20.10.1980
Efri deild: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

27. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Vegna fjarveru hæstv. heilbr.- og trmrh. vil ég mæla örfá orð með þessu frv.

Það er svo ákveðið í 73. gr. laga um almannatryggingar frá 1971, að mæður, sem fá úrskurð yfirvalds um meðlag með börnum sínum, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins með úrskurðinn og fengið meðlagið greitt þar. Þetta frv. felur það í sér, að á sama hátt geti móðir fengið meðlag greitt með barni sínu eftir að barnsfaðernismál er höfðað, þó að meðlagsúrskurður liggi ekki fyrir. Það er réttlætismál að þessi breyting sé gerð.

Nokkrar aðrar breytingar eru ráðgerðar. Önnur aðalbreytingin felst í 5. mgr. 1. gr. frv., einnig breyting á 73. gr. laganna. Það er í sambandi við skil frá Innheimtustofnun sveitarfélaga til Tryggingastofnunar. Það hafa komið athugasemdir frá ríkisendurskoðun undanfarin ár um síðbúin fullnaðarskil frá innheimtustofnuninni. Hefur endurskoðunin lagt til að almannatryggingalögunum verði breytt á þá lund sem hér er greint, þ.e. að í stað þess að skiladagur skuli vera 1. okt. skuli skiladagar vera 1. mars, 1. júní og 1. okt.

Ég ætla að þetta séu meginbreytingar frv. Legg ég til að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.