17.11.1980
Neðri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

85. mál, þingfararkaup alþingismanna

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnislega það frv. sem hér liggur fyrir, en vegna orða síðasta hv. ræðumanns vil ég láta koma skýrt fram að það voru missagnir í ræðu hans. Ég skal ekki fullyrða hvort missagnir hafa verið á mörgum stöðum, en mér er kunnugt um að það var hv. fyrrv. þm. Ellert B. Schram sem samdi og var flm. ásamt Gylfa Þ. Gíslasyni að frv. varðandi þingfararkaup alþingismanna, eins og skýrt og greinilega kom fram í umr. um það mál á þeim tíma, þegar hv. þm. Vilmundur Gylfason og Eiður Guðnason endurfluttu þá till. með lítils háttar breytingum.

Þetta vildi ég láta koma skýrt fram þannig að allir fái maklega um sig mælt í bókum Alþingis. Hitt er svo annað mál, að ég er einn þeirra sem studdu það grundvallaratriði sem síðasti hv. ræðumaður ræddi um, og ég fagna því eins og hann, að nú skuli langflestir þm. vera komnir á sömu skoðun og fyrrv. hv. þm. Ellert B. Schram hafði og bar fyrstur fram á sínum tíma í frv.-formi á Alþingi.