24.11.1980
Neðri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

70. mál, tollskrá

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Í sambandi við þetta frv. þykir mér ástæða til að nota tækifærið og ítreka enn, sem raunar hefur komið áður fram í hv. deild á þessu þingi, þá ósk til hæstv. fjmrh., að þeirri endurskoðun á tollalögum að því er varðar tollaívilnun og lækkun innflutningsgjalda af bifreiðum til öryrkja, sem hefur farið fram eða fer fram í rn., verði hraðað mjög vegna þess að tíminn líður og senn er komið að því, að það þarf að fara að vinna að úthlutun á eftirgjöf fyrir árið 1981. Þess vegna er það mál mjög aðkallandi.

Það voru gefin um það fyrirheit í lok síðasta þings, að endurskoðun lægi fyrir í byrjun þessa þings. Ég kalla mjög eftir henni í sambandi við þetta mál og vil einnig endurtaka það sem þá kom einnig fram við umr., að það þarf að setja skýrari mörk í sambandi við tollalækkun eða niðurfellingu tolla af ýmsum tækjum fyrir fatlað fólk, en það hefur valdið miklum misskilningi í tollafgreiðslu og valdið mörgum öryrkjum eða fötluðu fólki erfiðleikum að óþörfu, að táðst hefur að skýra betur tollalöggjöfina að því er það varðar.

Fram hefur komið viljayfirlýsing frá hæstv. fjmrh. um að þessi endurskoðun komi fram á þessu þingi. Um leið og ég ítreka með hv. frsm. þessarar till., að þetta mál fái að fara í gegnum þingið, vil ég nota þetta tækifæri til að ítreka þá kröfu til hæstv. fjmrh., að þessi endurskoðun fari að sjá dagsins ljós.