24.11.1980
Efri deild: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

84. mál, orkulög

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það mætti sitthvað segja um þann málflutning sem hv. 1. flm. þessa frv. viðhafði hér. Ég hafði vikið að því svo ítarlega í ræðu minni fyrr í þessari umr., að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það sem þar kom fram. Það er greinilegt, að hv. flm., Þorv. Garðar Kristjánsson, hefur eðlilega verulegar áhyggjur af ástandi þessara mála innan Sjálfstfl. — og eflaust ekki bara þessara mála, heldur margra fleiri þátta sem eru jafnvel enn þá alvarlegri en sá ágreiningur sem snýr að orkumálunum og skipulagi þeirra þar í flokki.

Hv. þm. hjálpaði til að greina þessi mál, ef litið er til sögunnar, með því að benda á það tímabil sem Sjálfstfl. fór með stjórnarforustu, 1974–1978, og ekkert gerðist í þessum málum annað en það, að reynt var að búa til stefnu í samræmi við hugmyndir hv. flm., þ.e. að brjóta niður raforkuöflunina, hvað skipulag snertir, eftir landshlutum. Það var sú hugsjón sem hann bar fyrir brjósti, og virðist enn þá lifa nokkuð í þeim hugmyndum þó að ljóst sé bæði af þessu frv. og málflutningi hv. þm. að hann er ekki lengur sérlega trúaður á að sú stefna eigi hljómgrunn eða sé líkleg til þess að ná fram að ganga.

Á tímabilinu 1974–1978 var leitast við, eflaust eftir ráðum hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, að koma þeirri stefnu í framkvæmd, að raforkuiðnaðurinn í landinu og raforkuöflunin gerðist fyrst og fremst á landshlutagrundvelli, í fyrirtækjum sem stofnuð væru í hverjum landshluta. Það gerðist á þessu tímabili, að Orkubú Vestfjarða var stofnað, og það var eini árangurinn sem af þessari stefnu varð. Ég er út af fyrir sig ekki að lasta það, að sú tilraun var gerð á Vestfjörðum. Má vel vera að hún geti hentað þar, enda virtist ríkur áhugi á þeirri skipan mála þar í fjórðungnum. En hliðastæður áhugi kom ekki fram annars staðar þrátt fyrir mjög mikla leit og viðleitni stjórnvalda á þessum tíma að þröngva þessum hugmyndum — eða a.m.k. að ýta þessum hugmyndum fast að heimamönnum í hinum ýmsu landshlutum.

Við þekkjum þetta úr hugmyndinni um Norðurlandsvirkjun sem átti eflaust sinn þátt í hvernig á málum var tekið á þessu tímabili í sambandi við raforkuöflun á Norðurlandi. Ég þekki þessa hugmynd af Austurlandi, þar sem settar voru nefndir af hálfu ríkisins og samkv. óskum iðnrn. á þeim tíma, einnig af hálfu heimamanna, til þess að leita stuðnings við það mál að stofna sérstakt orkuvinnslufyrirtæki og orkudreifingarfyrirtæki á Austurlandi. En niðurstaðan úr þeirri leit, sem þá fór fram, var sú, að ekki var nokkur áhugi t.d. á Austurlandi

á því að hverfa að slíku ráði, — ekki nokkur áhugi. Hér er hv. flm. að tala um það, að ég sé á móti því, að fólkið í héraði geti yfirtekið Lagarfossvirkjun og staðið fyrir slíku fyrirtæki sem hefði hana að uppistöðu. Ég vil gjarnan bjóða hv. þm. að heimsækja okkur Austfirðinga og ræða þessi áhugamál sín og leita eftir áhuga þar að lútandi. Hugmyndir komu fram um þetta í kringum 1970 hjá nokkrum mönnum, þ. á m. hjá einum ágætum þáverandi þm. Sjálfstfl., Jónasi Péturssyni. Þetta voru hugmyndir sem kannske var ekkert óeðlilegt að kæmu upp á þessum tíma, þegar ekki höfðu komið fram hugmyndir um samtengingu landshluta, a.m.k. ekki stuðningur við það að tengja raforkukerfi landshlutanna saman. En eftir að það er orðið staðreynd hafa þessar hugmyndir dofnað og raunar alveg hljóðnað í heilum landshlutum. Og það var dálítið athyglisvert þegar verið var að leita eftir því, hvernig í ósköpunum Austfirðingar ættu nú að eignast það raforkukerfi og þær virkjanir sem risnar voru á Austurtandi. Hvernig átti það að gerast, að þeir færu að kaupa sig inn í þetta fyrirtæki? Það kom margt fram, jafnvel nánast broslegt, í sambandi við leit að möguleikum að því leyti um þetta atriði. Ein hugmyndin var sú, að Austfirðingar reiknuðu sér markaðinn til verðs og legðu fram markaðinn sem ígildi peninga til þess að eignast fyrirtækin, sem risin voru, á móti ríkinu. Þetta er aðeins dæmi um hvernig að þessum málum var staðið á þessum tíma.

