég sagði áðan um vilja minn til að koma þessu máli fram og hvernig ég hef unnið að því, þá finnst mér þó rétt að ég endurtaki það mál nokkuð til að útskýra hvað ég átti við. Það kemur ákaflega vel fram í hinu margfræga bréfi mínu til fjvn. Alþ., sem af einhverjum ástæðum hefur verið mistúlkað eða lagt út eins og það væri eitthvert óvenjulegt bréf, sem ég tel að alls ekki sé. Þetta er stutt minnisblað nánast sem ég hef skrifað fjvn. henni til minnis við meðferð fjárlaga að því er varðar þessa stofnun sem við erum að ræða um hér, Ríkisútvarpið.

Það, sem ég legg áherslu á í þessu bréfi, er m.a. þessi klausa: „Brýnt er að finna lausn á þeim margslungna vanda sem hér er um að ræða“ — þá er ég að tala um Ríkisútvarpið, bygginguna og fleiri mál — „og óskað eftir góðu samstarfi við fjvn. í þessu sambandi.“

Þetta er í raun og veru það sem ég hef fyrst og fremst lagt áherslu á, að allir þættir stjórnkerfisins vinni saman.

En ég tók það fram í ræðu minni áðan, enda væri ekki alveg rökrétt mitt mál ef ég segi ekki hver skoðun mín er, að ég tel að Ríkisútvarpið hafi fullt vald á byggingarsjóðnum. Hins vegar hef ég ekki talið rétt að fara að beita því valdi af einhverri hörku nú á þessari stundu meðan verið er að reyna að samhæfa störf allra þátta ríkiskerfisins, bæði hvað varðar Alþingi og stjórnarráðið og einstakar nefndir á vegum Alþingis og stjórnarráðsins. Það fer ekkert milli mála, að ég tel að útvarpið hafi fullt forræði þessa sjóðs og að það sé mjög óheppilegt að samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir skyldi setja þessi höft á framkvæmdina og sem sagt á fjárræði og forræði sjóðsstjórnarinnar, útvarpsins, og ég vil að það mál verði teyst með góðu, en ef það tekst ekki hef ég leyft mér að minna á það, að ráðh. hlýtur að hafa vald í þessu máli og á að hafa rétt til að nota það fé, sem í sjóðnum er, til þeirra þarfa sem sjóðnum er ætlað að sinna. En ég legg mikla áherslu á gott samstarf í þessu sambandi. Ég tel að fjvn. eigi að fylgjast með þessu máli, vita hver vandinn er og vinna að lausn hans í samstarfi við ríkisstj. rétt eins og siður er í hvert sinn sem fjárlög eru til meðferðar. Ekkert fjárlagafrv. er fullkomið. Ekkert fjárlagafrv. er lagt fram sem einhvers konar lokatilskrift. Það er ekkert „afgert“ mál. Það er þingsins að fjalla um fjárlagafrv., og ég held að allir ráðh. verði að leita til þingsins, ekki ég einn, heldur allir ráðh. Þeir vilja eiga samstarf við fjvn. og þurfa að hafa samstarf við fjvn. Menn nálgast fjvn. kannske með mismunandi hætti, en ég hef kosið að gera það með þessu stutta minnisblaði um málefni Ríkisútvarpsins sem ég tel öðrum málum brýnni af þeim málefnum sem heyra undir mitt rn.