18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég heyri að ráðh. þrír — ég kalla þá nú ekki Gísla, Eirík og Helga — eru að hvísla um það sín á milli að Tómas sé hugrakkur að koma hér upp í stólinn. Það er meira en hægt er að segja um þá. Mér fannst svarið ekki röggsamlegt né skýrt miðað við þau fyrirheit sem hæstv. utanrrh. gaf okkur fyrir viku um það, að hann mundi beina því til hæstv. viðskrh. að hann reyndi að svara þeim spurningum sem hér kæmu fram. Nú hefur verið haft eftir hæstv. viðskrh. í dagblöðunum að hann hafi í hyggju að fresta 1. des. — eins og Jónas Árnason í Deleríum búbónis forðum frestaði jólunum — eða kannske þeim efnahagsaðgerðum eða vísitölubótum sem þá eiga að ganga í gildi, og hefur hann haft um það stór orð, hvaða afleiðingar það mundi hafa fyrir þjóðatbúið ef öll þessi holskefla, allar þessar umsömdu launahækkanir gangi fram sem hæstv. fjmrh. hafði frumkvæðið að að semja um mánaðamótin ágúst-september. Mér er kunnugt um að ýmsir af forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar lita það mjög alvarleg um augum, eins og við fleiri sjálfstæðismenn, ef ekkert hefur komið fram, áður en Alþýðusambandsþingi lýkur, um þau kjaraskerðingaráform sem ríkisstj. hefur sannarlega boðað, bæði í blöðum, í álitsgerðum og í þessum ræðustól.

Hv. 1. landsk. þm., Pétur Sigurðsson, gerði þessi mál að umræðuefni hér í gær. Ég veit ekki hvort hv. 7. þm. Reykv., formaður Verkamannasambands Íslands, Guðmundur J. Guðmundsson, er honum sammála um það, að ástæða sé fyrir verkalýðshreyfinguna til að vera vakandi á verðinum, að reyna að standa vörð um þau launakjör sem ríkisstj. hafði sjálf frumkvæði að því að semja um og síðan voru tekin upp á hinum frjálsa vinnumarkaði löngu síðar. Og ég vil einnig minna á í þessu sambandi, að hæstv. ríkisstj. á óuppgerðan reikning við launþega út af þeim tveim prósentum sem skorin voru niður 1. sept. 1978 með loforði þá um að beinir skattar yrðu lækkaðir, en það var aldrei gerð nein tilraun til að efna það. Ég held að hæstv. fjmrh. ætti að svara þessari spurningu skýrt og skorinort: Hyggst hann beita sér fyrir því núna, maðurinn sem fór fram undir því vígorði fyrir síðustu alþingiskosningar að hann mundi standa vörð um lífskjörin, ætlar hann sem fjmrh. að skila launþegum því sem ranglega var frá þeim tekið þegar hann var menntmrh.?