Meginatriði málsins er það, að hv. flm. þessa frv. vill ekki taka tillit til þeirrar þróunar, sem orðið hefur í raforkuiðnaði landsmanna á undanförnum árum, síðustu 10 árin, og viðurkenna að þær hugmyndir, sem voru á kreiki hér fyrir nokkrum árum, njóta ekki lengur hljómgrunns. Aðstæðurnar eru orðnar aðrar og spurningin er um að viðurkenna þessar breyttu aðstæður og endurmeta málin með eðlilegum hætti í ljósi þess. (ÞK: Hvaða breyttu aðstæður?) Þær breyttu aðstæður eru ekki síst að nú er búið að tengja saman hina einstöku landshluta og menn eru að líta til landsins alls í sambandi við raforkuöflun og meginflutning raforku og vilja einnig tengja það jöfnun á heildsöluverði raforku á einstökum athendingarstöðum. Og það er aðeins að mínu mati til þess að tefja eðlilega framvindu mála að ætla enn að bíta sig fasta í hugmyndir, sem gátu út af fyrir sig verið góðra gjalda verðar fyrir alllöngu, og fara að smíða lög í kringum slíkar gamlar hugmyndir sem eiga sér nánast engan stuðning úti um landið. Vænlegra væri að hverfa að því ráði sem munaði nú ekki miklu að hv. flm. og formaður í skipulagsnefnd raforkumála 1977—1978 hefði valið. Það vantaði mjög lítið á, og hann var nánast að leita að útgönguleið. Og það má segja að það frv., sem hér liggur fyrir og hann hefur fengið nokkra hv, flokksbræður sína til að skrifa upp á með sér, beri einmitt vott um þetta, að hv. flm. var að leita að útgönguleið. Það er þó ekki nógu langt gengið í þeim efnum. Hann er enn þá við sitt gamla heygarðshorn í sambandi við framlagningu þessa frv. og þar vil ég benda á, ítreka aftur það dæmi sem gengur ljósum logum inni í frv. og sérstaklega í grg., að það eigi umfram allt að leggja Rafmagnsveitur ríkisins niður og að eignir þeirra gangi upp í þessi landshlutafyrirtæki sem hann endilega vill stofna.

Varðandi stöðu þessara mála innan Sjálfstfl., þá þekkir hv. flm. auðvitað miklu betur en ég þann skoðanaágreining sem hefur ríkt um þessi mál þar innan veggja, og ég ætla ekki að fara að taka af honum ómakið og útlista það. Það er miklu frekar að hann geri grein fyrir því með skilmerkilegum hætti. En þessi ágreiningur hefur auðvitað birst á undanförnum árum og er skjalfestur í mörgum gögnum. Hann hefur komið fram með svo áberandi og augljósum hætti að ekki þarf að fara langt í að rekja dæmi þar að lútandi. Mætti þó margt um það segja. Hins vegar er það raunalegt, að þessi ágreiningur hefur orðið til þess að töf hefur orðið á þeirri endurskipulagningu raforkuiðanaðarins í landinu, sem er knýjandi að gangi fram og okkur hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson greinir, held ég, ekki á um að er mjög æskilegt að fái lausn fyrr en síðar. En ég hef ekki talið réttmætt að fara að leggja hér fram lagafrv. í þinginu á meðan vissir þættir þessara mála eru í þróun, eru í mótun, á meðan í gangi eru samningaviðræður milli aðila sem munu taka af skarið um það m.a., hvort Laxárvirkjun og Landsvirkjun sameinist mjög fljótlega, og þá er væntanlega endanlega úr sögunni hugmyndin um Norðurlandsvirkjun sem sjálfstætt orkuöflunarfyrirtæki, þegar sú sameining hefur orðið. Og ég veit ekki annað en þróun mála sé í þá átt og þetta geti orðið niðurstaða fyrr en síðar.

Hv. þm. spurði um einstaka þætti frv. og hvort ég væri ekki sammála því, að þeir gætu horft til bóta. Ég tók svo til orða í máli mínu áður, að vissir þættir í þessu frv. væru þannig, að líta bæri jákvætt á þá þegar orkulög verða endurskoðuð í heild sinni. Þau atriði eru í skoðun, eins og ég hef fram tekið, og geta legið fyrir með gleggri hætti innan tíðar. Þau varða m.a. Orkustofnun, þau varða Orkusjóð og þau munu einnig varða raforkudreifinguna þegar þar að kemur. En ég hef talið eðlilegt að reynt yrði að gera upp spurninguna um raforkuöflunina og meginraforkuflutning áður en farið væri að líta til dreifingarinnar innan landshluta og hjá smásöluaðilum að þessu leyti.

Hv. þm. spurði t.d. hvort ég hefði á móti því, að Orkusjóður yrði stórefldur. Ég hef sannarlega ekki á móti því, að Orkusjóður verði efldur. En ég tel hins vegar að það þurfi ekki að felast í því endilega að fært sé meira fé í gegnum Orkusjóð en nauðsyn krefur og æskilegt er með tilliti til viðskiptaaðila Orkusjóðs með auknum tilkostnaði, eins og nokkur dæmi eru um. Þess vegna er m.a. verið að greina fjárstreymi í gegnum Orkusjóð og hvað sé eðlilegt að færist þar í gegn og hvað ekki.

Ég ætla ekki að taka tíma hv. þd. frekar í sambandi við þetta mál. Ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti því, að menn viðri hér hugmyndir og leggi þær fram í frv.-formi, eins og hér hefur verið gert. Það getur vissulega verið gagnlegt. En það frv., sem hér liggur fyrir, er með þeim hætti, að það er ekki hægt að mæla með samþykkt þess. Það getur ekki orðið sú uppistaða í orkulögum sem setja þarf innan tíðar.